Saturday, February 16, 2013

Fjölmenningarstefnan


Fjölmenning er í tísku. Til vinstri og til hægri. Þó yfirleitt meira meðal vinstri manna en hægri. Orðið „fjölmenning“ er t.d. meðal algengustu orða og orðhluta í útgefnu efni frá Vinstri grænum. Alþjóðlega sinnaðir vinstri menn vilja taka vel á móti innflytjendum. Þeir vilja borða fjölbreytilegan mat á veitingastöðunum, líka sleppa við vegabréfaskoðun á ferðalögum. Og þeir umgangast ógjarnan fólk sem þeir kalla „einangrunarsinna“. Ekki síst á þetta við um „evrópusinnaða“ vinstrið.
Þetta ber ekki að hæða. Í Evrópu er fyrir hendi skuggaleg hefð þjóðrembu, rasisma, íslamófóbíu o.fl. – tengt gróinni nýlendustefnu í sögu álfunnar. Hægri popúlisminn blómstrar sums staðar í áfunni, bíður færis annars staðar. Varðstaða gegn þeirri óáran er mjög mikilvæg. Og það má vissulega margt gott segja um uppbyggilega fjölmenningarhyggju.
Þá er á það að líta að fjölmenningarstefna hefur verið ríkjandi hugmyndafræði og ein yfirskrift evrópusamrunans í áratugi. Hins vegar eru það ekki vinstri menn sem hafa stjórnað tilurð og vexti ESB, heldur evrópskt stórauðvald. En þó að stórauðvaldið veifi sömu kjörorðunum og vel meinandi vinstri sinnaðir fjölmenningarsinnar er það annað sem vakir fyrir því.
Lítum aðeins á hugmyndafræðina bak við samrunaþróunina. Hvað snertir hina YTRI þróun Evrópusambandsins þá er markmið evrópskra risaauðhringa að þurka út landamærin, afnema þjóðríki, og skapa eitt stórveldi á heimsmælikvaðra sem getur keppt við bæði Bandaríkin og Kína (þó svo að samstaða með USA á móti Kína þyki mikilvæg nú um stundir). Evrópska samrunaferlið er hluti af því sem nefnt hefur verið hnattvæðing fjármagnsins og markaðarins. Hugmyndafræðina má líka kenna við alþjóðahyggju auðmagnsins.
Ekki síður mikilvæg er INNRI þróun þeirra samfélaga sem mynda Evrópusambandið. Þar er svonefnt „fjórfrelsi“ ígildi Móses og spámannanna: frjálst flæði fjármagns, vöru, þjónustu og vinnuafls. Stefna stórauðvaldsins varðandi þróun vinnumarkaðarins er að vinnuaflið sé sem hreyfanlegast. Tilgangurinn með hreyfanleikanum er einfaldur: lækkun launa, meðfærilegri verkalýðshreyfing. Innflutningur vinnuafls frá láglaunalöndum til Kárahnjúkavirkjunar virkaði nákvæmlega þannig: hélt niðri kaupi og kjörum, og var lítill smjörþefur af þess konar „frjálsu fræði“ í hnattvæddum heimi. Ekki er þó hægt að segja upphátt að markmiðið sé þetta. Á stofnanamálinu heitir það „sveigjanlegur vinnumarkaður“ og „fjölmenningarsamfélag“.
