Monday, September 14, 2020

Merkileg bók um atburðina 11. september 2001 í samhengi

 (birtist á Neistum 11. sept 2020, meðhöfundur Jón Karl Stefánsson)


Í dag er árásin á Tvíburaturnana 19 ára. Nýlega kom út (á ensku, af íslensku forlagi) ný bók um atburðina sem áttu sér stað þann 11. september 2001. Þetta er gríðarlega vel unnin og beinskeytt bók sem nær að fanga marga mikilvægustu þættina um þetta málefni. Bókin America´s Betrayal Confirmed. 9/11: Purpose, Cover-up and Impunity, er sterk bók um stórmál. Elías Davíðsson er baráttumaður mannréttinda, hefur einnig mjög fjallað um náttúruverndarmál og lýðræði en öðru fremur hefur hann sem sérsvið málefni hryðjuverka (undir fölsku flaggi sérstaklega).

Elías hefur áður fjallað um málefni tengd 11. september 2001 í bók sinni «Hijacking America´s Mind on 9/11» (Algora Publishers, New York, 2013), þar sem hann sýndi fram á að bandarísk yfirvöld hafa ekki lagt fram neinar sannanir um veru hryðjuverkamanna í flugvélunum. Önnur bók hans, einnig á ensku, var umfangsmikil rannsókn á hryðjuverkunum í Mumbai (Indlandi) árið 2008. Bókin varð tilnefnd bók ársins af hálfu stofnunarinnar London Institute on South Asia árið 2018 og hefur verið þýdd á úrdú (landsmáli Pakistan). Auk þess gaf Elías út tvær bækur á þýsku, aðra um 11. september 2001 og hina um atburðinn á jólamarkaðinum í Berlín 2016, einu bókina sem hefur birst um þennan atburð. Sú bók hefur verið þýdd á tékknesku. Bókin sem hér er fjallað um, hefur verið þýdd á hollensku.

Bókin byggist á sjálfstæðum umræðueiningum. Hver kafli fjallar um afmarkaðan þátt þessara atburða og sýnir, óháð hinum þáttum, að bandarísk yfirvöld hafa með öllum tiltækum ráðum reynt að hylma yfir þá sem hafa skipulagt og framið fjöldamorðin. Hver eining fyrir sig myndar þannig sjálfstætt ásökunarskjal. Samanlagt mynda kaflarnir 16 að því er virðist óhagganlegt ásökunarskjal sem gæti orðið mjög erfitt að hrekja.

Bókin America´s Betrayal Confirmed sýnir fram á að opinbera kenningin um atburðarrásina stenst ekki og getur ekki staðist. Elías telur upp þau fjölmörgu atriði sem sanna að tilgáturnar sem mynda kenninguna standast enga prófun. Hann setur þessi fyrirbæri í samhengi við hegðun og viðbrögð Bandaríkjastjórnar sjálfrar við þessum atburðum. Og auðvitað felur þessi afsönnun opinberu kenningarinnar í sér rök, líkindi eða sannanir fyrir að þessir atburðir hefðu einfaldlega ekki getað gerst hefði fólk úr innsta kjarna bandaríska valdakerfisins ekki tekið þátt í þeim.


Atburðirnir 11. september í ljósi breyttrar heimsmyndar í kjölfar þeirra

Skoðum lítillega fyrsta kaflann, „The Road to 9/11 (the Decade 1990-2001)”. Það er vissulega erfitt að taka inn þann stóra skammt að hryðjuverkin 11. sept hafi verið „innanbúðarverk“ (inside job), að slíkur sögulegur stórviðburður hafi byggt á „skipulegri blekkingu“. En þá er þess að gæta að atburðurinn verður í röklegu samhengi og það er „system í galskaben“. Skoðum nokkur atriði.

„Ellefti september“ var startskot fyrir „hnattrænt stríð gegn hryðjuverkum“. Sjálf hugmyndin um þetta «hnattræna stríð» var og er hugmyndafræði og yfirskrift þess stríðs sem síðan hefur geisað, einkum í Austurlöndum nær. Öll hin afmörkuðu stríð Bandaríkjanna og bandamanna þeirra eftir 11. september – þau helstu í Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi sem hafa kostað á aðra milljón mannslífa og sent tugmilljónir á flótta – byggja á skipulegum og kerfisbundnum blekkingum og eru glæpur gegn mannkyni. Það væri ósamræmi ef hin einstöku stríð byggðu á blekkingum en forsendan og hugmyndafræðin á bak við þau byggði á einhverju öðru, t.d. raunverulegri ógn.

