(birtist á Neistum 31. janúar 2021)
Á taflborði stórvelda hefur tvennt markvert gerst á nýbyrjuðu ári: a) Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist nú í vikunni gera ráð fyrir því að Vladimír Pútín muni senda Rússlandsher til innrásar í Úkraínu. Rússarnir koma, Rússarnir koma! Og vestrænir meginstraumsmiðlar og íslenskar endurvarpsstöðvar enduróma þann boðskap rækilega. b) Í herbúðunum hinum megin gerist það að Pútín setur Bandaríkjunum afarkosti. Hann krefst «trygginga» gegn allri frekari austurstækkun NATO. Ella verði NATO að taka afleiðingunum. Hann dregur þar með «rautt strik» í sandinn. Ræðum seinna atriðið fyrst.
Rússneskir úrslitakostir – og Rússagrýla
Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands hittust nú í janúar í Genf til viðræðna um öryggismál Evrópu. Þar settu Rússar Bandaríkjunum og NATO úrslitakosti. Þeir kröfðust þjóðréttarlega bindandi «trygginga» gegn frekari austurstækkun NATO, fyrst og fremst trygginga gegn inngöngu Úkraínu í NATO og gegn uppsetningu bandarískra skotflaugakerfa í landinu til árása á Rússland (sem væri jú mjög hliðstætt því að Rússar fengju Kanada í lið með sér og færu að reisa þar mikil skotflaugakerfi við bandarísku landamærin). Með þessu «rauða striki» vísa Rússar jafnframt til válegrar þróunar eigin «öryggis» eftir 1990:
Þegar semja skyldi um sameiningu Þýskalands eftir fall múrsins 1989 og inngöngu landsins í NATO voru Gorbatsjov og Sovétleiðtogum gefin loforð um að NATO færi ekki austar en það. Aðalritari NATO Manfred Wörner lýsti t.d. yfir 17. maí 1990: „Þannig verður það með sameinað Þýskaland í NATO. Sú staðreynd að við ætlum ekki að staðsetja NATO-heri handan við landsvæði Sambandslýðveldisins [Þýskalands] gefur Sovétríkjunum traustar tryggingar um öryggi.“ https://www.nato.int/docu/speech/1990/s900517a_e.htm
Þetta reyndust innantóm orð. Eftir skamma bið – til ársins 1999 – var NATO-ríkjum í Evrópu skjótlega fjölgað um nákvæmlega helming (úr 14 í 28), alveg upp að vesturgluggum Rússlands! NATO hafði þá étið upp allt “stuðpúðabeltið” sem Sovétríkin komu upp vestan við sig eftir seinna stríð. Í nýlegu viðtali lýsir Mikhail Gorbatsjov yfir stuðningi við þá aðgerð Pútíns að teikna þetta “rauða strik” um öryggi Rússlands og setja NATO kosti. https://www.nettavisen.no/nyheter/utenriks/gorbatsjov-mener-usa-ble-arrogante/s/12-95-3424223896
Það varð hins vegar strax ljóst á vestrænum viðbrögðum við þessu að hvorki Bandaríkin né NATO eru til viðræðu um slík skilyrði. Aldeilis ekki um að stöðva útþensluna í austur. Í beinu framhaldi af viðræðunum í Genf sem skiluðu engum árangri hafa komið harkalegri meldingar en áður frá höfuðstöðvum NATO og frá Biden-stjórninni: um staðsetningu nýs herafla í Eystrasaltsríkjum og Austur-Evrópu. Sem sagt meiri bandarískur (og NATO) herafli nær rússnesku landamærunum. https://www.ruv.is/frett/2022/01/25/nato-bodar-aukinn-vidbunad-i-austri
Það sem við fáum að heyra er að Rússar hafi dregið saman á annað hundrað þúsund manns nærri landamærum Úkraínu, sýni ógnandi tilburði, reki árásarhneigða útþenslustefnu, stefni á innrás og hyggist leggja undir sig landið, hafi siktað út menn í komandi leppstjórn o.s.frv. Hernaðaraðstoð Bandaríkjanna og Breta í Úkraínu er hins vegar annars eðlis. Miklar vopnasendingar þangað til margra ára eru enn auknar, þjálfun á vegum Bandaríkjahers, Breta – og CIA bæði í Úkraínu og Bandaríkjunum en það er ekki af árásarhneigð heldur til bjargar frelsi og lýðræði(!)
