Sunday, February 3, 2013

Vatn markaðsvara eða mannréttindi?


Markaðsvæðing og einkavæðing vatnsveitna færist nú ofar á málefnaskrána í ESB. Páll H. Hannesson, fyrrum alþjóðafulltrúi BSRB, skrifar í vikunni á fésbókarfærslu:
„Framkvæmdastjórn ESB stefnir nú að einkavæðingu vatns í Evrópu! Gróði vatnsfyrirtækja í 3ja heiminum hefur ekki verið nægur og andstaðan víðast mikil svo það var fyrirsjáanlegt að þau stefndu á ríkari markaði. Nú er framkvæmdastjórn ESB með nýtt directive - samið af fulltrúum vatnsfyrirtækja og fjármálahákarla - sem þrýstir á einkavæðingu vatns í öllum löndum ESB. Ekki bara í Portúgal og Grikklandi, þar sem þríeyki ESB krefjast einkavæðingar opinberra vatnsfyrirtækja, heldur á það að verða almenna reglan."
Í desember 2011 sendi ESB út tilskipun um nýtingarrétt og sérleyfi á sviðum vatns- og orkuveitna, einnig samgangna og póstþjónustu. Þar segir á einum stað:
„Til að tryggja raunverulega opnun markaðarins og jafnvægi í beitingu reglna um úthlutun sérleyfa á sviði vatns-, orku-, samgöngu- og póstþjónustu er nauðsynlegt að þær einingar sem um ræðir verið skilgreindar á öðrum grunni en réttarstöðu. Tryggja þarf að jöfn meðhöndlun rekstraraðila sé óhlutdræg hvort sem þeir starfa í opinberum geira eða einkageira." http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=COM:2011:0897:FIN:EN:PDF , bls. 11.
Tungumál ESB er alltaf stofnanalegt  og tyrfið. En þetta er eðlilegast að lesa sem svo að ekki megi mismuna til framdráttar opinberum þjónustufyrirtækjum. Nýja stefnan í höfðuðstöðvunum er í þá veru að nýtingarréttur og sérleyfi á sviðum þjónustu eins og vatns og orku skuli fara í útboð á opnum markaði - sem sagt markaðsvæðing.
Og reynslan sér gjarnan um að þýða inntakið í stefnunni. Um þessar mundir eru vatnsveitur í opinberri eigu í Aþenu og Lissabon og einnig Madríd og víðar settar á markað. Á bak við kreppuráðstafanir af slíku frjálshyggjumerki stendur einmitt „Þríeykið" alræmda  þ.e.a.s. Framkvæmdastjórn ESB, Evrópski seðlabankinn og AGS.
Ég hef áður á þessum vettvangi (2. jan) bent á hvernig kreppan er notuð sem múrbrjótur gegn skipulegri verkalýðshreyfing og áhrifum hennar í þeim „vinnumarkaðsumbótum" sem ESB keppist nú við að keyra í gegn. Alveg á sama hátt er krafan um að mæta kreppunni með miskunnarlausum niðurskurði notuð sem múrbrjótur til einkavæðingar, m.a. á vatns-, orkuveitum.  
Við verðum að viðurkenna að þróunin á Íslandi er í átt til markaðsvæðingar, óháð því hvort hægri eða vinstri stjórn situr við völd.  Nýtingarréttur á  fiskimiðum og nýtingarréttur á orkulindum til langs tíma (sbr. söguna um Magma Energy og HS orku) er ekkert annað en einkavæðing í áföngum á viðkomandi sviðum. Einkavæðing vatnveitna á Íslandi (í fræðilegri ESB-framtíð Íslands) væri vissulega ill tíðindi. Þó væri hún ekki úr öllu samhengi við það sem á undan er gengið. Páll H. Hannesson segir í áðurnefndu bloggi sínu: „Og hvernig er svo vatnalögum Katrínar Júlíusardóttur háttað; allt grunnvatn er í eigu landeiganda; þegar og ef við göngum í ESB verður sveitarfélögum þrýst til að selja þetta í hendur Vífilfells eða annarra slíkra."
Það er þó mikilvægur skilsmunur á þessu tvennu: Ólög sem sett eru af Alþingi Íslendinga er hægt að taka tilbaka af sama Alþingi en sem kunnugt er á það ekki við um vond Evrópulög. 

No comments:

Post a Comment