(Birtist á Neistum 23. maí 2021)
Kommúnistasamkoma nærri Reykjavík 1932. Mynd úr Draumar og veruleiki
Bók Kjartans Ólafssonar Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Draumar og veruleiki. Stjórnmál í endursýn er mikið rit. Enda er það rit um mikla hreyfingu, sem er íslenskur vinstrisósíalismi í hálfa öld (u.þ.b. 1917-1968). Sagan er rakin af einum þátttakanda frá síðasta skeiði hennar. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Frásögn Kjartans er á margan hátt afrek og dregur saman feikna mikið efni (568 bls. í stóru broti) í skilmerkilegri og glöggri framsetningu sem á heimtingu á gagnrýninni umræðu. Í mati á sögu sósíalismans er margt sem orkar tvímælis og er sígilt deiluefni, og svo verður líka um úttekt Kjartans Ólafssonar.
Tvískiptingin: hið „heimagerða“ og hið „moskvustýrða“
Það er því ekki áhlaupaverk að ritdæma þessa bók. Ég tek þann kost að taka nokkur mikilvæg atriði til umræðu, pólitískrar umræðu, ekki bókmenntalegrar. Í þessari fyrri (fyrstu) grein fjalla ég eingöngu um afgreiðslu Kjartans Ólafssonar á Kommúnistaflokki Íslands, KFÍ.
Í sögutúlkun sinni gefur Kjartan okkur þá mynd að Kommúnistaflokkurinn íslenski hafi unnið merkilegt og mikið til gott starf fyrir verkalýðinn í íslenskri stéttabaráttu. Hins vegar hafi mjög háð flokknum hin sterku tengsl hans við Moskvu. Þar var Komintern og þar bjó Stalín, og öll áhrif þaðan voru slæm. Jafnframt má fullyrða að á engan þátt í starfsháttum KFÍ leggi Kjartan jafn mikla áherslu og einmitt tengslin við Moskvu. Þessi tvískipting er auðvitað ekki uppfinning Kjartans heldur er hún mjög algeng í hvers konar umfjöllun um þessa hreyfingu, sagnfræðinga sem annarra.
En aðgreiningin er á margan hátt hæpin. Tilkoma, þróun og viðgangur kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi var alla tíð mörkuð af miklum áhrifum frá rússnesku byltingunni, sovéska fordæminu – og á fyrri hluta tímans frá Komintern. Fyrirmynd Sovétríkjanna virkaði sem gríðarleg hvatning fyrir róttækan verkalýð, stundum virkaði hún þó í öfuga átt. En tilraunin til að skilja á milli hins vonda „stalíníska“ og hins góða „heimagerða“ verður gjarnan einskær draumur um fortíðina.
Komintern og klofin hreyfing
Komintern, Þriðja alþjóðasambandið, var miðstýrður heimsflokkur sem reyndi að framfylgja samræmdum, byltingarsinnuðum sósíalisma gegnum aðildarflokka hinna einstöku landa. Komintern, stofnað 1919, var hugmynd Leníns, en var samt engin ný hugmynd. Á undan höfðu starfað Fyrsta alþjóðasambandið og Annað alþjóðasambandið sem bæði reyndu að samræma byltingarsinnaðan sósíalisma á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi, enda væri barátta verkalýðsins alþjóðleg að eðli. Þegar Annað alþjóðasambandið sveik í kringum 1914 og helstu flokkar þess breyttust í verkfæri nokkurra heimsvaldaríkja sem háðu með sér heimsvaldastríð, og þegar byltingin 1917 hafði sigrað í Rússlandi, þótti byltingarsinnum eðlilegt að stofna nýtt alþjóðasamband. Komintern var stofnað um byltingarsinnaðan marxisma sem hafði bætt við sig reynslunni af a) svikum sósíaldemókrata og b) rússnesku byltingunni, stofanð utan um þá lærdóma og endurnýjaða byltingarsinnaða stjórnlist og baráttuaðferðir.
Þó að stéttabaráttan sé alþjóðleg að innihaldi hefur hún að miklu leyti þjóðlegt form í ólíkum löndum og útheimtir því misjafnar baráttuaðferðir. En margur myndi meta það svo að skipulag og uppbygging Komintern hafi um of horft framhjá þessari staðreynd og reynt að fylgja einni samræmdri stefnu við jafnvel ólíkustu aðstæður.
Í sögu Komintern hefur tímabilið á milli 6. og 7. heimsþings – 1928 til 1935 – verið nefndur „vinstri“ tíminn þegar sambandið einkenndist af „vinstri“ kúrs og talsverðri einangrunarstefnu. Stefna sú var mörkuð á 6. heimsþingi sambandsins árið 1928. Stefnan fól í sér það mat að heimskapítalisminn væri aftur orðinn óstöðugur – eftir tímabundinn stöðugleika sem hófst upp úr 1920 – kreppa væri nú í aðsigi og byltingaröflin væru í sókn en auðvaldið í vörn. Efnahagskreppan sem hófst ári síðar þótti staðfesta þetta mat.
Skilgreining Komintern á þjóðfélagslegu hlutverki sósíaldemókrata var erfiðasta málið, síðan einnig skilgreiningin á hlutverki hins vaxandi fasisma. Sósíaldemókratar voru á þessu skeiði skoðaðir sem „þjóðfélagsleg höfuðstoð borgarastéttarinnar“. Og lengi voru hægri kratar og stéttasamvinna þeirra skoðuð sem mikilvægari stoð undir veldi borgarastéttarinnar en fasisminn. Lögð var upp sóknartaktík með mikla áherslu á að yfirvinna áhrif sósíaldemókrata innan verkalýðshreyfingarinnar. Samtímis var þróun fasismans og tilheyrandi afnám borgaralegra réttinda gjarnan túlkað sem veikleikamerki, sem örþrifaráð auðstéttar sem sæi völd sín í bráðri hættu. „Vinstri“ stefna Komintern byggði sem sagt á yfirdrifinni byltingarbjartsýni og vanmati á stéttarandstæðingnum.