Yfirvöld í Kiev sem komu til valda í CIA-stýrðri litabyltingu 2014 hafa það meginhlutverk í tilverunni að vera andrússnesk. Í öllu öðru voru þau heillum horfin frá byrjun. Fyrsta verk þeirra var að afnema stöðu rússnesku sem annað opinbert tungumál í Úkraínu (um þriðjungur þegnanna hafði rússnesku sem fyrsta mál) og þremur mánuðum síðar var Kiev-stjórn komin í stríð við austurhéruðin í eigin landi. Síðan þá hafa þau stöðugt æpt um rússneska íhlutun og yfirvofandi rússneska innrás. Þau kynda undir andrússneskum kenndum, og þiggja vissulega fyrir það mikla efnahags- og hernaðaraðstoð og herþjálfun úr vestri. Það hefur fyrst og fremst nýst þeim til að leiða athyglina frá innlendri kreppu, og fóðrar um leið fasísku öflin í landinu sem vilja stríð, leika lausum hala og vinna flest skítverk.
Innrás?
Hvað boða heræfingar Rússa skammt frá Úkraínsku landamærunum (að vísu 200 km frá)? Innrás? Ja, bein árás Rússa á Úkraínu, og hernám alls landsins er harla ólíkleg. Í fyrsta lagi af því Úkraína um þessar mundir býður fátt af því sem gæti freistað Rússa. Hagkerfið er í kreppu og kaldakoli, alveg sérstaklega eftir CIA-stýrðu litabyltinguna 2014 (t.d. er vélaiðnaðurinn, sem áður stóð þar sterkt, búinn að vera). Í öðru lagi skiptir það ekki minna máli að slíkt stríð myndi reka Evrópuríkin upp til hópa fastar í fang Bandaríkjanna, þjappa saman bandamönnunum í NATO, fjölga NATO-herjum í Austur-Evrópu og leiða til enn hertra viðskiptaþvingana og frekari einangrunar Rússlands. Í þriðja lagi væri það ógnarfyrirhöfn að hernema til frambúðar þetta stóra land þar sem andrússnesk stemning er fyrirfram meira en nógu sterk.
Strategistar í Bandaríkjunum telja hins vegar ófrið í Úkraínu æskilegan. Mikilvægasta hernaðarlega hugveita Bandaríkjanna er RAND-corporation. Hún leggur fram greiningar og stjórnlist fyrir Bandaríkjaher. Hernaðaráætlunin gagnvart Rússum sem hún gaf út 2019 hét “Að teygja Rússland” (Extending Russia) og gengur út á að láta “reyna á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda heima eða utan lands... og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega.” Í beinum aðgerðum í áætluninni er “vopnaaðstoð við Úkraínu” efst á blaði, næst kemur “að auka stuðning við sýrlenska uppreinarmenn” svo “að stuðla að valdaskiptum í Hvítarússlandi”, þá “að nýta spennuna í Kákasuslöndum” – og áherslur þessar endurspeglast dável í þeirri þróun sem síðan hefur orðið. Sjá https://neistar.is/greinar/rand-stofnunin-og-austfirdir-stridsaaetlanir-gegn-russlandi/
Jafnframt því að «teygja Rússland» og þreyta Rússa þjónar hámörkun spennunnar í Úkraínu því að hindra slökun í Evrópu, viðhalda ótta og spennu, viðhalda vígvæðingu. Síðustu áratugi er það augljós staðreynd að friðsamleg efnahagsþróun ein og sér leiðir til þess að Vesturblokkin dregst aftur úr í efnahagssamkeppni og heimsforræði hennar er þess vegna á fallanda fætii. Friðsamleg þróun er henne sem sé lífshættuleg! Vestræn yfirráð, einkum Bandaríkjanna, byggjast nú fyrst og síðast á hernaðarlegum yfirburðum. Þess vegna er það stefnan í vestrænum valdamiðstöðvum að láta Rússagrýluna (og «gulu hættuna» gegnsýra stjórnmálin sem allra mest. Og það er fyrst og fremst á hernaðarsviðinu sem t.d. bandamennirnir í Evrópu eru upp á Sam frænda komnir. Vald og staða BNA byggist á því að aldrei verði slökun.