Monday, September 7, 2020

Danskar upplýsingar um netógnir

 

Fréttir RÚV 3. september greindu frá óundirbúnum fyrirspurnum til utanríkisráðherra á Alþingi. Þar kom fram: „Hneykslismál sem umlykur dönsku leyniþjónustuna snertir Íslendinga með beinum hætti sagði Smári McCarthy, þingmaður Pírata, og vísaði til þess að leyniþjónusta danska hersins veitti bandarísku leyniþjónustunni aðgang að ljósleiðurum. Sæstrengir sem tengja Ísland við umheiminn fara um danskt yfirráðasvæði... „Allir tölvupóstarnir, öll skjölin, allir fjarfundirnir, öll okkar fjarskipti fara um þessa þrjá sæstrengi,“ sagði Smári.“

Utanríkisráðherra taldi málið alvarlegt. Hann bætti við: „Ég ligg ekkert á þeirri skoðun minni að mér finnst við ekki vera nógu vakandi þegar kemur að þeim málaflokki,“ sagði Guðlaugur Þór. Hann sagði að Íslendingar væru eina ríkið innan Atlantshafsbandalagsins sem ekki tækju þátt í setri um netöryggismál í Tallinn og eina norræna ríkið sem ekki tæki þátt í sambærilegu setri í Helsinki.“ https://www.ruv.is/frett/2020/09/03/segir-danskt-njosnahneyksli-snerta-islendinga-beint?fbclid=IwAR1rSuFo4ZtutvtzBA7KCVPPOWpjFRRz6SlFmH2w_q2_inBsFw1zwPllgPE

Ekki er þetta þó eins og þruma úr heiðskýru lofti. Edward Snowden, starfsmaður Þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA, hóf árið 2013 að leka út til almennings (m.a. til Wikileaks og Julian Assange) upplýsingum frá NSA um mestu njósnir á okkar tímum, ekki síst netnjósnir. Afhjúpanir Snowdens sýndu að bandarískar leyniþjónustur og öryggisstofnanir ekki bara njósna um allan almenning í eigin landi og brjóta miskunnarlaust hina helgu stjórnarskrá lands síns heldur stunda þær víðtækar njósnir um helstu bandamenn USA, höfuðstöðvar ESB, sendiráð einstakra ríkja þess – og raunar heiminn allan.

Snowden-gögnin bentu ennfremur til að evrópskar leyniþjónustur hefðu starfað með NSA um njósnirnar í Evrópu. Der Spiegel upplýsti m.a. um slíka samvinnu þýskrar leyniþjónustu við þá bandarísku. https://www.theguardian.com/world/2013/jun/30/nsa-leaks-us-bugging-european-allies Og danska Information upplýsti árið 2014 út frá Snowden-gögnum um víðtækt samstarf dönsku Leyniþjónustu hersins með NSA sem fólst einmitt í því að veita NSA aðgang að dönskum ljósleiðurum. https://www.information.dk/tema/nsas-danske-forbindelse Allt voru þetta hin neyðarlegustu mál sem endurspegluðu vel valda- og virðingarröðina innan NATO og sagði margt um raunverulegt fullveldi Evrópuríkja.

Hneykslið var þó bersýnilega ekki svo mikið að það girti fyrir að umrætt samstarf við stóra bróður vestan hafs héldi áfram. Því allt sýnist vera við það sama enn í dag. https://www.dr.dk/nyheder/indland/samarbejde-med-usa-kan-overskride-reglerne-potentielt-en-af-de-stoerste

Viðbrögð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar við spurningum Smára McCarthy um íslenska hliða málsins ná ekki að sefa illan grun. Hann segir að við Íslendingar séum ekki „nógu vakandi þegar kemur að þeim málaflokki“, t.d. tækjum við ekki þátt í setri um netöryggismál í Tallin og öðru í Helsinki. Hann gefur m.ö.o. í skyn að við þyrftum að taka þar beinni þátt. Viðkomandi miðstöðvar eru NATO Cooperative Cyber Defence Centre of Excellence í Tallin og European Centre of Excellence for Countering Hybrid Threats í Helsinki (undir væng ESB og NATO).