Þýskaland er fyrirmyndarland að þessu leyti. Þar hefur tekist, einkum eftir aldamótin, að þrýsta lágmarkslaunum verulega niður á við. Það hefur helst gerst með innflutningi ódýrs vinnuafls, einkum frá Austur-Evrópu. Þannig hefur Þýskalandi tekist að slá út í samkeppninni stóra hluta atvinnulífsins í Suður-Evrópu. Eitt svarið við þýsku markaðssókninni í löndum eins og Spáni og Ítalíu er af svipuðum toga: innflutningur á ólöglegu vinnuafli frá Afríku sem hefur nokkurs konar þrælastöðu. Í Ítalíu er þetta fólk í neti mafíunnar og starfar oftar en ekki að landbúnaðarstörfum. Ítalska launþegahreyfingin CGIL hefur gert könnun á umfangi þrælavinnunnar og fundið út að allt að 700 000 manns vinni í landinu sem nútímaþrælar (sjá hér). 
Í grein minni Goldman Sachs &  “Masters of the Eurozone” 13 janúar var minnst á Írann Peter Sutherland sem einn af toppmönnum í evrópsku efnahagselítunni. Hann var áður ríkissaksóknari á Írlandi, stjórnarformaður í olíurisanum BP, stjórnarmaður í Bilderberg Group og fulltrúi Írlands í Framkvæmdastjórn ESB. Nú er hann stjórnarformaður í Goldman Sachs International og sérlegur fulltrúi SÞ á sviði fólksflutninga. BBC greindi frá ræðu hans í bresku Lávarðadeildinni í júní 2012 þar sem hann sagði að ESB yrði að „vinna gegn þjóðlegri einsleitni“ í aðildarríkjunum. Höfum í huga að hér er það í raun fjölþjóðlegt ESB-auðvald sem talar, ekki írskur stjórnmálamaður: „Hækkandi aldur og fólksfækkun í Þýskalandi eða suðurríkjum ESB eru lykilrök fyrir – ég hika við að nota orðið af því að fólk snýst gegn því – þróun fjölmenningarríkja… í okkar [evrópsku] þjóðfélögum hlynnum við enn að hugmyndinni um einsleitni okkar og það hve ólík við séum öðrum. En það er einmitt það sem ESB ætti að kappkosta að grafa undan… fólksflutningar eru afgerandi hreyfifræði hagvaxtar í mörgum ESB-löndum, hversu erfitt sem það er að útskýra það fyrir þegnum þeirra ríkja.“ 
Óskaumhverfi og meðvitað markmið stórauðvaldsins (í ESB-ríkjum og reyndar miklu víðar) er sundurleitur vinnumarkaður og sundraður verkalýður á mikilli hreyfingu. Þar sem einn hópur launafólks skilur ekki mál annars o.s. frv. Þetta er herfræði efnahagselítunnar gegn launafólki. Í þessu spili hennar eru vinstri fjölmenningarsinnar velmeinandi sakleysingjar, en mjög nytsamir sem slíkir. Þeir eru jú löngu hættir að spyrja um stéttarhagsmuni á bak við stjórnmál.
Í þessum jarðvegi eiga síðan rasisminn og hægri popúlisminn ákjósanleg vaxtarskilyrði, því betri sem kreppan dýpkar meira, og eiga trúlega næsta leik – nema skipulegri verkalýðshreyfingu takist að sjá við sundrunarstefnu auðvaldsins og sameinast á stéttarlegum grundvelli, bæði innan ríkja og þvert á landamæri.


