Við erum kaffærð í fréttum af hryðjuverkum og
hryðjuverkasamtökum. Það sem af er árinu 2015 hafa fjölmiðlar verið bólgnir af
skelfingarsögum af Íslamska ríkinu í Arabalöndum, samtökum sem ku ógna vestrænni
siðmenningu; einnig bólgnuðu þeir vegna morðanna á ritstjórnarskrifstofu
Charlie Hebdo í París. Bræðurnir Kouachi voru nýkomnir úr stríðinu í Sýrlandi
og ekki langsótt að tengja þá við Íslamska ríkið. Mikið kastljós beindist í framhaldinu að varðstöðu
vestrænna leiðtoga um tjáningarfrelsið og hertan lofthernað þeirra gegn
hryðjuverkamönnunum í Sýrlandi og Írak. Þegar þessi grein er send til birtingar
berast fréttir af hryðjuverki í Kaupmannahöfn, fréttir segja það líklega undir
áhrifum frá morðunum í París. Alls staðar eru íslamskir hryðjuverkamenn strax hafðir
fyrir sök. Á Íslandi er ein afleiðing þessa umræðan um ”forvirkar rannsóknarheimildir” á borgurunum og stofnun íslenskrar
leyniþjónsutu er í kortunum.
Vestrænir heimsvaldasinnar valda mestu um styrjaldir okkar
daga. Þetta sem ég nefni vestræna heimsvaldasinna mætti eins kalla „hnattræna
elítu“ ef menn frekar vilja, eða „ránskerfi hnattræns fáveldis“. Umrædd elíta
er þröngur hópur og þjappast stöðugt saman, 1%, 0,1%, 0.01% íbúa í viðkomandi
ríkjum.... Lögmál „frjálsrar samkeppni“ krefjast stöðugrar útþenslu, og
arðránskerfi þessarar elítu teygist um heim allan. Hún berst stöðugt fyrir
heimsyfirráðum. Til þess þarf mikla valdbeitingu – og tilefni til valdbeitingar.
Kosnar ríkisstjórnir þurfa ákveðið samþykki frá almenningi, og helst virkan stuðning, til að heyja
styrjöld, og það er flóknara að tryggja stuðning almennings þegar stríðin
snúast ekki um landvarnir heldur hernað í fjarlægum heimshornum. Vestrænir
heimsvaldasinnar geta ekki með góðu móti rekið ránsstyrjaldir sínar í krafti
kynþáttahyggju eigin landsmanna líkt og var á 19. öld þegar þeir undirokuðu
„villtar“, „heiðnar“ eða „óæðri“ þjóðir. Eftir seinni heimsstyrjöld barðist vestræn
heimsvaldastefna, undir bandarískri forustu,
einkum gegn grýlu kommúnismans um heim allan og þróaði til þess
hernaðarkerfi sem enn er við lýði þó kommúnisminn sem slíkur sé ekki fyrir
hendi. Til að tryggja arðránskerfið með valdi eftir það þurfti nýjar
réttlætingar og meiri hyggindi.