Thursday, August 30, 2018

Hvert stefnir í Sýrlandi?

(birt á Neistum 29. ágúst 2018)
                                                          Raqqa Sýrlandi
Hvernig stendur Sýrlandsstríðið? Síðan í vor hefur borið minna á því í íslenskum fréttum en áður. Í apríl sl. gerðu Bandaríkin og Bretar og Frakkar flugskeytaárásir á Damaskus – með stuðningi allra NATO-ríkja, þ.á.m. stuðningi/skilningi ríkisstjórnar Íslands. Flugskeytaárásin skóp hættu á stórfelldri stigmögnun stríðsins. Hún var sögð vera „refsiaðgerð“ vegna „eiturvopnaárásar“ Sýrlandshers í Douma, úthverfi Damaskusborgar. Sendinefnd frá Alþjóðaefnavopnastofnunni (OPCW) var komin til Damaskus að rannsaka málið en ekki mátti samt bíða eftir niðurstöðum.
Í byrjun júlí sl. sendi OPCW frá sér skýrslu um rannsóknina og kvaðst ekki hafa fundið merki um beitingu taugagass („No nerve agents“) í Douma og ekki séð merki um bönnuð vopn („No chemicals relevant to CWC [Chemical Weapons Convention] have been found“). Vestrænar fréttastofur töluðu mjög lágt um þennan rapport og forðuðust að draga af honum augljósar ályktanir, nefnilega að flugskeytaárásin hafi verið gerð á upplognum forsendum (og íslenskar fréttastofur þögðu alveg). Verra en það, vestrænar fréttastofur og stjórnvöld halda áfram að tala um „efnaárásina“ í Douma sem staðreynd.

Út frá öllum almennum stöðlum er Sýrlandsstríðið tapað stríð fyrir vestræna heimsvaldasinna og bandamenn þeirra. Sýrlandsher hefur undanfarin þrjú ár, með aðstoð Rússa o.fl., náð frumkvæðinu í stríðinu og smám saman frelsað þau svæði landsins sem „uppreisnarmenn“ höfðu náð. Það þýðir samt ekki að heimsvaldasinnar horfist í augu við þann ósigur. Þrjú svæði landsins hafa lögleg stjórnvöld Sýrlands enn ekki endurheimt:
  1. Idlib-hérað. Þangað hafa safnast íslamískir vígahópar frá þeirri „uppreisn“ sem um tíma reif landið í tætlur. Nú er Idlib eina svæðið undir stjórn þeirra afla. Og Sýrlandsher hefur hafið aðgerðir sínar til að frelsa Idlib. Það er þó ljóst að það verða veruleg átök af því til héraðsins hafa safnast margbreytilegir og mikið vopnaðir hópar vígamanna. Öflugasti hópurinn er Al-Kaída útibúið Jabhat al-Nusra sem nú kallar sig Hayat Tahrir al-Sham. Að fenginni reynslu (m.a. frá Aleppo og Douma) vitum við að vestræna pressan mun lýsa átökunum við þá sem „slátrun á saklausum borgurum“. Nú gerist þrennt í senn sem bendir til væntanlegra tíðinda: a) Bandaríkjaher byggir upp flotastyrk sinn á austanverðu Miðjarðarhafi og siglir þar inn skipum sem fær eru um flugskeytaárásir á Sýrland. b) Bandaríkin, Bretar og Frakkar gáfu fyrir viku út sameiginlega yfirlýsingu um að þau muni ráðast á Sýrland noti Assad efnavopn. Það jafngildir boði til hryðjuverkamanna um að sviðsetja efnavopnaárás. c) Samtímis gáfu Rússar út aðvörun um að þeir sjái merki þess að Tahrir al-Sham i Idlibhéraði undirbúi sviðsetta efnavopnaárás. Hefðbundin flétta. Sbr. þessa Newsweek-frétt.
    -
  2. Afrin hérað sem Tyrkir hafa hertekið af sveitum Kúrda, YPG, í kjölfar innrásar í janúar sl., með stuðningi nokkurra hópa sýrlenskra vígamanna, einkum Frelsishers Sýrlands, FSA. Innrás Tyrkja leiddi af sér ákveðna samvinnu milli sveita Kúrda og Sýrlandshers í Afrin, en sá síðarnefndi hefur þó kosið að láta ekki sverfa verulega til stáls við Tyrki.
    -
  3. Stærsta og alvarlegasta hernám á sýrlensku landi er nú í Norðaustur-Sýrlandi, austan Efratfljóts. Þar hefur US-Army full hernaðarleg yfirráð, það er bandarískt hernám. Það flækir hins vegar málið mjög að hernámsaðilinn hefur fengið til liðs við sig mikilvægan bandamann á svæðinu, kúrdnesku aðskilaðarhreyfinguna PYD og hersveitir henni tengdar, YPG og SDF, sem US-Army vopnar og verndar úr lofti. Á hluta svæðisins, Hasaka, hefur PYD lýst yfir kúrdnesku sjálfsstjórnarsvæði. Í Hasaka býr samt þjóðernablanda og Kúrdar eru ekki í meirihluta. Bandalag hernámsaflanna (undir forustu BNA) við aðskilnaðar-Kúrda í PYD veldur miklum árekstrum við Tyrki, en augljóslega hefur það orðið Bandaríkjamönnum símikilvægara eftir því sem bandalag þeirra við vopnaða íslamista hefur trosnað í takt við minnkandi hernaðargengi þeirra. Það má ljóst vera að bandarísk hermálayfirvöld veðja gríðarlega á kúrneska trompið. Vopnaaðstoðin er gríðarleg, bandarískar sérsveitir hafa um árabil verið innblandaðar í kúrdnesku herina og hernaður YPG og SDF sem heild er undir yfirstjórn bandaríska CENTCOM (herstjórn Miðsvæðisins sem nær yfir Miðausturlönd og Miðasíu. Gjaldið sem PYD er tilbúið að greiða fyrir „sjálfstæðið“ er varanleg hernaðaryfirráð US-Army í landi þeirra. Heimildir um þetta eru t.d. rækilega skráðar í þessari Wikipediagrein. Donald Trump hefur hins vegar alloft nefnt að Bandaríkin ætli að draga sig út úr Sýrlandsstríði: „We'll be coming out of Syria like very soon. Let the other people take care of it now.“ Hvaða „other people“ á hann við? Sennilega einkum Sáda og Persaflóaríki. Sendinefnd frá Sádum, Sameinuðu furstadæmunum o.fl. munu hafa hitt fulltrúa frá YPG í sumar til að ræða slíka þáttöku. Ekki er þó líklegt að nein arabaríki muni beinlínis „taka við keflinu“ af BNA. Nýlega endurtók Mattis varnarmálaráðherra þá gömlu yfirlýsingu að BNA myndu ekki yfirgefa Sýrland fyrr en Assad forseti væri farinn frá.
Ekkert bendir til að US ætli sér að gefa Sýrland eftir. Enda snýst stríðið um meira en Sýrland eitt. Sýrlandsstríðið – eins og allt „langa stríðið“ í Miðausturlöndum frá 2001 – snýst um yfirráðin í Miðausturlöndum. Það sýnist nú fjarlægur draumur að heimsvaldasinnar nái markmiðinu um valdaskipti og vestrænt sinnaða stjórn í Sýrlandi. En „plan B“ er varanleg sundurlimun landsins og það er sú stefna sem fylgt er í Pentagon, NATO og hjáríkjum BNA nú um stundir.