(birt á Neistum 24.febrúar 2021)
Tveir viðburðir í öryggismálum Vesturlanda urðu í febrúar: Varnarmálaráðherrar NATO-ríkja (og Guðlaugur Þórðarson) héldu með sér fjarfund 10-12 febrúar. Einnig var 19. febrúar haldin árleg öryggisráðstefna í Munchen. Bandaríkin og höfuðstöðvar NATO gáfu tóninn á báðum stöðum. Tónninn er skýr: herskár. Og miklu ákveðnar en nokkru sinni áður beindist sá hauklegi tónn gegn nýjum meginandstæðingi, Kína.
Í morgunútvarpinu 18. febrúar (Heimsglugganum) skýrði Bogi Ágústsson nýjustu áherslur NATO. Hann spilaði brot úr viðtali við Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra bandalagsins og lagði út af því: «Hér er Stoltenberg að tala um það ríki sem er kannki helsti andstæðingur eða keppinautur NATO-ríkjanna núna, það er Kína. Það er náttúrlega alveg ljóst að áhersla Bandaríkjanna hefur á a.m.k. síðustu 20 árum verið að flytjast frá Evrópu yfir á Kyrrahafið og Kína.“ Bogi skýrði áfram hverjar hætturnar væru í nútímanum: „Margir telja stafa vaxandi ógn af Kína á netinu. Þeir hafa verið að gera árásir og innbrot. Svo standi Vesturlöndum líka ógn af geimferðaáætlun þeirra. Svo hafa Kínverjar verið mjög aggressífir í sínu nánasta umhverfi. Hafa líka verið í mikilli útþenslu í Afríku og víðar og framkoma þeirra verið þannig að margir telja að þeim stafi ógn af þeim.“ Bogi sagði í viðtalinu að Kínverjar og Bandaríkjamenn líti hvor á annan sem aðalkeppinaut og það sé ekki alveg nýtt: „Við skulum minnast þess að Vilhjálmur Þýskalandskeisari II talaði um „Die gelbe Gefahr“, gulu hættuna.“ https://www.ruv.is/utvarp/spila/morgunvaktin/23614/7hhgfg
Það er allmikil frétt að heyra því miðlað frá höfuðstöðvum NATO að Kína sé „helsti andstæðingur eða keppinautur NATO-ríkjanna“. Bogi Ágústsson er enginn æsingamaður. Hann endurómar þvert á móti dável það sem vestrænir meginstraumsmiðlar segja á hverjum tíma. Og það er þetta sem þeir segja núna. Við höfum vissulega áður heyrt þessa tóna frá Washington, t.d. frá Pompeo fyrrverandi utanríkisráðhera. En frá NATO markar þessi harkalega Kína-áhersla stefnubreytingu.
NATO-stefna í bók
NATO leggur fram nýtt prógramm, í bókarformi, sem samþykkja skal á leiðtogafundi NATO seinna á árainu. Nafnið er «NATO for 2030: United for a New Era», og höfundar eru 10 sérfræðingar sem Stoltenberg réði til verks. Höfuðstöðvar NATO standa fyrir fjarfundum með stúdentum og ungmennum til að ræða bókina og um komandi ógnanir næsta áratuginn. Þar kemur fram að „sé horft fram til 2030 verður Rússland sennilega áfram helsta ógnunin við bandalagið.“ En að samtímis standi NATO frammi fyrir vaxandi „öryggisáskorunum frá Kína – út frá mati á pólitískri getu og efnahagslegri þyngd, og yfirlýstum hugmyndalegum markmiðum leiðtoga landsins... sem getur haft áhrif á sameiginlegar varnir og hernaðarlegan viðbúnað.“ (bls. 28) Mjög er hamrað á „miðlægi sambandsins yfir Atlantshafið“ þ.e.a.s. sambands Evrópu við Bandaríkin undir bandarískri forustu, ásamt því að styrkja pólitískt hlutverk NATO gegnum Norðu-Atlantshafsráðið.
KJARNORKUVOPNAÖRYGGIÐ er sett í miðju: „NATO verður að halda uppi nægjanlegri hernaðargetu hefðbundinna vopna og kjarnavopna og hafa snerpu og sveigjanleika til að mæta yfirgangssemi um allt svæði bandalagsins... sérstaklega á austurvængnum“ (26). Kjarnavopnin „eiga að vera áfram einn meginþáttur í tryggingu öryggis og ódeilanleika öryggis á Evró-Atlantíska svæðinu... NATO þarf áfram að endurstyrkja sameiginlegar kjarnavopnavarnir sem eru meginþáttur í fælingarstefnu bandalagsins.“ (36 og 38). Sérfræðingarnir 10 mæla með auknum hraða í staðsetningu skotpalla og flauga. NATO_2030.pdf (voltairenet.org)
Í samhljómi við Washington
Tónarnir frá Stoltenberg eru í góðum samhljómi við nýja og hauklega tóna Biden-stjórnarinnar. Áðurnefndir hermálaviðburðir í febrúarmánaði marka einmitt stykingu ATLANTISMANS, þ.e. pólitíska og hernaðarlega sambandsins yfir Atlantshafið undir Bandarískri forustu. Í ræðu sinni til Munchenráðstefnunnar ásakaði Joe Biden Trump um að hafa spillt þessu sambandi með tíðum árekstrum og deilum við Evrópuleiðtoga, og hann hamraði á mikilvægi þess að styrkja það að nýju.