Sunday, November 22, 2020

Joe Biden opinskár um Sýrlandsstríðið

(Birtist á Neistum 14. nóv 2020)



Nýr forseti sýnist hafa tryggt sér völd í Bandaríkjunum. Joe Biden var varaforseti BNA í stjórnartíð Baracks Obama. Af þessu tilefni er vert að rifja upp eitt atvik í afskiptum hans af utanríkismálum frá 2014. Nánar tiltekið fólust þau í greiningu á stríðinu í Sýrlandi sem ollu fjaðrafoki og móðguðu nokkra helstu bandamenn BNA í Miðausturlöndum.

Joe Biden var ákafur og áhrifamikill stuðningsmaður innrásar í Írak 2003. En Íraksstríðið varð Bandaríkjunum dýrt, blóðugt og óvinsælt, og erfitt yrði í Bandaríkjunum að markaðssetja slíkt stríð á ný. Næstu stríð í Miðausturlöndum hlutu að verða annars konar.

Frá byrjun Sýrlandsstríðsins 2011 hafa Washington og Pentagon, vestræn stjórnvöld og vestrænir fjölmiðlar markaðssett það stríð sem eina mikla „uppreisn gegn harðstjóra“. Sú uppreisn gegn Assad-stjórninni hafi byrjað sem „friðsamleg mótmæli“ en verið lamin niður af slíkri hörku að „borgarastríð“ hlaust af. Þessa sögu hafa RÚV Mogginn og Fréttablaðið sagt okkur 1000 sinnum.

Eftir því sem „uppreisnin“ gegn Assad varð villimannlegri varð hins vegar ekki framhjá því horft að í henni voru „slæm öfl“ sem komu óorði á málstaðinn. Fremst í þeim óþokkaflokki var Íslamska ríkið, og fleiri en eitt útibú af al-Kaída sem nokkru áður, eftir 11. september, voru sögð mesta ógn við mannkynið.

Þá var það að vestræn stjórnvöld tóku að sundurgreina uppreisnaröflin í Sýrlandi í annars vegar „öfgasinnaða“ hryðjuverkamenn og hins vegar „hófsama uppreisnarmenn“ þar sem styðja þyrfti þá síðarnefndu í baráttu við bæði þá fyrrnefndu og gegn Sýrlandsstjórn.

Það var um þessa vandasömu greiningu milli vondra og góðra afla í sýrlensku uppreisninni sem Joe Biden eitt sinn talaði furðulega glannalega. Hann lagði jafnframt fram greiningu á stríðinu sem var hreint ekki í samræmi við hina opinberu stefnu stjórnvalda. Greininguna þurfti hann þess vegna að draga til baka. Hún var hins vegar miklu nær sannleikanum en opinbera stefnan frá Washington.

Eftirfarandi texti er eftir sænska blaðamanninn Patrik Paulov og er kafli úr bókinni Syriens tystade röster sem kom út árið 2019. Sjá hér


Patrik Paulov (kafli úr bókinni Syriens tystade röster):

Vopnin fljóta inn í Sýrland

Cambridge, Boston 2. október 2014. Salurinn er þéttsetinn. Harvard Kennedy School við hinn virta Harvard University hefur boðið Joe Biden varaforseta að koma og tala um utanríkismál.

Stríðið í Sýrlandi hefur staðið í þrjú og hálft ár. Tölur um mannfall og fjölda flóttamanna hafa stöðugt hækkað og hryðjuverkaherinn Íslamska ríkið hefur á stuttum tíma hernumið stór svæði í Írak og Sýrlandi. Með Íslamska ríkið sem átyllu hafa BNA byrjað að varpa sprengjum yfir Írak og Sýrland.

Biden virkar afslappaður og í góðu skapi. Hann tekur hljóðnemann og grínast við kynninn áður en hann hefur mál sitt. Hann talar um Rússland og Pútín, um fund sinn með Xi Jinping og um það að BNA hafi ekki látið brjóta sig niður með hryðjuverkunum 11. september og sé enn fremsta hagkerfi heimsins. Hann endar með orðunum: „Guð blessi ykkur öll og megi guð vernda hermenn okkar. Takk fyrir.“

Þá tekur við lófaklapp og kominn er tími fyrir fyrstu spurningu. Stúdent spyr um þátttökuna í Sýrlandsstríðinu og af hverju rétt sé að taka þátt í því núna en ekki fyrr. Biden tekur við hljóðnemanum og kemur með svar sem brátt verður vel þekkt víða um lönd.

