Friday, July 26, 2019

Herinn: út um framdyr, inn um bakdyr

(birt á Neistum.is 22 júlí 2019)
Samkvæmt útvarpsfréttum eru framundan framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurfluvelli auk ratsjárkerfis í fjórum landshornum, framkvæmdir fyrir 14 milljarða króna. Upphæðin jafngildir ca. 100 nýjum glæsivillum.
„Framkvæmdunum má skipta í tvo hluta. Annars vegar er uppfærsla á ratsjárkerfum NATO umhverfis landið og hins vegar viðhald og uppbygging á Keflavíkurflugvelli, bæði af hálfu NATO og bandaríska hersins... Bandaríski flugherinn ætar svo að útbúa aðstöðu til búsetu í einskonar gámaíbúðum fyrir meira en þúsund hermenn inni á varnarsvæðinu. Íbúðirnar rísa ekki strax heldur verður lagt skólpkerfi í jörðu, raflagnir og annað slíkt.“ Sjá nánar.

mikepompeooggudlaugur

                                 Utanríkisráðherra tekur á móti kollega sínum Pompeo í febrúar sl.

Þegar Mike Pompeo utanríkisráðherra kom í heimsókn til Íslands í vetur sagði hann að „Ísland verði ekki vanrækt lengur“ Sjá nánar.
Hann ræddi við Guðlaug Þór Þórðarson um viðbúnað á norðurslóðum og „hvert sé best að flytja hergögn og annað, til að tryggja öryggi á norðurslóðum“. En samkvæmt RÚV: „Guðlaugur Þór túlkar orð Pompeo um flutning hergagna ekki sem svo að Bandaríkjamenn séu að boða aukin hernaðarumsvif“ ...„Þannig að það er ekkert neitt annað í gangi en það sem er búið að vera í gangi á undanförnum árum“.
Friðardúfan Katrín Jakobsdóttir sagðist auk heldur hafa sagt við Pompeo að „mikilvægt sé að ekki verði hernaðarumsvif á norðurskauti“ og á Arctic Circle í fyrra sagðist hún vona að „Norðurslóðir verði vopnlaust svæði“ Sjá hér.
Katrín hefur hlutverk í samhenginu: að gefa uppbyggingunni hér mildilegt andlit. Sjá hér.

Hinar auglýstu framkvæmdir benda ekki til að allt sé bara í hefðbundnum skorðum á Miðnesheiði. Viðvera herliðs eykst jafnt og þétt. Kafbátaleitarsveitir Bandaríkjanna og NATO-ríkja dvelja nú reglulega á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þar bætist við á annað eða þriðja hundrað manns sem koma þrisvar á ári vegna „loftrýmiseftirlits“. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, spurði utanríkisráðherra í nóvember sl. um viðveru erlends herliðs á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli frá 2007-2017. Svarið var á þessa leið: „Á síðustu ellefu árum hefur viðvera erlends herliðs á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli verið mjög breytileg frá ári til árs, allt frá sautján dögum árið 2007 til þess að vera dagleg viðvera síðustu þrjú árin.“ Og fram kom í svarinu að fyrsta árið voru hermennirnir alls 17 en síðasta árið voru þeir 1220. Ekkert að breytast? Sjá hér svarið.

Herstövasamningurinn við BNA er enn í fullu gildi. Bandaríkin fluttu aðeins her sinn í bili af taktískum ástæðum. Í stefnumörkun núverandi ríkisstjórnar Íslands segir: „...grunnstoðir utanríkisstefnunnar eru samstarf vestrænna ríkja, evrópskt og norrænt samstarf, aðild að Sameinuðu þjóðunum og Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningurinn og friðar- og öryggissamstarf.“
Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, viðurkennir nýja og aukna hernaðaruppbyggingu Bandaríkjanna hér og í Norður-Atlantshafi, sem auðvitað stafar af hinni miklu ógnun frá Rússum:
„Þeir [Bandaríkjamenn] eru náttúrulega búnir að virkja aðra flotadeildina á nýjan leik og það er alveg augljóst að það verða hér meiri hernaðarumsvif. Það verður meiri fókus. Hernaðarumsvif Rússa og uppbygging er auðvitað mest hér, miklu meiri en uppbygging Bandaríkjamanna. Því miður þá er það þannig að hernaðarumsvif eru að aukast.“ Sjá nánar.