Sunday, February 3, 2013

Icesave: innsýn í miðstýrt auðs- og valdakerfi


Neyðarlögin voru sett 6. október 2008. Tveimur dögum síðar settu Bretar hryðjuverkalög á íslensku bankana. Skömmu síðar lýsti Geir Haarde yfir að ríkissjóður myndi standa við „alþjóðlegar skuldbindingar" og styðja Tryggingasjóð innstæðueigenda. Í nóvember 2008 gerðu íslensk stjórnvöld samkomulag við ESB fyrir hönd Bretlands og Hollands um að þau ábyrgðust lágmarkstryggingu innistæðna með einhverju móti, og í desember samþykkti Alþingi þingsályktun um að leitað skyldi samninga við ríkin tvö.
Ný ríkisstjórn settist að völdum í febrúar 2009 og viðræður hófust þá strax um Icesave. Því fygldu svo þrír samningar í röð við Breta og Hollendinga, samningar sem voru lítt þolandi fyrir sjálfstætt ríki (þó þeir færu skánandi). Íslensk stjórnvöld reyndu að þvinga þá gegnum stjórnkerfið og hótuðu öllu illu að öðrum kosti. En vegna mikillar andstöðu með þjóðinni, framgöngu forsetans og þjóðaratkvæðagreiðslna náðust engir samningar um Icesave - og þess vegna endaði málið fyrir dómi.
Þetta horfðum við á, en fleira gerðist bak við tjöldin: Frá upphafi deilunnar 2008 deildu lögfræðingar um ábyrgð íslenska ríkisins í málinu, en það var ESB sem setti hnefann í borðið og neitaði að láta reyna á ábyrgðina fyrir dómi. Af hverju? Af því það varð að líta út sem tryggingakerfi innistæðna á Evrópska efnahagssvæðinu væri í lagi. Efasemdir um það gætu annars kallað fram áhlaup á banka um alla Evrópu. Fjármálakerfi Evrópu var í húfi.
Þegar íslensk stjórnvöld leituðu lánafyrirgreiðslna hjá AGS komu fulltúar ESB einnig þar að máli og lýstu yfir að það væri sameiginleg afstaða allra ESB-ríkja að leggjast gegn því að AGS aðstoðaði Ísland ef kröfur Breta og Hollendinga væru ekki virtar. Alveg sama krafa kom fram í afgreiðslu lána frá Norðurlandaríkjum. Þessir hlutir eru margstaðfestir, m.a. af Geir Haarde og Steingrími J Sigfússyni.
Það hefur hins vegar komið skýrt í ljós - nú síðast í Icesavedómnum - að í tilskipun ESB um innstæðutryggingar stóð ekkert um ríkisábyrgð og ekkert heldur um viðbrögð við fjármálakerfishruni. Regluverkið um fjármálamarkaði var af besta frjálshyggju- og hnattvæðingarmerki, byggt á frelsi í fjármálaþjónustu og fjármagnsflutningum milli landa með lágmarksafskiptum ríkisins.
Auðvaldið aðhyllist hins vegar ekki „ríkisafskiptaleysi" nema þegar það borgar sig. Eftir að kreppan skall á, í árslok 2008, var sú stefna tekin í Evrópu að ríkið bæri ábyrð á bönkunum (eins og stefnan var áður var tekin í Bandaríkjunum). Stjarnfræðileg ríkisútgjöld  fóru í að bjarga stórbönkum frá falli. Á snöggu augabragði varð auðvald Evrópu mikið til „ríkisrekið".  Í annan stað hefur hin pólitíska miðstýring í ESB öll færst í annað veldi og „Þríeykið" (Framkvæmdastjórnin, Evrópski seðlabankinn að viðbættu AGS) tekur að sér að skipuleggja skuldainnheimtu fyrir evrópska fjármálakerfið. Það er gert með blóðugum niðurskurði ríkisútgjalda í skuldugum ríkjum og ríkisfjármálasáttmála sem bannar ríkishalla.
Stefnan gagnvart Íslandi var í þessum anda. Evrópskt fjármálakerfi sem sagt í húfi. Fyrri prinsipp um fjármálafrelsi voru nú gleymd og aflsmunar neytt. Fjármálastríð, þvingunaraðgerðir, stórveldapólitík. Með því að draga lánin og skilorðsbinda þau voru AGS og Norðurlönd að rukka fyrir Breta og Hollendinga og um leið láta líta út sem evrópskt fjármálakerfi væri í lagi.
Það má alls ekki gera lítið úr því að íslensk stjórnvöld voru beitt vægðarlausum þrýstingi. „Ísland komst hvorki lönd né strönd" segir Steingrímur. Davið Oddsson finnur skýringu í „kjarkleysi" ríkisstjórnarinnar. Það er takmörkuð skýring af því þessir aðilar höfðu meðul til að banna Íslendingum bjargir, þó þeir gætu ekki einfaldlega skipað okkur að borga eins og ef við hefðum verið í ESB.
Hitt segir sig sjálft að ríkisstjórn sem sækir um ESB-aðild er veik fyrir þrýstingi frá ESB. Verkin sýna merkin. Á Íslandi hefur auk þess í áratugi verið rekin eindregin aðlögun að hnattrænu markaðs- og fjármálakerfi (inngangan í EES stórt skref á þeirri braut). Fyrir vikið er íslensk ríkisstjórn, til hægri eða vinstri, ólíkleg til að veita ytri þrýstingi mikla mótspyrnu. Icesave-málið gefur innsýn í gífurlega miðstýrt auðs- og valdakerfi og minnkandi sjálfstæði þjóða. Allir gangi í takt! ESB og  AGS draga í sömu átt og þjóna fjármála- og afætukerfi vestrænnar auðstéttar.

Vatn markaðsvara eða mannréttindi?