Varaforsetinn byrjar á að segja að í Bandaríkjunum haldi menn að í hverju því landi sem standi frammi fyrir umbyltingu sé að finna hófsama miðju í stjórnmálunum. „En möguleikinn á að finna hófsama miðju í Sýrlandi var aldrei fyrir hendi“ slær Biden föstu. Þessu fylgir síðan nokkuð sem á eftir að vekja viðbrögð:

  • „Mesta vandamál okkar í Sýrlandi fólst í bandamönnum okkar á svæðinu. Tyrkir voru góðir vinir okkar og ég er í góðu sambandi við Erdógan sem ég hef nýlega hitt, og ég er í góðu sambandi við Sáda og Sameinuðu furstadæmin o.s.frv. Hvað voru þeir að gera? Þeir voru svo ákveðnir að steypa Assad og koma af stað styrjöld súnnía við sjía gegnum staðgengla að þeir jusu inn hundruðum milljóna dollara og tugþúsundum tonna af vopnum í hverja þá sem börðust gegn Assad – nema hvað þeir sem tóku við sendingunum voru al-Nusra og al-Kaída og öfgasinnaðir jíhadistar sem koma frá öðrum svæðum heimsins. Þið haldið að ég sé að ýkja, en gáið að hvert þessar sendingar fóru.“

Ræða Bidens var fest á filmu og má finna á Youtube-vef Harvard háskólans [vandfundnari á netinu nú en áður, þýð.]. Óvænt útspil hans fékk fljótt mikla dreifingu og þeir sem þar var vísað til urðu felmtri slegnir. Erdógan krafðist opinberrar afsökunarbeiðni. Tveimur dögum eftir upptroðsluna gaf talsmaður Bidens út eftirfarandi yfirlýsingu:

  • „Varaforsetinn biðst afsökunar á öllum fullyrðingum um að Tyrkland eða aðrir bandamenn og samstarfsaðilar á svæðinu hafi vísvitandi stuðlað að eða stutt framgang Íslamska ríkisins eða annarra ofbeldis- og öfgaafla í Sýrlandi.“

Þrátt fyrir afsakanirnar gefa orð Bidens hlutaskýringu á því af hverju stríðið í Sýrlandi hefur orðið svo grimmilegt og dregist svo á langinn. Varaforsetinn staðfesti það sem yfirmaður eftirlitsmanna SÞ, Robert Mood, benti á í júní 2012 um að „það koma sendingar bæði af peningum og vopnum“ og við höfum séð „erlenda aðila stuðla að ofbeldisvítahring á allt annað en uppbyggilegan hátt“. Það sem Biden sleppir að fjalla um er eigin þáttur í að kynda undir „ofbeldisvítahringnum“ [...]

Að Bandaríkin væru beint innblönduð í að kynda undir stríðinu í Sýrlandi var afhjúpað af New York Times 21 júní 2012:

  • „Dálítill hópur CIA-foringja eru leynilega starfandi í suðurhluta Tyrklands. CIA-foringjarnir hjálpa bandamönnum Bandríkjanna að ákveða hvaða uppreisnarhópar hinum megin landamæranna skuli fá vopn til að berjast við Sýrlandsstjórn að sögn bandarískra talsmanna og arabískra upplýsingafulltrúa.
  • Vopn, m.a. sjálfvirkar byssur, sprengjukastarar, skotfæri og vopn gegn brynvörðum ökutækjum eru flutt yfir tyrknesku landamærin eftir leynilegu neti milliaðila þ.á.m. Múslimska bræðralagsins. Vopnin eru kostuð af Tyrklandi, Sádi-Arabíu og Katar.“

Meira um framgöngu Obama/Bidens í Miðausutrlöndum – og einnig fyrirrennaranna Bush/Cheney og eftirmannanna Trump og Pence – má lesa í bókinni Syriens tystade röster.

Hernaðaráætlanir gegn Rússlandi og ósk um aðstöðu á Austfjörðum

(Birtist á Neistum 1. nóvember 2020

Mikilvægasta hernaðarlega hugveita í Bandaríkjunum er RAND-corporation. Hún leggur fram greiningar og stjórnlist fyrir Bandaríkjaher. Stofnunin lagði fram mikla hernaðaráætlun gegn Rússlandi á síðasta ári. Hún ber titilinn, Rússland teygt. Barist á hagstæðum grunni. (Extending Russia: Competing from Advantageous Ground) Það er ítarleg áætlun upp á rúmlega 300 bls. Hana má sjá hér.

