(birt á Neistum 22. júní 2021)
Áttatíu ár eru í dag liðin frá innrás Þýskalands í Sovétríkin, Óperasjón Barbarossa, mannskæðasta glæp veraldarsögunnar. Haldið er upp á afmælið með mikilli samræmdri heræfingu í Austur-Evrópu, gegn Rússlandi. Æfingin sem nefnist DefenderEurope 2021 stendur nú yfir en er dreift á nokkrar vikur í 12 Austur-Evrópulöndum, á landi og sjó. Þátt taka 37 þúsund hermenn frá 27 löndum, þar á meðal frá hinum 14 nýju aðildarríkjum NATO í Austur-Evrópu. Öll fer æfingin fram í Austur-Evrópu, frá Eystrasalti til Svartahafs og Balkanskaga.
Á tímum kalda stríðsins var það líkast til aðeins í verstu martröðum sínum sem Rússar gátu séð andstæðinga sína viðhafa slíka vígvæðingu á svo nálægri lengdargráðu. Þá var „stuðpúðabelti“ vinsamlegra ríkja vestan Rússlands, en nú hefur varnarlínan færst miklu, miklu nær – og óvinurinn stendur við útidyrnar.
Nú er nánast allt meginland Evrópu sameinað í pólitísk-hernaðarlegt bandalag gegn Rússum, NATO. Undantekningin er Hvítrússland (og Sviss). Löndin Úkraína, Georgía, Svíþjóð og Finnland eru að vísu enn ekki formleg NATO-lönd en hafa öll tekið upp „aukna samstarfsaðild“ (NATO‘s Enhanced Opportunities Partners) sem er full þátttaka í hernaðarsamstarfinu án formlegrar NATO-aðildar (Úkraína fékk þá stöðu 2020).
Þá hlýtur staðan að minna óþægilega mikið á stöðuna við upphaf Barbarossa, fyrir réttum 80 árum, frá rússneskum sjónarhól. Þá var einmitt allt meginland Evrópu sameinað undir eina herstjórn (undantekningar voru Sviss og Svíþjóð) þegar herir Þýskalands og bandamanna þeirra réðust inn í Sovétríkin.
Leiðtogafundur NATO var haldinn viku fyrir afmælið og kallaði Evrópuþjóðir til samstöðu á tímum þegar „árásarsinnaðar aðgerðir Rússlands eru ógn við öryggi Evrópu og Atlantshafs“ og til samstöðu um „að verja gildi okkar og hagsmuni“ á tímum þegar „valdboðsríki eins og Rússland og Kína ógna samskiptareglum milli ríkja.“ https://www.nato.int/cps/en/natohq/news_185000.htm
Söguendurskoðun Evrópuþingsins 2019
Vígvæðingin gegn Rússlandi fer líka fram á sagnfræðisviðinu. Nýlega hefur Evrópuþingið í Brussel ályktað sérstaklega um upphaf Seinni heimstyrjaldarinnar. Sú ályktun var gerð í september 2019, þegar 80 ár voru liðin frá því Þýskaland réðist á Pólland 1939. Ályktunin fól í sér svokallaða söguendurskoðun, endurtúlkun á upphafi stríðsins og þar með allri sögu þess.
Ályktunin segir að Evrópuþingið “…leggur áherslu á að Heimsstyrjöldin síðari, mesta eyðileggingarstríð í sögu Evrópu, hófst sem bein afleiðing af hinum illræmda sovét-nasíska griðasáttmála frá 23. ágúst 1939, einnig þekktur sem Mólotoff-Ribbentrop samningurinn og leynilegum ákvæðum hans, en með þeim skiptu þessar tvær alræðisstjórnir, sem deildu sameiginlegu markmiði um heimsyfirráð, Evrópu í tvö áhrifasvæði.” Ályktun Evrópuþingsins fer m.a. fram á að fjarlægðar séu í aðildarríkjunum öll minnismerki sem „heiðra alræðisstjórnir“, þ.á.m. þau fjölmörgu minnismerki í austanverðri álfunni sem helguð eru baráttu Rauða hersins gegn nasismanum. https://www.europarl.europa.eu/doceo/document/TA-9-2019-09-19_EN.html
Nokkrum árum fyrr hafði reyndar Evrópuþingið samþykkt að gera 3. september að «evrópskum degi minninga um fórnarlömb stalínisma og nasisma.“ Þá tengdi Evrópuþingið sig við sk. Prag-yfirlýsingu frá 2008 sem endurspeglar gallharða andkommúníska hefð og var undirrituð m.a. af þekktum stjórnmálamönnum eins og Václav Havel og Vitautas Landsbergis. Kjarni yfirlýsingarinnar er ákall um „al-evrópskan skilning því á að kommúnískar jafnt sem nasískar stjórnir... verða að skoðast sem þær meginhörmungar sem hafa eyðilagt 20. öldina.“ https://en.wikipedia.org/wiki/Prague_Declaration#2009
Frumkvæðið að söguendurskoðun Evrópuþingsins hefur m.a. komið frá stjórnvöldum Tékklands og Póllands í nokkrum atrennum. Síðan hefur þessi sagnfræði tekið upp hugmyndina um „tvöfalt þjóðarmorð“ sem í austanverðri Evrópu er orðin að hreyfingu á sviði sögutúlkunar, og er í senn afar hægrisinnuð og afar andrússnesk.
Þessi sagnfræði beitir sálfræði og nokkrum hugrenningatengslum: Hún lýsir Sovétríkjum Stalíns sem útþenslusinnuðu ríki á borð við Þýskaland Hitlers. Hún tengir Pútín við „útþenslusinnan“ Stalín. Hún lýsir jafnframt Sovétríkjunum og Hitlers-Þýskalandi sem tveimur hliðum á sömu mynt, myntinni „tótalítarisma“ (oftast þýtt sem „alræði“ sem einnig er þýðing á orðinu „diktatúr“). Sú hugmynd er svo yfirfærð til nútímans þar sem NATO er fulltrúi lýðræðisins sem berst við „alræðisöflin“ (tótalítarismann) og er þá yfirleitt vísað til Rússlands og Kína (og Íran og N-Kóreu bætt við þegar hentar).
Griðasamningnum gefið nýtt og aukið vægi
Sagnfræðin er í þá veru að Hitler og Stalín hafi deilt með sér Evrópu og byrjað svo heimsstyrjöldina sameiginlega. Þýskaland var áður talið vera einn upphafaðili Seinni heimsstyrjaldar en þarna eru Þýskaland og Sovétríkin sögð bera ábyrgðina sameiginlega. Sem sagt, stórfelld söguleg „endurskoðun“.
Endurskoðunin felur í sér að heimsstyrjöldin hafi ekki hafist 1. sept. 1939 þegar Þýskaland réðist á Pólland heldur einni viku fyrr, 23. ágúst, við undirritun griðasamningsins sem gjarnan er kenndur við Mólotoff-Ribbentrop. Samningnum er gefið vægi sem hann hefur ekki áður haft, að vera upphaf heimsstyrjaldarinnar. Jafnframt er skipulega horft framhjá aðdraganda samningsins. Sá aðdragandi er þó ærið mikilvægur, jafnvel mikilvægari en samningurinn sjálfur, nefnilega stigvaxandi yfirgangur Þjóðverja (og í minna mæli Ítala) í álfunni – og mjög misjafnlega öflugar tilraunir annarra ríkja til að halda aftur af þeim.