Stjórnvöld í Mosku vilja forðast stríð í Úkraínu. Sérstaklega litist þeim örugglega mjög illa á hernám alls landsins gegnum leppstjórn, en RÚV hefur einmitt bergmálað fréttir um slík plön nýlega. https://www.ruv.is/frett/2022/01/22/segja-russa-aetla-ad-koma-a-leppstjorn-i-ukrainu Engu að síður getur þarna skollið á stríð með beinni rússneskri íhlutun. Langlíklegasta tilefni slíks hernaðar væri stórfelld árás Úkraínuhers á aðskilnaðarhéruðin Donbass og Lugansk. Þar eru Rússar meirihluti íbúa og mörg hundruð þúsund íbúar með rússneskt ríkisfang. Stórárás sem ógnar tilveru aðskilnaðarhéraðanna mun Moskvustjórn varla horfa aðgerðarlaus upp á.
Rússar viðurkenni sjálfstæð aðskilnaðarlýðveldi?
Hvað gera Rússar þá ef dregur til slíkra tíðinda? Rússland er að ýmsu leyti í þröngri stöðu. En Pútín hefur valkosti við innrás, og ekki eins ólíklega. Í rússnesku Dúmunni er sá valkostur ræddur nú í vikunni að Rússar hóti að viðurkenna formlega sjálfstæði aðskilnaðarhéraðanna tveggja (líkt og fordæmi er fyrir í Suður-Ossetíu og Abkasíu 2008) https://www.reuters.com/world/europe/russian-parliament-discuss-recognising-rebel-held-east-ukraine-independent-2022-01-21/ . Seinna mögulega að skipulagðar væru kosningar um inngöngu héraðanna í Rússland (sbr Krím 2014). Þessi hótun yrði trúlegast sett fram í samhengi við kröfu á hendur Úkraínustjórn um að viðurkenna Minsk-samninginn frá 2014, samning sem m.a. hljóðaði upp á víðtæka sjálfsstjórn einstakra héraða í Úkraínu og jafna stöðu tungumálanna tveggja, en sem Úkraínustjórn hefur hvergi staðið við, og ætlar sér ekki að gera.
Slíkri “hótun” Rússa yrði örugglega fagnað af almenningi í austurhéruðunum. Á utanríkissviðinu gæti þetta verið sterkur leikur líka. Minsk-samningurinn var viðurkenndur af SÞ og er því þjóðréttarlega bindandi. Ekki er ólíklegt að ýmsir evrópskir leiðtogar myndu ýta á Úkraínu að uppfylla samninginn til að forðast stríð. Ef Kiev svaraði þeirri hótun Rússa með því að herða stríðið gegn aðskilnaðarsinnum lægi beint við að Rússar aðstoðuðu þá aðila sem þeir hefðu þá þegar viðurkennt sem sjálfstæð ríki. Með beinni hernaðaríhlutun í þeim héruðum. Það er líka alveg möguleiki að viðbrögð Evrópuríkja (og annarra) við því yrðu ekki eins einhuga og ef um beina innrás væri að ræða.
Breytt styrkleikahlutföll
Þróun Úkraínudeilunnar er merki um hvað styrkleikahlutföll í heiminum (milli vestrænu blokkinnar og þeirrar óvestrænu) breytast hratt. Ekkert þessu líkt var hugsanlegt fyrir 10 árum síðan. Skefjalaus útþensla Vesturblokkarinnar í austur var framkvæmd í krafti þess að Rússland var veiklað eftir 1990 og komið niður á hnén. Rauða strikið sem Pútín dregur í sandinn er merki um að sú staða sé breytt. Rauða strikið merkir: Þessir menn munu aldrei láta staðar numið fyrr en þeir eru neyddir til þess, við rautt strik. Það blasir við hvað Rússlandi hefur aukist afl og þor. Rússland er ekki lengur upp á Vestrið komið hvorki pólitískt né efnahagslega. Rússland treystir sér til að láta hart mæta hörðu. Litabyltingin í Úkraínu 2014 var síðasta stóráhlaup bandarískrar/vestrænnar útþenslustefnu og hún mun vonandi stranda þar líka.