Það er reginlygi að Rússar leiði vígvæðinguna. Við höfum ekki gleymt Trident Juncture í haust: 10 herskip, 6000 sjóliðar, 400 bandarískir landgönguliðar á Íslandi, og héðan stukkur þeir yfir í mestu heræfingu í Skandinavíu eftir kalda stríðið: 50 þúsund hermenn, 8 þúsund stríðsökutæki og skriðdrekar, 70 herskip og 130 flugvélar bara í Noregi. Og ári áður var 20 þúsund manna NATO-æfing í Svíþjóð (hlutlaust land!). Bandaríski flotinn hefur í fyrsta sinn í sögunni fengið tvær fastar herstöðvar í Noregi. Norðurlönd liggja flöt sem stökkpallur fyrir Bandaríkin og NATO gegn Rússum. Uppbyggingin í Keflavík er liður í því. Þetta eru EKKI „STRÍÐSLEIKIR“ (uppáhaldsorð sumra hjá Samtökum hernaðarandstæðinga). Þetta er STRÍÐSÁRÓÐUR OG STRÍÐSUNDIRBÚNINGUR. NATO í vígahug – Trident Juncture á Íslandi og Noregi
Hver ógnar hverjum? Hver æfir stríð við landamæri hvers? Bandaríkin hafa yfir 800 herstöðvar erlendis. Rússar hafa eina flugherstöð og eina flotastöð í Sýrlandi, og þá er allt upptalið. Árið 2017 stóðu Rússar fyrir 3.8% af herútgjöldum heimsins, Bandaríkin 35%. Þegar hertólahlutföllin eru þannig er huggun að heyrða það og sjá að Pompeo og Pentagon ætla að „hætta að vanrækja Ísland“. Eða hvað, VG?

Tuesday, July 16, 2019

Friðarvonin í Miðausturlöndum

(birtist á Neistum 30. júní 2019)
                                         Íran ógnar Bandaríkjunum? Fánarnir sýna bandarískar herstöðvar umhverfis Íran


Valdahlutföll í heiminum eru að breytast. Írandeilan sýnir það skýrt. Bandaríkin sögðu sig einhliða frá kjarnorkusamningnum við Íran 2018 og settu viðskiptaþvinganirnar aftur á landið, enn harðari en fyrr. Síðan boðaði Pompeo Íran til samningaviðræðna, ekki bara um kjarnorkusamninginn heldur einnig um skotflaugaeign þeirra og mannréttindi o.fl., til að tryggja að Íranir myndu örugglega hafna boðinu. Íranir sáu ekki ástæðu til að svara. Frú Merkel sendi Maas utanríkisráðherra sinn til Teheran til að fá Írani að samningaborðinu með USA, en Íranir sendu Maas heim. (Merkel brást við með því að segja að „miklar líkur“ væru á að Íranir hefðu staðið að árásunum á olíuskipin á Omanflóa!). Trump tísti: „Það eina sem Íranir skilja er styrkur og máttur, sem bandaríski herinn hefur nóg af... Öllum árásum þeirra gegn Bandaríkjunum verður svarað af hörku og í einhverjum tilfellum með gjöreyðingu.“