Gallinn er sá að þessar NATO-tengdu stöðvar um netöryggi vernda okkur hreint ekki gegn netnjósnum Bandaríkjanna. Þær telja það ekki vera ógnir og eru sjálfar hluti af sama batteríi og NSA. Í febrúar sl. var Kveikur Ríkisútvarpsins með þátt um netógnir og falsfréttir. Sjá hér: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kveikur/29047/8l0e3k. Þar talaði Ingólfur Bjarni við sérfræðinginn Hanna Smith sem er einmitt yfirmaður hjá áðurnefndri stofnun gegn „blönduðum ógnum“ (hyber threats) í Helsinki. Þar kom eftirfarandi fram: „Rússar eru oftast nefndir á nafn í sambandi við tölvuárásir og upplýsingaóreiðu, og ekki að ástæðulausu... Kínverjar eru einnig nefndir í þessu sambandi, og í einhverjum tilfellum Íran.“ Þetta kemur ekkert á óvart. Þessi „setur um netöryggismál“ sem Guðlaugur þór vill að við tökum þátt í eru ekkert annað en framlægar stöðvar í hernaðinum við Rússa og í vaxandi mæli við Kína.

Fréttirnar frá Danmörku sýna rétt einu sinni að mesta ógn við netöryggi kemur frá BNA. Við vitum enn fremur að Bandaríkin láta ekki sitja við njósnirnar einar heldur eru verkin látin tala. Ekki bara eru þau mesti netnjósnari í heimi. Samkvæmt orðum Jimmy Carter í fyrra eru BNA einfaldlega „herskáasta þjóð í sögu heimsins“.

Til að enda greinina ekki á svartsýnum nótum ber að minnast á gleðilega frétt frá því fyrr í vikunni. Bandarískur dómstóll hefur úrskurðað að þær miklu persónunjósnir um bandaríska borgara sem Snowden afhjúpaði í sínum mikla leka hefðu verið ólöglegar. Í kjölfarið hefur fjölgað mjög tilmælum til Trumps forseta um að fá Edward Snowden náðaðan. Sjá hér: https://news.yahoo.com/u-court-mass-surveillance-program-033648290.html

Heimsvaldastefnan – með meginfókus á þá bandarísku. Seinni grein

 (birt á Neistum.is 13. ágúst 2020)


Fyrri grein um heimsvaldastefnuna fjallaði einkum um efnahagslegan grundvöll hennar en þessi hér um pólitísku og hernaðarlegu hliðina, baráttuna um áhrifasavæði – og heimsyfirráð. Greinin byggir á fyrirlestri hjá Sósíalistaflokknum 4. júlí sl.

Hernaðarlegt og efnahagslegt stríð

Auðmagnið, „frjálsa framtakið“ og markaðsöflin flæða ekki einfaldlega um löndin af sjálfsdáðum. Þau mæta m.a. mismiklu viðnámi frá þjóðríkjum og keppni frá keppinautum. Pulitzer-verðlaunahafinn Thomas Friedman skrifar reglulega pistla í NYT um hnattvæðingu og alþjóðamál, m.a. í pistli frá því um aldamót, svohljóðandi.

„Til að hnattvæðingin virki mega Bandaríkin ekki hika við að koma fram sem það allsráðandi risaveldi sem þau eru... Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem bjó til F-15 fyrir flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“ https://fair.org/media-beat-column/thomas-friedman/

Farvegir fjármagnsins (arðránsins) liggja frá jaðrinum og streyma til kjarnans samkvæmt eðli heimsvaldastefnunnar. Hernaðarleg yfirráð tryggja þessa farvegi og tryggja fjármagnsflæðið í rétta átt. Bandarískar herstöðvar í hundraðatali raðast um heiminn út frá þessu munstri.

