(birtist á Neistar.is 12. 12. 20)
Frelsisstyttan í útrás. Málverk Þrándar Þórarinssonar.
Trumpisminn sem pólitísk stefna tengist öðru fremur neikvæðri afstöðu til „hnattvæðingarstefnu“. Afstaða bandarískra stjórnvalda til þessa fyrirbæris er afgerandi hluti af stjórnmálum risaveldisins eina – og okkur hina jarðarbúana skiptir hún líka býsna miklu máli. „America is back“ hrópaði Joe Biden eftir kosninganóttina og vísaði til þess forustuhlutverks í alþjóðamálum sem Trumpstjórnin hefði sagt sig frá en skyldi nú tekið upp aftur.
Það er orðin viðtekin venja að kenna heimskapítalismann eftir 1990 við „hnattvæðingu“. Þetta er jafnframt það tímabil sem nýfrjálshyggjan/markaðshyggjan hefur mótað auðvaldskerfið – hnattvæðingin ruddi sér til rúms á grundvelli markaðshyggju og er hluti af henni. Samhliða einkavæðingu og markaðsvæðingu í einstökum löndum fól hnattvæðing í sér „opnun markaðanna út á við“, frjálst flæði fjármagns milli landa og heimshluta og með tilheyrandi athafnafrelsi auðhringa. Á þessu 30 ára skeiði hefur markaðsfrjálslynd hnattvæðingarstefna verið ríkjandi hugmyndafræði, a.m.k. um hinn vestræna heim.
Einnig marxistar nota hugtakið hnattvæðing – og tengja hana hugtakinu HEIMSVALDASTEFNA. Marxísk fræði hafa lengi bent á þá þætti sem einkennt hafa kapítalisma á stigi heimsvaldastefnu allt frá upphafi 20. aldar: samþjöppun og einokun auðmagnsins, drottnun risaauðhringa, aukið vægi fjármálaauðmagnsins, mikill fjármagnsútflutningur, átök heimsvelda um markaði og áhrifasvæði. Þróunin þessa þrjá áratugi hnattvæðingar sýnir einmitt öll þessi efnahagslegu einkenni – í öðru veldi. Hnattvæddur kapítalismi er form heimsvaldastefnunnar í nútímanum.
Jafnframt þessum efnahagslegu einkennum kapítalismans hefur sama tímabil kapítalismans ákveðin PÓLITÍSK einkenni. Eftir fall Sovétríkjanna og Austurblokkar um 1990 hefur megineinkenni alþjóðastjórnmála verið EINPÓLA HEIMUR með Bandaríkin sem eina risaveldið, og þau nýttu þá stöðu til að reyna að leggja heiminn allan undir sig.
Eftir aldamótin 2000 urðu samt til ný viðnámsöfl innan heimsvaldakerfisins og þeim öflum hefur vaxið fiskur um hrygg. Þau hafa styrkt sambandið sín á milli og komið fram sem mótpóll. Fremst í þessum andstöðuarmi eru Rússland og Kína, líka Íran ásamt smærri bandamönnum. En jafnframt hafa þesi lönd gengist inn á hið hnattvædda efnahagslíkan, ekki síst nýkapítalískt Kína sem kemur fram sem hratt rísandi keppinautur innan þess kerfis.
Hnattvæðingarferlið – nokkur einkenni
Skoðum fyrst nokkur einkenni hnattvæðingar sem EFNAHAGSLEGS FERLIS. Hnattvæðingaröflin leitast við að gera heiminn að einu opnu athafnasvæði auðhringa, með opnun markaða, frjálsu flæði fjármagns og vinnuafls milli landa og heimshluta. Hnattvæðingarþróun felur í sér að ákvarðanavald um efnahagsmál færist í hendur á fjarlægum fjármálaelítum, burt frá almannavaldi og þjóðþingum einstakra landa, grefur undan lýðræði, grefur undan sjálfsákvörðunarrétti þjóða og ríkja.
Af helstu verkfærum og múrbrjótum hnattvæðingarinnar á umræddu hnattvæðingarskeiði ber að nefna GATT, WTO, ríkjabandalög eins og ESB/EES í Maastricht-búningi, NAFTA og ASEAN, viðskiptasamningar eins og TISA og TTIP og fjármálastofnanirnar AGS og Alþjóðabankinn. Ef benda skal á hugmyndalega forustu í ferlinu er eðlilegt að benda á samtökin World Economic Forum (WEF, með fundarstað í Davos í Sviss) samkundu hnattrænnar fjármálaelítu og 1000 helstu þungaviktarauðhringa heims.