(birtist á Neistum 11. sept 2020, meðhöfundur Jón Karl Stefánsson)
Í dag er árásin á Tvíburaturnana 19 ára. Nýlega kom út (á ensku, af íslensku forlagi) ný bók um atburðina sem áttu sér stað þann 11. september 2001. Þetta er gríðarlega vel unnin og beinskeytt bók sem nær að fanga marga mikilvægustu þættina um þetta málefni. Bókin America´s Betrayal Confirmed. 9/11: Purpose, Cover-up and Impunity, er sterk bók um stórmál. Elías Davíðsson er baráttumaður mannréttinda, hefur einnig mjög fjallað um náttúruverndarmál og lýðræði en öðru fremur hefur hann sem sérsvið málefni hryðjuverka (undir fölsku flaggi sérstaklega).
Elías hefur áður fjallað um málefni tengd 11. september 2001 í bók sinni «Hijacking America´s Mind on 9/11» (Algora Publishers, New York, 2013), þar sem hann sýndi fram á að bandarísk yfirvöld hafa ekki lagt fram neinar sannanir um veru hryðjuverkamanna í flugvélunum. Önnur bók hans, einnig á ensku, var umfangsmikil rannsókn á hryðjuverkunum í Mumbai (Indlandi) árið 2008. Bókin varð tilnefnd bók ársins af hálfu stofnunarinnar London Institute on South Asia árið 2018 og hefur verið þýdd á úrdú (landsmáli Pakistan). Auk þess gaf Elías út tvær bækur á þýsku, aðra um 11. september 2001 og hina um atburðinn á jólamarkaðinum í Berlín 2016, einu bókina sem hefur birst um þennan atburð. Sú bók hefur verið þýdd á tékknesku. Bókin sem hér er fjallað um, hefur verið þýdd á hollensku.
Bókin byggist á sjálfstæðum umræðueiningum. Hver kafli fjallar um afmarkaðan þátt þessara atburða og sýnir, óháð hinum þáttum, að bandarísk yfirvöld hafa með öllum tiltækum ráðum reynt að hylma yfir þá sem hafa skipulagt og framið fjöldamorðin. Hver eining fyrir sig myndar þannig sjálfstætt ásökunarskjal. Samanlagt mynda kaflarnir 16 að því er virðist óhagganlegt ásökunarskjal sem gæti orðið mjög erfitt að hrekja.
Bókin America´s Betrayal Confirmed sýnir fram á að opinbera kenningin um atburðarrásina stenst ekki og getur ekki staðist. Elías telur upp þau fjölmörgu atriði sem sanna að tilgáturnar sem mynda kenninguna standast enga prófun. Hann setur þessi fyrirbæri í samhengi við hegðun og viðbrögð Bandaríkjastjórnar sjálfrar við þessum atburðum. Og auðvitað felur þessi afsönnun opinberu kenningarinnar í sér rök, líkindi eða sannanir fyrir að þessir atburðir hefðu einfaldlega ekki getað gerst hefði fólk úr innsta kjarna bandaríska valdakerfisins ekki tekið þátt í þeim.
Atburðirnir 11. september í ljósi breyttrar heimsmyndar í kjölfar þeirra
Skoðum lítillega fyrsta kaflann, „The Road to 9/11 (the Decade 1990-2001)”. Það er vissulega erfitt að taka inn þann stóra skammt að hryðjuverkin 11. sept hafi verið „innanbúðarverk“ (inside job), að slíkur sögulegur stórviðburður hafi byggt á „skipulegri blekkingu“. En þá er þess að gæta að atburðurinn verður í röklegu samhengi og það er „system í galskaben“. Skoðum nokkur atriði.
„Ellefti september“ var startskot fyrir „hnattrænt stríð gegn hryðjuverkum“. Sjálf hugmyndin um þetta «hnattræna stríð» var og er hugmyndafræði og yfirskrift þess stríðs sem síðan hefur geisað, einkum í Austurlöndum nær. Öll hin afmörkuðu stríð Bandaríkjanna og bandamanna þeirra eftir 11. september – þau helstu í Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi sem hafa kostað á aðra milljón mannslífa og sent tugmilljónir á flótta – byggja á skipulegum og kerfisbundnum blekkingum og eru glæpur gegn mannkyni. Það væri ósamræmi ef hin einstöku stríð byggðu á blekkingum en forsendan og hugmyndafræðin á bak við þau byggði á einhverju öðru, t.d. raunverulegri ógn.