Birting á þessu staðfestir að margt af því ráðabruggi bandarískrar utanríkiselítu sem maður hefur haft í getgátum liggur nú opinskátt fyrir.

„Að teygja Rússland“, hvað þýðir það? Í inngangi ritsins er það útskýrt sem „friðsamlegar aðgerðir [svo] sem reyna á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda heima eða utan lands... og ber að skoða sem aðgerðir sem myndu láta Rússland keppa við Bandaríkin á sviðum og svæðum þar sem Bandaríkin hafa samkeppnisforskot og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega og láta stjórnvöld þar tapa virðingu og áliti heimafyrir og alþjóðlega.“

Fjórði kafli ritsins heitir „Landpólitískar aðgerðir“ (Geopolitical Measures). Yfirskriftirnar tala sínu máli: Aðgerð 1: Útvega vopnaaðstoð til Úkraínu. Aðgerð 2: Auka stuðning við sýrlenska uppreisnarmenn. Aðgerð 3: Stuðla að valdaskiptum í Hvítarússlandi. Aðgerð 4: Nýta spennuna í Kákasuslöndum. Aðgerð 5: Draga úr áhrifum Rússlands í Mið-Asíu. Aðgerð 6: Standa gegn áhrifum Rússlands í Móldóvu.

Áherslurnar eru skýrar og síðan hernaðaráætlunin var lögð fram 2019 hefur orðið „uppreisn“ í Hvítarússlandi og spennan í Kákasus heldur betur hlaðist upp með stríði Asera og Armena. Bandarískir strategistar tala löngum um að gera Sýrland að „Víetnam Rússlands“. Og allar þessar aðgerðir miða að því að „teygja Rússland“ á áhrifasvæði sínu, grafa undan áhrifum þess og veikja það með hjálp álagsþreytu.

Þriðji kafli hernaðaráætlunarinnar heitir „Efnahagslegar aðgerðir“. Þær eru samkvæmt yfirskriftum: Aðgerð eitt: Hindra olíuúflutning. Aðgerð 2: Draga úr útflutningi á jarðgasi og hindra útbyggingu á gasleiðslum.

Sá hluti af hernaðaráætlun RAND er nú einnig á framkvæmdastigi. Olía og gas eru helsti útflutningur Rússa. Þýskaland er í brýnni þörf fyrir jarðgasið frá Rússlandi og Nord Stream leiðslan (sjá hér) um Eystrasalt er nærri tilbúin. Bandaríkin hafa frá byrjun lagt gríðarlega áherslu á að stöðva hana, m.a.s. hótað Þýskalandi efnahagslegum refsiaðgerðum. Aukin efnahagssamvinna Rússlands og Þýskalands er mikill þyrnir í augum Bandaríkjanna.


Vá fyrir dyrum Rússa

Í því að reka fleiga á milli Rússlands og Þýskalands gegna Eystrasaltslönd, Hvítarússland og Úkraína lykilhlutverki, landfræðinnar vegna. Litabylting tókst í Úkraínu 2014 og bandaríska utanríkiselítan hefur haft „valdaskipti“ í Hvítarússlandi á stefnuskránni síðan, samanber þessa áætlun RAND.

Í Washington og hjá NATO eru miklar vonir bundnar við uppþotin í Hvítarússlandi eftir kosningarnar umdeildu í ágúst. Þremur vikum eftir kosningarnar, og meðan uppþotin vegna þeirra voru mest í Minsk, héldu Bandarískar hersveitir æfingar í Litáen við Hvítrússnesku landamærin. Sjá nánar.

Horfurnar fyrir Nord Stream versnuðu verulega við dularfullt drápstilræði við rússneska stjórnarandstæðinginn Navalny. Þá tóku bandamenn BNA í Evrópu vel við sér. Í framhaldinu hefur Evrópuþingið a) viðurkennt stjórnarandstöðuna í Hvítarússlandi sem réttmætt stjórnvald landsins og b) krafist þess að lagning Nord Stream sé stöðvuð. Líkur styrkjast nú á því að þetta tvennt, uppþot í Hvítarússlandi og Navalny-málið séu verkfæri sem duga muni til að stöðva framkvæmd Nord Stream. Sjá nánar.

