Friday, November 26, 2021

Bólusetningarskylda og lögregluríki

(Birtist á Neistum 26. nóvember 2021)

 



Um allan heim eru átök og spenna sem virðast vaxa með hverjum deginum. Opinbert tilefni átakanna nú er deilan um mismunun óbólusettra með lögum, lögum sem innleidd hafa verið í ýmsum löndum, og skref verið tekin í þá átt í næstu nágrannalöndum okkar (Noregi, Svíþjóð). Þar er um að ræða innanríkisvegabréf, víða nefnt «grænn passi» eða „kórónupassi“, bólusetningarskilríki sem sett eru sem skilyrði fyrir borgaralegum réttindum. Við nánari athugun sést að deilan snýst um nokkrar meginreglur réttarríkis, og um lýðræðið.

Á Íslandi hefur sóttvarnarlæknir fengið að leggja línuna undanfarin misseri, í kerfi sem kalla mætti «sóttvarnarríki» frekar en réttarríki. Núna telur hann «ekki faglegar forsendur fyrir að mismuna bólusettum og óbólusettum að svo stöddu» skv. visir.is 17 nóv. Þórólfur gefur samt hugmyndinni um mismunun undir fótinn, að veita þeim sem fengið hafa örvunarskammt «réttindi umfram aðra» ef sá skammtur reynist vel. Undir þetta hafa einhverjir ráðherrar tekið, og sóttvarnargúrú Kári Stefánsson líka. Svo varla boðar það gott um framhaldið.

Innanríkisvegabréf – hvað þýðir það?

Opinská mismunun milli þegnanna er nu innleidd í einu landinu af öðru. Um er að ræða mestu frelsisskerðingar á borgara í hinum vestræna heimi á friðartímum. Öfgakennd dæmi eru Ástralía, Austurríki, Lettland, Rússland, Kanada. Aðferðin er að útiloka óbólusetta í áföngum frá samfélaginu og gera þeim lífið óbærilegt. Vitnisburður um það er t.d. þetta neyðarkall frá Ástralíu, þar sem stórnvöld ganga lengst: https://www.youtube.com/watch?v=3cI0Q5UgFFU&t=177s

Í flestum löndum er áróðurinn fyrir bólusetningu (nefndur «upplýsing») ákafur og linnulaus. Það dugar samt ekki til þess að allir hlýði. Í Austurríki er þriðjungur enn óbólusettur, hlutfallið er litlu minna í Bandaríkjunum, í ESB-borginni Brussel nærri helmingur. En ef fullnusta á skyldubólusetningu og áróðurinn dugar ekki er ekki annað eftir en valdboð og þvingun gegn stórum minnihluta þegnanna. Réttarríkið og lögregluríkið vega salt, og þróunin stefnir að því síðarnefnda. Í einu landi af öðru.

Mismunun af þessu tagi minnir illilega á aðskilnaðarkerfið sem ríkti í Suður-Afríku. Þar var innanríkisvegabréf miðlægt atriði til að sundurgreina borgarana m.t.t. kynþáttar. Gyðingastjarnan í Þýskalandi var einnig vel þekkt merki til sundurgreiningar þegnanna. Innanríkisvegabréf voru líka miðlægt atriði í stjórnarháttum nasista bæði í Þýskalandi og herteknum löndum Heimsstyrjaldarinnar síðari. En að lokinni þeirri styrjöld var eftirfarandi grein sett inn í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna nýstofnaðra (sjöunda grein): «Allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án nokkurrar mismununar.»

Frá lokunarstefnu til bólusetningarskyldu

Frá upphafi faraldurs hefur sóttvarnarstefnan verið miðstýrð frá WHO sem orðið er verkfæri lyfjaauðvalsins. Fjórir stærstu kostunaraðilar samtakanna eru USA, Bretland, Bill & Melinda Gates Foundation og GAVI Alliance, en stærsti kostunaraðili síðasttalda er aftur á móti Bill & Melinda Gates Foundation (sjá t.d. hér: https://hemali.no/siste/professor-astrid-stuckelberger-en-pandemi-av-logner/).

Stríðið í Eflingu

(Birtist á Neistum 4. nóvember 2021)

Það kom flatt upp á almenning þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sagði upp starfi sínu og formennsku í Eflingu. Og starfsbróðir hennar Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri einnig. Það kom jafnvel enn flatar upp á fólk að ástæðan skyldi vera «vantraust» frá starfsfólki Eflingar.

Tilefni afsagnarinnar var í fyrsta lagi ályktun tveggja trúnaðarmanna starfsfólksins á skrifstofu Eflingar í júní sl. sumar. Í ályktuninni voru borin upp á stjórn Eflingar samningsbrot, tilefnislausar uppsagnir og «aftökulistar» starfsfólks. Í öðru lagi var tilefnið dramatískur fundur með umræddu starfsfólki föstudaginn 29. október. Á þeim fundi gaf Sólveig Anna hópnum tvo kosti, skv. fésbókarfærslu hennar sjálfrar: «Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu.» En niðurstaða starfsmannafundarins varð sú að orð trúanaðarmannanna frá í júní voru staðfest. Þegar sú niðurstaða lá fyrir sagði Sólveig Anna af sér formennsku. Það gerði einnig Viðar Þorsteinsson framkvæmdarstjóri.

Að vísu sögðust fulltrúar starfsmanna ekki hafa ætlast til neinna afsagna af þeim og ekki ætlað með málið í fjölmiðla https://www.ruv.is/frett/2021/11/01/starfsfolk-vildi-leysa-malid-innanhuss en einn stjórnarmaður í Eflingu, Guðmundur Baldursson, var hins vegar á þeirri leið – og raunar farinn með málið í fjölmiðla daginn fyrir þennan föstudagsfund.

Hér er sem sé um að ræða átök milli starfsfólks á skrifstofu Eflingar og hinnar nýju róttæku forustu félagsins sem kosin var 2018. Hvernig skal meta þau átök? Það mætti hugsanlega álykta sem svo að þarna láti Sólveig Anna persónulega líðan sína í vinnunni yfirskyggja baráttu og verkefni félagsins. Það væri þá varla ásættanleg afstaða hjá verkalýðsforingja. Spurningin er: Er réttlætanlegt að láta starfsmannamálin hafa slíkt vægi í starfi félagsins?