Friday, February 20, 2015

Sviðsett hryðjuverk. Verkfæri stríðs og yfirdrottnunar



Við erum kaffærð í fréttum af hryðjuverkum og hryðjuverkasamtökum. Það sem af er árinu 2015 hafa fjölmiðlar verið bólgnir af skelfingarsögum af Íslamska ríkinu í Arabalöndum, samtökum sem ku ógna vestrænni siðmenningu; einnig bólgnuðu þeir vegna morðanna á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París. Bræðurnir Kouachi voru nýkomnir úr stríðinu í Sýrlandi og ekki langsótt að tengja þá við Íslamska ríkið.  Mikið kastljós beindist í framhaldinu að varðstöðu vestrænna leiðtoga um tjáningarfrelsið og hertan lofthernað þeirra gegn hryðjuverkamönnunum í Sýrlandi og Írak. Þegar þessi grein er send til birtingar berast fréttir af hryðjuverki í Kaupmannahöfn, fréttir segja það líklega undir áhrifum frá morðunum í París. Alls staðar eru íslamskir hryðjuverkamenn strax hafðir fyrir sök. Á Íslandi er ein afleiðing þessa umræðan um ”forvirkar rannsóknarheimildir” á borgurunum og stofnun íslenskrar leyniþjónsutu er í kortunum.
Vestrænir heimsvaldasinnar valda mestu um styrjaldir okkar daga. Þetta sem ég nefni vestræna heimsvaldasinna mætti eins kalla „hnattræna elítu“ ef menn frekar vilja, eða „ránskerfi hnattræns fáveldis“. Umrædd elíta er þröngur hópur og þjappast stöðugt saman, 1%, 0,1%, 0.01% íbúa í viðkomandi ríkjum.... Lögmál „frjálsrar samkeppni“ krefjast stöðugrar útþenslu, og arðránskerfi þessarar elítu teygist um heim allan. Hún berst stöðugt fyrir heimsyfirráðum. Til þess þarf mikla valdbeitingu – og tilefni til valdbeitingar. Kosnar ríkisstjórnir þurfa ákveðið samþykki frá almenningi,  og helst virkan stuðning, til að heyja styrjöld, og það er flóknara að tryggja stuðning almennings þegar stríðin snúast ekki um landvarnir heldur hernað í fjarlægum heimshornum. Vestrænir heimsvaldasinnar geta ekki með góðu móti rekið ránsstyrjaldir sínar í krafti kynþáttahyggju eigin landsmanna líkt og var á 19. öld þegar þeir undirokuðu „villtar“, „heiðnar“ eða „óæðri“ þjóðir. Eftir seinni heimsstyrjöld barðist vestræn heimsvaldastefna, undir bandarískri forustu,  einkum gegn grýlu kommúnismans um heim allan og þróaði til þess hernaðarkerfi sem enn er við lýði þó kommúnisminn sem slíkur sé ekki fyrir hendi. Til að tryggja arðránskerfið með valdi eftir það þurfti nýjar réttlætingar og meiri hyggindi.

Saturday, February 7, 2015

Ný og sniðug heimsvaldastefna

(Birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2015)

Friðarhreyfingin á Íslandi er hálflömuð, eins og víðast um hinn vestræna heim. Ekki vantar þó verkefnin enda ófriðvænlegra í heiminum en verið hefur í hálfa öld. Friðarhreyfing sú sem velgdi Bush og Blair undir uggum kringum innrásina í Írak 2003 hefur undanfarin ár verið óvirk og ráðvilt gagnvart nýjum stríðum í Líbíu, Sýrlandi, Írak, Úkraínu... Samtök hernaðarandstæðinga á Íslandi tekst ekki, frekar en friðarhreyfingu Evrópu, að taka skýra afstöðu í neinu af þessum stríðum, hvað þá að skipuleggja baráttu fyrir friði. Ég velti ástæðunum fyrir mér.

Árásirnar á Afganistan 2001 og Írak 2003 voru gamaldags innrásir í ætt við herferðir Hitlers um Evrópu eða stríðið í Víetnam, þó þær væru sagðar farnar til að útrýma „hryðjuverkamönnum“ og „gjöreyðingarvopnum“. Bandaríkjunum gekk þó heldur illa að fylkja bandamönnunum að baki sér í Írak, sbr. afstöðu Frakklands og Þýskalands, enda reis upp gríðarlega öflug friðarhreyfing gegn stríðinu, ekki síst í Evrópu. Hún lét blekkingaráróður ekki blinda sig. Hún afhjúpaði það að stríðið snérist um gamalkunn efni: olíu, auðlindir og áhrifasvæði í anda gamllar nýlendustefnu og bað innrásaröflin snauta heim. Stríðið varð illræmt meðal almennings og innrásaröflunum dýrt.

Bandarískir strategistar drógu lærdóm af vandræðunum. Suzanne Nossel er bandarískur demókrati sem rokkar á milli forustuembætta hjá SÞ, Utanríkisráðuneytinu og sk. mannréttindastofnunum. Árið 2004 skrifaði hún grein í Foreign Affairs og boðaði „frjálslynda alþjóðahyggju“. Hún gagnrýndi tilhneigingu Bush-stjórnarinnar til einhliða hernaðaraðgerða, Bandaríkin yrðu að læra að tileinka sér „SMART POWER“, að sameina hernaðarmátt sinn og baráttu fyrir framsæknum og húmanískum gildum.

Síðan hefur hernaðaraðferðin verið þróuð af Hillary Clinton og hennar líkum. Lykilatriði er að beita fyrir sig „frjálsum félagasamtökum“ (NGO´s). Ein slík eru National Endowment for Democracy (NED), stofnuð 1983 (önnur eru US Agency for International Development (USAID)). NED eru afar fjársterk stofnun, sérhæfð í að grafa undan stjórnvöldum sem standa að „ófrelsi“, m.ö.o. þóknast ekki Vesturveldunum.