Svo nú tikkar í flest box og hjá RAND-corporation. Eftir litabyltinguna 2014 hefur Úkraína tekið fullan þátt í heræfingum NATO í Austu-Evrópu. Og Rússum mun þykja vá fyrir sínum dyrum ef NATO-sinnuð öfl ná völdum í Hvítarússlandi og „herskáasta þjóð í sögu mannkynsins“ (orð Jimmy Carters) með NATO-bandamönnum sínum getur þá stundað heræfingar sínar meðfram endilöngum vesturlandamærum Rússlands.


Hvernig getur Ísland hjálpað til?

Getur litla Ísland lagt stríðinu gegn Rússum eitthvert lið? Mbl.is greindi frá heimsókn yfirforingja í Bandaríkjaher til Reykjavíkur sl. föstudag.

Robert Burke flotaforingi og yfirmaður bandaríska sjóhersins í Evrópu segir bandaríska herinn vera að íhuga aukna fjárfestingu hér á landi sem myndi fjölga þjónustu svæðum fyrir flotann við Íslands strendur. Herinn sé að kanna hvort „eitt hvað verðmæti sé í litlu, varanlegu fótspori frá Bandaríkjunum“ á Íslandi.

Á Íslandi eru nokkrar þjónustu stöðvar fyrir NATO. Við erum að kanna hvað þyrfti til að stækka við þær stöðvar, fjárfesta í þeim,“ sagði Burke á fundi sem haldinn var í sendiráðinu í dag. „Mig langar mikið í þá valkosti sem við höfðum fyrir 25 til 30 árum síðan, með tilliti staða sem hægt er að lenda á og athafna sig.

Hann segir herinn líta sérstaklega til Austurlands þar sem slíkur staður væri „hentugri“ fyrir hernaðaraðgerðir en t.d. höfuðborgarsvæðið, vegna nálægðar við svæðin sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega. Auk þess myndi slík aðstaða geta stutt undir öflugri leit og björgun á hafsvæðum umhverfis Ísland.

Ekki er búið að ræða við íslensk yfirvöld um þessi áform en hugmyndinni hefur verið velt upp, að sögn Burke. „Ég veit ekki hve móttækileg ríkisstjórnin ykkar er í þessu máli, svo við verðum að eiga það samtal.““ Sjá grein Mbl hér.

Svo mörg voru þau orð. Á síðustu árum hefur viðvera Bandarísks herliðs á Keflavíkurvelli breyst úr stopulli viðveru í fasta viðveru með vaxandi en „hreyfanlegan herafla“, og aukningin hefur verið hröðust í stjórnartíð Katrínar og Bjarna. Fréttin af heimsókn Burkes bendir til að fleiri tíðinda geti verið að vænta.

Þrjú innlegg gegn lokunarstefnu

(Birtist á Neistum  29.október 2020)


                                                           Auð stræti á tíma kórónuveiru

(Eftirfarandi grein tjáir aðeins sjónarmið höfundar)

Alveg frá byrjun covid-19 faraldursins austur í Kína hefur ráðandi fjölmiðlaumræða talað um þetta fyrirbæri eins og plágu á borð við Spænsku veikina eða slíkar drepsóttir. Og á orðræðunni um „þriðju bylgjuna“ má enn skilja að covid sé helsta ógn og dánarorsök nú um stundir.

Viðbrögð stjórnvalda við þessu, samræmd í flestum aðildarríkjum SÞ, allt frá byrjun mars sl. hafa verið samfélagslegar lokanir þar sem samfélögum, atvinnulífi, samgöngum og félagslegum samskiptum hefur verið lokað og læst að meira eða meinna leyti. Það er það sem hér er nefnt „lokunarstefna“.

Covid er ekki helsta ógnin. Ár hvert deyja milli 50 og 60 milljónir jarðarbúa. Hjartasjúkdómar drepa um 17 milljónir og krabbamein 9,6 milljónir á hverju ári. En hingað til árið 2020 eru 1.1 milljón dauðsföll í heiminum skráð sem „covidtengd“. Rannsóknir sýna að yfir 90% hinna látnu höfðu fyrirfram einn eða fleiri aðra undirliggjandi sjúkdóma sem einnig áttu þátt í viðkomandi dauðsfalli.