Íran í herfræðilegri lykilstöðu

En Íranir hrökkva ekki undan slíkum hótunum og beygja sig ekki neitt. Þeir segjast geta lokað Hormuz-sundi samdægurs ef til átaka kemur – og margt bendir til að þeir séu einmitt færir um það. Sjá nánar Um sundið fer 40% af olíuútflutningi heimsins. Ef þessi olíustraumur verður stöðvaður fer efnahagskefi heimsins á hliðina. Hinn þekkti heimsmálagreinir Pepe Escobar á Asia Times Online segir að enginn sendi olíuskip inn á stríðsátakasvæði. Í greininni „Iran goes for “maximum counter-pressure”“ skrifar hann: „Jafnvel áður en neistarnir fara að fljúga gæti Íran lýst Persaflóa sem stríðssvæði, lýst yfir að Hormuzsund sé stríðssvæði; og bannað síðan alla fjandsamlega umferð á sínum helmingi sundsins. Án þess að hleypt væri af einu skoti mundi öll flutningaskipafélög á hnettinum hætta að senda olíuskip um Persaflóa.“ Meira um það hér.
Bandarísku stríðsherrarnir hafa átt upptök að allnokkrum styrjöldum í Austurlöndum nær frá 2001 (öllum þeim stærstu). En þeir hafa þar alltaf átt í höggi við miklu veikari andstæðinga en nú. Þeir hafa t.d. getað sent skotflaugar á skotmörk í Sýrlandi, Írak eða Afganistan án þess að reikna með gagnárás. Gagnvart Íran gildir það ekki lengur. Íran mun svara af fullum styrk, og trúlega fá aðstoð bandamanna sinna (Hizbolla, Sýrlands, Rússlands, Kína...). Sem sagt árás sem hefur afleiðingar fyrir árásaraaðilann. Þetta blasir við og þetta sjá bandamenn Bandaríkjanna í NATO, ESB og víðar. Það er auðséð að árás mun hafa gríðarlegar afleiðingar – svo það hillir undir þriðju heimsstyrjöldina. Í þessu samhengi er auðskilið að það er herstyrkur Írans sem helst tálmar árásarstríði, íhlutunum og valdaskiptaaðgerðum heimsvaldasinna í Austurlöndum nær. Það haggar ekki þeirri staðreynd þótt klerkaveldið í Íran sé ólýðræðislegt auðræði. Íranska byltingin hefur til þessa beinst gegn heimsvaldastefnunni.

„Andspyrnuöxullinn“ hefur styrkst

Annað er það sem hefur breyst á síðustu 5 árum. Sýrlandsher er kominn langt með að vinna stríð sitt gegn innrásarherjunum. Að lama og eyðileggja Sýrland (líkt og Líbíu) eða mögulega að sundurlima ríkið var í herstjórnarlist heimsvaldasinna hugsað sem nauðsynlegt skref í því að einangra og umkringja höfuðbandamann Sýrlands, Íran – sem aftur er liður í enn stærra heimsvaldatafli – og að brjóta um leið upp „andspyrnuöxulinn“ (Axis of Resistance) í Miðausturlöndum: Íran, Sýrland, líbanska Hizbolla. Af því að „leiðin til Teheran liggur gegnum Damaskus“. Sjá nánar
Þessi áform þóttu líta vænlega út framan af staðgengilsstríðinu gegn Sýrlandi (háð af broguðum her málaliða og jíhadískra vígamanna, vopnuðum og fjárhagsstuddum af USA, NATO, ESB, Sádum, Ísrael, Tyrkjum...). En frá 2015 hefur Sýrlandsher í samvinnu við meðbræður sína frá Íran og Hizbolla og með lofthernaðarðastoð frá Rússlandi snúið dæminu við og frelsað aftur meirihluta þess lands sem tapast hafði. Stríðið sem átti að slá út „andspyrnuöxulinn“ í Miðausturlöndum hefur orðið til að styrkja hann stórlega. Og síðustu misserin hefur Írak mikið til gengið til liðs við sama „andspyrnuöxul“. Þannig að markmið heimsvaldasinna að umkringja og grafa undan Íran hefur færst heldur fjær en hitt. Þess vegna má slá því föstu – þótt einhverjum friðarsinna sýnist það þversögn – að herstyrkur Sýrlands, hefur verið mikilvægasta aflið í því að hindra enn miklu stórfelldari átök í Miðausturlöndum. Sjá hér nánar um átökin í Austurlöndum nær í samhengi heimsvaldastefnunnar: Sjá hér

Vestrið klofið
Vestrið er nú klofið í afstöðu sinni til Írans. Mikilvægasta ástæða þess er áðurnefnt mat á hernaðarlegum styrk Írans, að hernaðaríhlutun gegn landinu sé afar áhættusöm og útkoman óviss. Við það bætist svo að bandamenn BNA (ekki síst í Evrópu) áttu þegar mikla viðskiptahagsmuni í Íran þegar BNA sagði sig einhliða frá kjarnorkusamningnum við Teheranstjórnina. Samanlögð útkoma þessara þátta er að þeim Trump og Pompeo gengur nú bölvanlega að safna í nýtt „bandalag viljugra“ gegn Írönum. Helsta von okkar hinna er þá sú að í stað einangrunar Írans komi vaxandi einangrun Bandaríkjanna. Gallinn er sá að þar í landi er það hernaðar-iðnaðarsamsteypan sem ræður ríkjum, „the military–industrial complex, USA“.