Þegar kalda stríðinu lauk héldu ýmsir, jafnvel bandaríska þjóðin, að upp myndu renna friðsamlegir tímar og það myndi draga úr hernaðaruppbyggingu. En bandarísk utanríkisstefna og strategía er ekki ákveðin á þjóðþingi heldur af nokkrum hugveitum elítunnar sem þekkja raunveruleika heimsvaldastefnunnar álíka vel og Vladimir Iljits Lenín gerði. Í mars 1992, þegar Sovétríkin voru nýlega fallin og Persaflóastríðinu – fyrsta meiriháttar stríði Bandaríkjanna í Miðausturlöndum – var nýlokið settu þeir Dick Cheney varnarmálaráðherra og Paul Wolfowitz aðstoðarráðherra hans fram utanríkisstefnu í ljósi nýjustu stórtíðinda – oft nefnd Wolfowitz kenningin – stefnu sem Bandaríkin hafa staðfastlega fylgt síðan undir breytilegum stjórvöldum: „Fyrsta markmið okkar er að hindra að aftur komi upp nýr keppinautur, annað hvort á landssvæði fyrrum Sovétríkjanna eða annars staðar... að hindra sérhvert fjandsamlegt vald í því að drottna yfir svæði sem býr yfir auðlindum sem myndu, undir styrkri stjórn, nægja til að búa til hnattrænt vald.“ (Sjá NYT https://www.nytimes.com/1992/03/08/world/excerpts-from-pentagon-s-plan-prevent-the-re-emergence-of-a-new-rival.html ).

Seríustríðið í Austurlöndum nær sem í bandarískum hernaðarkreðsum er oft nefnt „stríðið langa“ hófst með Persaflóastríðinu u.þ.b. þegar Wolfowitz og Cheney skrifuðu ofanritað. Aðrir miða reyndar upphaf þess við 11. september 2001. „Stríðið langa“ snýst um tilraunir bandarískra heimsvaldasinna til að tryggja full yfirráð sín á efnahagslegu lykilsvæði sem Austurlönd nær eru. Í þeim tilgangi komu bandaríkin upp 125 herstöðvum í Austurlöndum nær á árabilinu 1983-2005. Mesta uppbyggingin var eftir að kalda stríðinu lauk. Til að tryggja full yfirráð þurfti að brjóta niður þvermóðskufull sjálfstæð ríki á svæðinu. „Stríðinu langa“ er stjórnað frá Bandaríkjunum með þátttöku svæðisbundinna bandamanna þeirra og NATO-ríkja. Mikilvægustu vígvellirnir hingað til eru Írak, Afganistan, Líbía og Sýrland.

Í ríkjandi orðræðu og fréttaflutningi á Vesturlöndum er „Stríðinu langa“ ýmist lýst sem „stríði gegn hryðjuverkum“, sem „borgarastríði“ eftir trúarbragðalínum eða sem „uppreisn gegn harðstjórn“ sem kalli á „verndarskyldu“ (responisbility to protect) svokallaðs „alþjóðasamfélags“ (sama sem Vestrið). Alvarlegast er að á 21. öldinni hefur heimsvaldasinnum og fjölmiðlum þeirra gengið furðuvel að selja stríð sín í þessum fallegu umbúðum. Andstaðan við stríðsreksturinn frá friðarhreyfingum Vesturlanda og hefðbundnum stríðsandstæðingum til vinstri hefur verið sáralítill. Og víst er að ef slík andstaða kemur fram byggir hún ekki á greiningu á heimsvaldastefnunni heldur á þeirri friðarhyggju að maður skuli ekki drepa mann.

Heimsvaldasinnum hefur almennt gengið illa í „stríðinu langa“ – en stjórnvöld í Washington sýna mikla staðfestu í því að koma óvinum sínum á kné. Bandaríska þingið hefur nýlega lögfest grimmúðlegar refsiaðgerðir gegn bæði Íran og Sýrlandi, lög sem setja útskúfun og sektir á öll fyrirtæki og öll lönd sem eiga viðskipti eða diplómatísk samskipti við þessi útlagaríki. Samskipti við þau þýða stríð við BNA. Viðskiptabannið beinist gegn almenningi þessara landa í von um pólitíska kreppu sem leiði til „valdaskipta“.