Covidhættan nægir samt stjórnvöldum og fjölmiðlunum til að halda almenningi í sífelldum ótta með háum tölum um smit. Fréttir RÚV nú í vikunni: „Metfjöldi smita greinist dag eftir dag í nær hálfri Evrópu. Þessi bylgja faraldursins er sú stærsta til þessa...“ „[Kórónuveirusmit] hafa ekki verið fleiri á einum degi frá því að heimsfaraldurinn braust út“.

Hópsmitið á Landakoti var alvarlegt mál. En langflestir sem látist hafa af covid-19, á Íslandi sem annars staðar, dóu í vor. Samt er samfélagið enn og aftur og áfram sett á hiðina „í sóttvarnarskyni“. Við horfum fram á annan vetur eymdar og volæðis og varanlega samfélagsbreytingu – upp rís eftirlitssamfélag í nafni sóttvarna.

„Umræðuna“ á Íslandi um viðbrögðin gagnvart covid verður að hafa innan gæsalappa. Ákvarðanir eru teknar í samráði þríeykis og ráðherra. Upplýsing og ákvarðanir ganga aðeins í eina átt, ofan frá og niður. Þar á ofan er sú sóttvarnarstefna sem framfylgt er í grófum dráttum samkeyrð á heimsvísu og óljóst hvar sú stefna var mótuð. Eiginleg umræða um hana, og eiginlegt lýðræði, eiga mjög erfitt uppdráttar.

Gagnrýnar spurningar um hina ríkjandi stefnu heyrast samt í vaxandi mæli þrátt fyrir glymjanda mötunarvélarinnar. Eðlilega koma margar þeirra úr heilbrigðisgeiranum. Erlend dæmi: Fjölþjóðlegur hópur nokkur hundruð lækna og vísindamanna á heilbrigðissviði stofnaði World Doctors Alliance á stofnfundi í Berlín nú 10. október. Meðlimir hópsins deila reynslu sinni og ganga gegn lokunarstefnunni með öllum hennar gríðarlegu hliðarverkunum. Undirskrifendur eru nú rún 30 þúsund. Læknasamband þetta kynnir sig á eigin netsíðu, sjá hér. Tveimur vikum fyrr var belgískum stjórnvöldum sent bréf undirritað af 476 læknum og 1509 öðru heilbrigðisstarfsfólki þar í landi. Undirskrifendur krefjast endurskoðunar á kórónuráðstöfunum og þess að venjuleg lýðræðisleg réttindi taki aftur gildi í landinu. https://anthropocene.live/2020/09/22/brev-fran-400-lakare/

Meiri athygli hefur þó vakið svonefnd Great Barrington-yfirlýsing. Það er yfirlýsing þriggja alþjóðlega viðurkenndra sérfræðinga í smitsjúkdómum sem eru prófessorar þriggja leiðandi háskóla – um stefnumótun vegna COVID-19, samin og undirrituð í Great Barrington í Bandaríkjunum 4. október 2020. Yfirlýsingin hefur fengið undirskrift yfir 10 þúsund lýðheilsusérfræðinga og yfir 30 þúsund lækna vítt um heiminn. En hópurinn hefur þó fengið krúnuna kembda og mátt þola mikla sverti-herferð á Google og ritskooðun á YouTube. Það auðveldaði andstæðingum hans leikinn að hugveitan sem stóð að fundinum i Barrington, American Institute for Economic Research, er þekkt fyrir frjálshyggjupólitík. Það breytir því þó ekki að yfirlýsing þessi er ljóst merki um faglegan ágreining um sóttvarnastefnuna, enda höfundarnir alveg leiðandi vísindamenn á sínu sviði.

Hér á eftir verða tilfærð þrjú innlegg í covidumræðuna í októbermánuði. Það fyrsta er einmitt Great Barrington yfirlýsingin. Hin innleggin tvö koma ekki frá neinum „uppreisnaröflum“ í covidumræðunni heldur birtust þau á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, en þau gefa samt bendingu í öfuga átt við það sem haldið er að okkur frá morgni til kvölds. Þó innleggin séu úr ólíkum herbúðum eiga þau þó það sameiginlegt að varpa gagnrýnu ljósi á lokunarstefnuna.