Markaðsvæðing og einkavæðing vatnsveitna færist nú ofar á málefnaskrána í ESB. Páll H. Hannesson, fyrrum alþjóðafulltrúi BSRB, skrifar í vikunni á fésbókarfærslu:
„Framkvæmdastjórn ESB stefnir nú að einkavæðingu vatns í Evrópu! Gróði vatnsfyrirtækja í 3ja heiminum hefur ekki verið nægur og andstaðan víðast mikil svo það var fyrirsjáanlegt að þau stefndu á ríkari markaði. Nú er framkvæmdastjórn ESB með nýtt directive - samið af fulltrúum vatnsfyrirtækja og fjármálahákarla - sem þrýstir á einkavæðingu vatns í öllum löndum ESB. Ekki bara í Portúgal og Grikklandi, þar sem þríeyki ESB krefjast einkavæðingar opinberra vatnsfyrirtækja, heldur á það að verða almenna reglan."
Í desember 2011 sendi ESB út tilskipun um nýtingarrétt og sérleyfi á sviðum vatns- og orkuveitna, einnig samgangna og póstþjónustu. Þar segir á einum stað:
„Til að tryggja raunverulega opnun markaðarins og jafnvægi í beitingu reglna um úthlutun sérleyfa á sviði vatns-, orku-, samgöngu- og póstþjónustu er nauðsynlegt að þær einingar sem um ræðir verið skilgreindar á öðrum grunni en réttarstöðu. Tryggja þarf að jöfn meðhöndlun rekstraraðila sé óhlutdræg hvort sem þeir starfa í opinberum geira eða einkageira." http://eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=COM:2011:0897:FIN:EN:PDF , bls. 11.
Tungumál ESB er alltaf stofnanalegt  og tyrfið. En þetta er eðlilegast að lesa sem svo að ekki megi mismuna til framdráttar opinberum þjónustufyrirtækjum. Nýja stefnan í höfðuðstöðvunum er í þá veru að nýtingarréttur og sérleyfi á sviðum þjónustu eins og vatns og orku skuli fara í útboð á opnum markaði - sem sagt markaðsvæðing.
Og reynslan sér gjarnan um að þýða inntakið í stefnunni. Um þessar mundir eru vatnsveitur í opinberri eigu í Aþenu og Lissabon og einnig Madríd og víðar settar á markað. Á bak við kreppuráðstafanir af slíku frjálshyggjumerki stendur einmitt „Þríeykið" alræmda  þ.e.a.s. Framkvæmdastjórn ESB, Evrópski seðlabankinn og AGS.
Ég hef áður á þessum vettvangi (2. jan) bent á hvernig kreppan er notuð sem múrbrjótur gegn skipulegri verkalýðshreyfing og áhrifum hennar í þeim „vinnumarkaðsumbótum" sem ESB keppist nú við að keyra í gegn. Alveg á sama hátt er krafan um að mæta kreppunni með miskunnarlausum niðurskurði notuð sem múrbrjótur til einkavæðingar, m.a. á vatns-, orkuveitum.  
Við verðum að viðurkenna að þróunin á Íslandi er í átt til markaðsvæðingar, óháð því hvort hægri eða vinstri stjórn situr við völd.  Nýtingarréttur á  fiskimiðum og nýtingarréttur á orkulindum til langs tíma (sbr. söguna um Magma Energy og HS orku) er ekkert annað en einkavæðing í áföngum á viðkomandi sviðum. Einkavæðing vatnveitna á Íslandi (í fræðilegri ESB-framtíð Íslands) væri vissulega ill tíðindi. Þó væri hún ekki úr öllu samhengi við það sem á undan er gengið. Páll H. Hannesson segir í áðurnefndu bloggi sínu: „Og hvernig er svo vatnalögum Katrínar Júlíusardóttur háttað; allt grunnvatn er í eigu landeiganda; þegar og ef við göngum í ESB verður sveitarfélögum þrýst til að selja þetta í hendur Vífilfells eða annarra slíkra."
Það er þó mikilvægur skilsmunur á þessu tvennu: Ólög sem sett eru af Alþingi Íslendinga er hægt að taka tilbaka af sama Alþingi en sem kunnugt er á það ekki við um vond Evrópulög.