Efnahagslegt stríð er stríð með öðrum aðferðum. Hinar efnahagslegu refsiaðgerðir gegn Íran og Sýrlandi eru orðin hluti efnahagsstríði Bandaríkjanna við Kína og bandamann þeirra Rússland. Í tilfelli Kína er samt orsakasamahengið sagt vera öfugt: Ein helstu rökin fyrir refsiaðgerðum gegn Kína er sú ásökun Trump-stjórnarinnar að kínverski tæknirisinn Huawei hefði brotið bandaríska refsilögggjöf gegn Írönum (brotið bandaríska refsilöggjöf!) með því að selja þeim síma. https://neistar.is/greinar/stridid-gegn-syrlandi-efnahagsvopnunum-beitt/


Enduruppskipting eftir fall Sovétríkjanna

Þegar Lenín skrifaði Heimsvaldastefnuna 1915 gerði hann það m.a. til að skýra hreyfiöflin á bak við heimsstyrjöldina sem þá geysaði. Helstu drifkraftana bak við stríðið sá hann annars vegar í KAPÍTALÍSKRI GRÓÐASÓKN og úþensluhneigð sem af henni leiðir og hins vegar í ÓJAFNRI ÞRÓUN FRAMLEIÐSLUAFLANNA sem breytti styrkleikahlutföllum hagkerfa og skóp misræmi milli þeirra og þar með grundvöll stórstyrjalda. Heimsveldin ýmist sækja fram eða hopa á heimsmarkaði og m.t.t. áhrifasvæða – eftir styrkleika sínum. Þetta misræmi sprengir valdarammann sem fyrir er, knýr á um „enduruppskiptingu“. Lenín skrifaði: "Spuningin er: Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluaflanna og samsöfnunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendnanna og „áhrifasvæða“ fjármálaauðmagnsins hins vegar.“ ( Heimsvaldastefnan, bls. 130)

Heimsvaldastefnan – með meginfókus á þá bandarísku. Fyrri grein

 (birt á Neistum 6. ágúst 2020)

Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá glæpnum gegn mannkyni þegar bandarískri kjarnorkuspregju var varpað á Hírósíma. Glæpurinn var réttlættur með endalausum lygum og skipulegum stríðsáróðri. Sami stríðsáróður frá sama stríðsaðila beinir nú spjótum sínum skipulega að nýjum andstæðingi – Kína. Bandaríkin hafa komið fyrir yfir 400 herstöðvum umhverfis Kína auk gríðarlegrar og hraðvaxandi flotauppbyggingar á Kyrrahafssvæðinu. Samhliða þessari uppbyggingu hefur „stríðið langa“ í Austurlöndum nær geysað það sem af er 21 öldinni. Bandaríkin hafa (2019) einhliða sagt sig frá samningum um takmörkun kjarnorkuflauga (INF, frá 1987). Alls 30 aðildarlönd SÞ stynja nú undan bandarískum efnahagslegum refsiaðgerðum af einhverju tagi. Formlega snúast þær um „lýðræði“ en raunveruleikinn er keppnin um heimsyfirráð.

Hvað hreyfiöfl knýja slíka atburðarás? Í tveimur greinum verður hér fjallað um heimsvaldastefnuna, hæsta stig auðvaldsins – og beina þær ljósinu sérstaklega á þá bandarísku, samt alls ekki eingöngu. Fyrri greinin fjallar einkum um efnahagslega hlið málsins en sú síðari um pólitíska og hernaðarlega hlið. Hryggjarstykki greinarinnar er fyrirlestur sem fluttur var á fundi hjá Sósíalistaflokknum að Borgartúni 1, fjórða júlí sl.


Hugtak sem hvarf

Þegar Bandaríkin herjuðu í Víetnam og Indó-Kína kringum 1970 hrópuðu vinstri menn um allan heim vígorð gegn „heimsvaldastefnu Bandaríkjanna“. Árið 1970 var íslenska Víetnamhreyfingin stofnuð og lýsti yfir á stofnfundi: „Víetnamhreyfingin styður þjóðfrelsisbaráttu Víetnama og baráttu gegn heimsvaldastefnunni um allan heim.“ Árið 1972 breyttist hún í Víetnamnefndina með víðtæku samstarfi vinstri hreyfinga. Fyrsta kjörorð hennar var: „Fullur stuðningur við Þjóðfrelsishreyfinguna (FNL)!“ og annað kjörorð var „Berjumst gegn bandarísku heimsvaldastefnunni!“ Málið var stuðningur við „þjóðfrelsisbaráttu“ þjóða undan heimsvaldastefnu. Þetta var róttæk og framsækin hreyfing..

Á 9. áratug hélt stuðningsstarf við þjáðar þjóðir áfram en innihaldið breyttist. 1985 hófust „Life aid“ tónleikarnir með söfnunarstarfi vegna hungurs í Afríku. Þá fóru jafnvel róttæklingar á Vesturlöndum að syngja „We are the world.. so let´s start giving“ eða „Búum til betri heim, sameinumst hjálpum þeim, sem minna mega sín“. Andheimsvaldabaráttu var skipt út fyrir BORGARALEGT LÍKNARSTARFF sem minntist ekki á heimsvaldastefnuna.

