(Erindi flutt í Friðarhúsi 17. október 2015, birt á fridur.is 25. október)
Fyrst eru það nokkrar staðreyndir sem að minni hyggju eru fyrirfram gefnar og ég mun ekki rökstyðja hér nema að litlu leyti. Flest af því má sjá grundað og rætt á vefsíðu minni.
Eitt: Heimurinn horfist í augu við mesta flóttamannavanda frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Tvö: Flóttamannastraumur þessi er að mestu afleiðing styrjalda. Flóttamannastofnun SÞ segir að mikill meirihluti flóttafólksins sem kom yfir til Evrópu á fyrrihluta árs 2015 hafi flúið stríð, átök og ofsóknir. Þrjú: Versta átakasvæðið er í Miðausturlöndum í víðum skilningi. þ.e. fyrir botni Miðjarðarhafs og á aðliggjandi svæðum. Fjögur: Stríðin sem geysa og hafa geysað í Miðausturlöndum og N-Afríku eru ránsstyrjaldir vestrænna stórvelda, oft háð gegnum staðgengla. Þar af eru hin stærstu Íraksstríðið, nánar tiltekið þrjú Íraksstríð, Afganistanstríðið, stríð í Líbíu, stríð í Sýrlandi. Stríðin snúast um áhrifasvæði heimsvaldasinna, eru ný útgáfa nýlendustyrjalda. Svo vill til – ekki tilviljun samt – að löndin sem verða vettvangur stríðsins eru olíulönd eða gegna lykilhlutverki í olíuflutningum. Árásaraðilinn er Bandaríkin og NATO. Fimm: Ísland hefur stutt öll þessi nýlendustríð vestrænna stórvelda.
Þriðja heimsstyrjöldin
Við skulum fyrst skoða aðeins nánar þessi nýju nýlendustríð. Þá kemur í ljós að þau eru ekki aðskildir atburðir. Þetta eru seríustríð. Sérstaklega frá 11. september 2001 hafa stríðin blossað upp eins og jólasería þar sem raðkviknar á perunum, sem sagt í einu samhangandi ferli. Stríðið gegn hryðjuverkum, stríðið gegn Írak, gegn Sýrlandi, gegn Líbíu, austur-Úkraínu, allt er þetta sama stríðið. Lógíkin í þessum stríðum er barátta um heimsyfirráð, þau beinast gegn keppinautum Bandaríkjanna og NATO.
Það má tala um þessi seríustríð sem nýja heimsstyrjöld, þriðju heimsstyrjöldina eða þá fjórðu ef kalda stríðið var talið sem sú þriðja. Það má tímasetja upphaf þessarar heimsstyrjaldar: 11. eptember 2001. Það höfðu geysað stríð sem voru undanfarar hennar, svo sem Persaflóastríðið og stríð í gömlu Júgóslavíu. En til að koma hnattrænu stríði af stað þurfti stórviðburð – það þurfti að eyðileggja goðsagnarkenndar byggingar og drepa mikinn fjölda manns – Bandaríkin þurftu sárlega nýjan óvin eftir Sovétríkin til að geta áfram byggt upp hið hnattræna hernaðarkerfi sitt. Þessum stórviðburði var komið í kring 11. september.
Dick Cheney útskýrði eðli hins nýja stríðs, stríðs gegn hryðjuverkum og sagði: „Það er ólíkt Persaflóastríðinu að því leyti að það endar kannski aldrei, alla vega ekki meðan við lifum“. Baráttumaðurinn John Pilger orðaði innihald hins nýja stríðs svo: „Nafn óvina „okkar“ hefur breyst gegnum árin, frá kommúnisma til íslamisma, en almennt er það sérhvert samfélag sem er sjálfstætt gagnvart vestrænu valdi og er á hernaðarlega mikilvægu og auðlindaríku svæði, eða einfaldlega býður upp á valkost við vestræna drottnun.“