(birtist á fridur.is 28/7 2015)
Sýrland er nú í reyndinni vettvangur innrásar NATO-veldanna – í framhaldi af árásunum á Júgóslavíu, Afganistan, Írak og Líbíu, sem eftir á liggja í upplausn og/eða rústum. USA og NATO-veldin meta Sýrland sem veikan hlekk í keðju andstæðinga sinna. Með Sýrland (og Hizbolla) úr leik er hægara að koma Íran á kné og tryggja þannig yfirráð USA og Vesturvelda í Miðausturlöndum, þá hefur vígstaða Kína og Rússlands veikst verulega…
Bandaríkin stunduðu ákafan liðssafnað gegn Sýrlandi árin 2011-13. Árið 2013 var unnið stíft að loftferðabanni og loftárásum líkt og í Líbíu 2011. Yfirvarpið sem nota skyldi til árásar var eiturgasvoðaverk nærri Damaskus í águst 2013. Flugherirnir og móðurskipin voru tilbúin. En yfirvarpið reyndist of gegnsætt, m.a.s. of götótt fyrir breska þingið. Snjallari taktík af hálfu strategistanna, meiri tími og undirbúningur reyndist nauðsynlegur. Lausnin varð flókin blanda af trúarbragðadeilu og staðgengilsstríði og svo endurnýjun þess „stríðs gegn hryðjuverkum“ sem USA og NATO höfðu ritað á stríðsfána sína árið 2001. Herskáir íslamistar eru þar í afar stóru en breytilegu hlutverki fyrir vestræna heimsvaldasinna.