Þegar Bandaríkin réðust á Írak 2003 með stuðningi „viljugra ríkja“, þ.á.m. Íslands, var andstaða vinstri manna mjög massíf, en hugtakinu „heimsvaldastefna“ var þá almennt sleppt. Þegar hins vegar NATO, vestrænir herir og staðbundnir bandamenn hafa ráðist á Afganistan, Líbíu eða Sýrland á 21. öldinni hafa vinstri menn vítt um heim veitt því litla mótstöðu, og vestræn friðarhreyfing sömuleiðis. Íslensk stjórnvöld hafa stutt þessi stríð alveg óháð því hvort ráðherrarnir eru til hægri eða vinstri.

Í inflytjendaumræðunni er sama borgaralega líknarhugsun ráðandi. Góðir og „líknsamir“ vinstri menn og andrasistar sjá nú helstu von fyrir íbúa Afríku í leyfi þeirra til að flýja til Evrópu.


Klassísk greining á heimsvaldastefnunni

Í sögulegu samhengi er áhrifamesta ritið um heimsvaldastefnuna bók Leníns frá 1917 (rituð 1915), Heimsvaldastefnan: hæsta stig auðvaldsins. Í apríl í vor voru 150 ár liðin frá fæðingu Leníns. Í þessari bók dró hann saman meginþætti heimsvaldastefnunnar/ imperíslismans í eftirfarandi skilgreiningu: „Imperíalisminn er kapítalismi á því þróunarstigi er drottinvald einokunar og fjármálavalds festir sig í sessi, þegar fjármagnsútflutningur hefur öðrast áberandi áhrif, þegar hafin er skipting heimsins milli alþjóðlegra hringa og lokið er skiptingu á öllum löndum jarðarinnar milli voldugustu auðvaldsríkjanna.“ (Heimsvaldastefnan... bls 117) Lenín nefndi heimsvaldastefnuna „einokunarstig auðvaldsins“ sem komin var í stað kapítalisma frjálsrar samkeppni. Annað grundvallareinkenni hennar var fjármagsútflutningurinn, erlendar fjárfestingar. Tilvitnun: „Vöruútflutningur var einkenni gamla auðvaldsins þegar frjáls samkeppni var alls ráðandi. Útflutningur fjármagns er orðið einkenni nútíma kapítalisma þar sem einokun drottnar“ (Heimsvaldastefnan.. bls. 79).

Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldssins.
Lenín 150 ára í ár. Höfundur klassísks rits um efnið.

Samkvæmt þessari greiningu var heimsvaldastefna/imperíalismi orðin ríkjandi formgerð kapítalismans um aldamótin 1900. Og samkvæmt þessum skilningi er heimsvaldastefnan í grundvallaratriðum EKKI HUGMYNDALEGS EÐA SIÐFERÐILEGS EÐLIS HELDUR ER HÚN SJÁLFT EFNAHAGSKEFI KAPÍTALISMANS á ákveðnu þróunarstigi, „it's way of life“. Og hún er skilgreind sem „HÆSTA STIG AUÐVALDSINS“ sbr. titil bókarinnar.

Þessi greining varð klassísk meðal marxista, og heimsvaldastefnan í þessari merkingu varð algert lykilhugtak í sósíalískri og andkapítalískri baráttu á 20. öld. Barátta gegn henni varð ANNAR AF TVEIMUR MEGINÞÁTTUM BYLTINGARSINNAÐS STARFS gegn kapítalismanum og fól öðru fremur í sér stuðning við baráttu í 3. heiminum til að losna úr arðránskerfi heimsvaldastefnunnar. Skýringarlíkan Leníns reyndist öðrum skýringum frjórra við að greina hreyfiöflin að baki heimsstyrjöldunum tveimur. Á eftirstríðsárunum og enn frekar frá og með sjöunda áratugnum var þessi klassíska greining á heimsvaldastefnunni í mikilli almennri notkun, á vinstri væng stjórnmála og ekki síður í „þriðja heiminum“ þar sem frelsisstríð og byltingar geysuðu og beindust gegn fjötrum nýlendutímans.