Ögrunaraðgerðir gegn Íran sýna alvöru Bandaríkjanna

(birtist á Neistum.is 20 júní 2019)

„Við höfum nú 5-10 ár til að hreinsa upp þessi gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna, Sýrland, Íran og Írak, áður en næsta risaveldi kemur og skorar okkur á hólm.“ Þetta sagði Paul Wolfowitz þá vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna (síðar varnarmálaráðherra) árið 1991 á fundi með Wesley Clark yfirhershöfðingja NATO. Sjá hér
Sprengjum var skotið á tvö olíuskip á Persaflóa 13. júní, japanskt og norskt, og bandarísk stjórnvöld (og bresk, Ísraelsk, Sádísk m.m.) segja Írana hafa verið að verki. Núverandi átök Bandaríkjanna og Írans birta okkur óvenjulega skýrt um hvað taflið snýst: Um svæðisbundin yfirráð, um hnattræn yfirráð. Það sama og árið 1991. En það ár voru Bandaríkin einmitt að máta sig í hlutverkið „Risaveldið eina“, og flest sýndist mögulegt. Þau eru enn í þessu hlutverki árið 2019. Nú eru tilþrifin hins vegar orðin mjög krampakennd. Eins og við skrifuðum í greininni. „Íran, Miðsvæðið og heimsvaldastefnan“: „Bandaríkin (og Vestrið) eru hnignandi efnahagsveldi sem tapa í efnahagsáhrifum og markaðshlutdeild ár frá ári. Viðbrögð þeirra við þessu verða stöðugt meira einhliða: að beita þeim yfirburðum sem þau hafa: hernaðarmætti og ofbeldi.“ Sjá grein. Ætlun Donald Trump er skýr: „Make America great again“.

 Að útnefna „óvini“ og slá þá niður

Þessa tæpu þrjá áratugi frá 1991 hefur ákveðin mantra verið grundvallaratriði í stjórnstöðvum bandarískrar utanríkisstefnu. Það er listi yfir ákveðin lönd, „öxulveldi hins illa“ eða einfaldlega „óvinaríki“, ríki sem þarf að ráðast gegn, veikja, grafa undan og kalla þar eftir „valdaskiptum“. Hvaða lönd eru á þessum lista? Það eru einfaldlega lönd sem talin eru of óháð vestrænu valdi og eru á hernaðarlega mikilvægum og auðlindaríkum svæðum. Listinn breytist af og til, t.d. ef „valdaskipti“ hafa tekist einhvers staðar og önnur „óvinalönd“ verða mikilvægari. Hann breytist lítt eða ekki þótt vald færist milli demókrata og repúblíkana. Árið 2001 var listinn opinberlega tengdur „hnattrænu stríði gegn hryðjuverkum“ og fyrst og fremst miðaður á hin olíuríku Austurlönd nær.
Íran hefur alla tíð verið ofarlega á listanum (nánar tiltekið frá byltingunni 1979) vegna olíuauðs og andstöðu við vestræna heimsvaldastefnu. En Íran er hlutfallslega sterkt og vel fært um að bíta frá sér. Þess vegna hefur það tafist að BNA og bandamenn legðu í beint stríð við landið. Ennfremur: Íran býður upp á freistandi viðskipti og fjárfestingar. Þess vegna gerist það nú að BNA virðist vera að einangrast í sinni herskáu afstöðu til Írans. Að Bandaríkin skuli samt skora Írana á hólm er ekki merki um að Íran hafi veikst eða Bandaríkin styrkst. Það er fyrst og fremst merki um vaxandi örvæntingu í Washington.