I. Great Barrington-yfirlýsingin

Great Barrigton-yfirlýsingin veldur deilum og er ötuð auri. Það er ekki óvænt þar sem hún gengur gegn núgildandi aðferð í baráttunni við covid, einkum því atriði að lokunarstefna og einangrun viðkvæmra jafnt sem hraustra sé lykillinn að árangri. Sérfræðingarnir á Barringtonfundi ganga m.a. út frá þeim tölfræðilega veruleik að munur á áhættu gagnvart veirunni sé gríðarlegur milli ólíkra samfélagshópa, þúsundfaldur munur milli æskulýðs og þeirra elstu segir þar. Strategía þeirra er því aldursmiðuð. Einnig fjallar yfirlýsingin um óhemjuleg og niðurrífandi samfélagsleg – og heilsufarsleg – áhrif lokunarstefnunnar. Yfirlýsinguna má sjá hér https://gbdeclaration.org/view-signatures/ og stytt útgáfa hennar hljóðar svo í þýðingu:

Covid-19, verkfæri í stéttabaráttu

(Birtist á Neistum 30. sept 2020)

Í fréttum 22. september sagði RÚV: „Í yfir 20 Evrópuríkjum greinast nú fleiri kórónuveirutilfelli daglega en í vor.“ Og þremur dögum síðar sagði RÚV: „Aldrei hafa fleiri tilfelli [af kórónuveiru] greinst á einum degi á heimsvísu enn síðastliðinn sólarhring.“ https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir-kl-19-00/27717/8kua0d/aldrei-fleiri-greinst-med-koronuveirusmit Daginn eftir hófst fréttatími útvarps svona: „Metfjöldi Kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 greindust bæði í Bretlandi og Frakklandi síðasta sólarhring.“ Þetta eru engin öfgadæmi heldur tilviljunarkennd dæmi. RÚV talar nú stöðugt um „fjölda smita“ en sleppir því hins vegar yfirleitt að nefna hvað margir af öllum þessum smituðu séu veikir eða deyi.

Munurinn á „tilfellum“ núna og í vor er sá að núna er skimað fyrir veirunni í mörgum löndum sem lítið var gert í vor (nema á Íslandi). Í vor þýddi „tilfelli“ yfirleitt þeir sem höfðu sjúkdómseinkenni, voru veikir, en nú þýðir það allir þeir sem hafa einhverjar agnir af veiru í öndunarvegi. Þar með margfaldast tala „smitaðra“. Dánarhlutfall smitaðra (IFR) og dánarhlutfall sýktra (CFR) er sitt hvað, en þessu tvennu er líka flækt hvoru um annað. Þetta er því skilningshamlandi fréttaflutningur hjá RÚV með þann eina sjáanlega tilgang að velja óöryggi og skelfingu. Sjá um hugtakarugl: https://drmalcolmkendrick.org/2020/09/04/covid-why-terminology-really-matters/

Þetta hefur líka verið ríkjandi stefna frá upphafi þessa sjúkdóms. Frá byrjun hafa RÚV og helstu fjölmiðlar landsins talað um kórónuveiruna sem heimsfaraldur í sérflokki. Sem einstæðan, afar mannskæðan sjúkdóm og óútreiknanlegan ekki síður. Sem ógni mannkyninu sjálfu! Með því eru fjölmiðlarnir annars vegar málpípur hinnar opinberu heilbrigðisstefnu og stunda hins vegar hreina æsifréttamennsku. Afleiðingin er almennur ótti og óöryggi.


Hin miðstýrða hnattræna „heilbrigðisstefna“

Þegar fyrst var farið að fjalla um Covid-19 gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, út ógnvekjandi tölur: að dánartíðni þeirra sem smituðust væri 3,4%, allir væru í hættu, engin lækning til og sjúkrahúsin myndu yfirfyllast. Stofnun með mikið heilsufarslegt agavald, Imperial College í London (undir forustu Neil Ferguson), lýsti því yfir í mars að allt að 40 milljónum myndi líklega deyja úr Covid á heimsvísu án róttækra aðgerða, en með lokunum, rekstrarstöðvunum og slíkum varnaraðgerðum mætti lækka töluna í 20 milljónir. https://www.imperial.ac.uk/mrc-global-infectious-disease-analysis/covid-19/report-12-global-impact-covid-19/ Umfram aðra aðila varð Imperial College sá sem „sló taktinn“ um viðbrögð við Covid, a.m.k. í Evrópu. Lokunarstefnan var svo framkvæmd, vissulega með tilbrigðum, með stuttu millibili um allan heim, í nær öllum 193 aðildarríkjum SÞ.