Heimsvaldatafl og ójöfn þróun

Kapítalísku efnahagskerfin, og þar með heimsveldin, þróast ójafnt og sækja fram eða hopa á heimsmarkaði samkvæmt styrkleika sínum. Það er lögmál. Þróun auðvaldsheimsins er enn sams konar og sama eðlis og um og upp úr 1900 þegar Þjóðverjar sigldu upp að og fram úr Bretum og Frökkum í iðnaði en vantaði Lebensraum (eins og Lenín lýsti í bókinni Heimsvaldastefnan). Útkoman úr því varð tvær heimsstyrjaldir. Nú fer líku fram þegar nýtt efnahagsveldi, kapítalískt Kína, þrammar fram á heimsmarkaðsvöllinn. Frá 2013 hefur Kína lýst yfir uppbyggingu „nýja Silkivegarins“ (BRI, Belt and Road Initiative), efnahagsbeltis með háhraðaflutningum á landi og líka á sjó auk vöru- og fjárfestingaflæðis sem samtengja skal Kína og Evrópu og allt svæðið þar á milli. BRI nær nú yfir nærri 70 lönd og 40% af þjóðarframleiðslu heimsins. Mike Pompeo utanríkisráðherra hefur sagt að Kína sé höfuðandstæðingur Bandaríkjanna og „geo-strategic threat“. Og Íran er lykilhlekkur í Silkiveginum. Sjá nánar
Bandaríkin urðu risaveldi í krafti öflugasta framleiðslukerfis heimsins. Nú hafa þau löngu staðnað sem iðnríki, þau hafa útvistað miklu af iðnaði sínum og hafa ekki lengur það framleiðslukerfi sem þarf til að „make America great“. Auk þess er olídollarakerfið að bresta. Í staðinn grípa Bandaríkin báðum höndum krampataki um sitt öflugasta vopn: hervald og ógnanir. Þau hafa langstærsta her heimsins og þau eyða trilljónum og aftur trilljónum dollara í stríð, valdarán, refsiaðgerðir og viðskiptastríð vítt um lönd og álfur. Bandaríkin eru gríðarlega ofbelsdissinnað heimsveldi og munu því ekki „stíga til hliðar“ með friðsemd. Því miður.

Fjandskapurinn við Íran er í alvöru

Í þessu ljósi verður að skoða atburðina á Persaflóa sl. 13. júní. Bandaríkin og nánustu fylgiríki skelltu óðara skuldinni á Írana. En það er of vitlaust til að það þurfi einu sinni að rannsaka það eða ræða sérstaklega. Fyrrverandi breski sendiherrann Craig Murray skrifar: „Ég reyni ekki að mæla dýpt þeirrar heimsku sem trúir því að Íran myndi ráðast á japanskt olíuflutningaskip samtímis því sem forsætisráðherra Japans sest niður, í óþökk Bandaríkjanna, til friðsamlegra samræðna um efnahagssamvinnu um það hvernig Íran megi komast í gegnum bandarískar refsiaðgerðir.“ Sjá hér
Bandaríkin byggja öll stríð sín á einhverri grundvallarlygi (og eru svo sem ekki ein um það). Æði oft þarf ögrunaraðgerðir, sviðssett hryðjuverk, stundum með hjálp staðgengla, til að koma stríðinu í gang. Tonkinflóa-atvikið 1964 var hryðjuverk undir fölsku flaggi og nýttist til fullrar innrásar í Víetnam, atburðirnir 11. september voru notaðir til að ráðast á Afganistan sem ekki tengdist þeim á nokkurn hátt, „gjöreyðingarvopn Saddams Hússein“ voru fölsk átylla notuð til að ráðast á Írak, „eiturefnaárásirnar“ notaðar til loftskeytaárása á Sýrland o.s.frv. Og sagan endurtekur sig enn.
Bandaríkin segja sig frá kjarnorkusamningnum við Íran og hefja nýjar og harðari refsiaðgerðir gegn landinu (og gegn þeim sem skipta við Íran), eins þótt það gangi gegn augljósum hagsmunum bandamannanna þeirra (ESB m.m.). Bandaríkin neita að draga sig út úr Sýrlandi þó að íslamistar séu þar sigraðir (enda var stríð BNA við ISIS yfirskin). Allt þetta sýnir alvöruna í fjandskap Bandaríkjanna við Íran, að þau veðji ennþá á stríðstrompið í þeirri von að stríð, stríðshótanir, efnahagslegar refsiaðgerðir og alþjóðleg áróðursherferð geti sáð sundrungu í Íran og veikt landið nægjanlega til að koma á hinum eftirsóttu „valdaskiptum“. Hin sviðsettu hryðjuverk í Persaflóa fyrir skemmstu eru enn ein vísbendingin um þessa miklu alvöru. Þess vegna: Búum okkur undir að þurfa að taka afstöðu til fleiri ögrunaraðgerða þar sem reynt verður að koma sök á Íran. Spurningin verður bara hvort heimsvaldasinnum og áróðursmaskínu þeirra takist að draga nógu marga „viljuga“ bandamenn með sér í hina komandi krossferð.