(birtist á neistar.is 18. júní 2018)
Brynjólfur Bjarnason dró lærdóma af áratauga baráttu
Ris og hnig í
stéttabaráttunni
Ef litið er til baráttu íslensks verkalýðs og alþýðu blasir
við að sú barátta á sér langa stígandi og ris en líka hnig sem nú hefur staðið
lengi. Það unnust mikilvægir sigrar á 20. öldinni, stig af stigi, í
kjarabaráttu alþýðu, réttindabaráttu, húsnæðismálum... Í harðvítugum verkföllum
og átökum jókst líka stéttarvitund og samstaða meðal launþega.
Verkalýðshreyfingin var pólitísk lengi vel, andfasísk, krafan um sósíalisma
stóð sterkt og launþegasamtök beittu sér m.a. mjög gegn bandarískri hersetu og
inngöngunni í NATO.
Þegar kom fram yfir 1970 varð ljóst að veður höfðu skipast í
lofti. Frá þeim tíma hefur ASÍ naumast staðið fyrir einu einasta verkfalli síns
fólks. Verkalýðshreyfingin hætti að nefna sósíalisma. Hún fór að miða kröfur
sína við „greiðslugetu atvinnuveganna“. Svokallaðir verkalýðsflokkar gengust
inn á að tryggja íslenskri eignastétt „ásættanlega arðsemi“ ef þeir kæmust í
ríkisstjórn, en verkalýðshreyfingin sjálf batt starf sitt við krónupólitík og
hætti afskiptum af stjórnmálum.
Spurningin sem hlýtur að vakna er þessi: Hvenær og hvernig urðu
slík umskipti?
Frá verkalýðsflokki
til kosningaflokks
Brynjólfur Bjarnason, helsti „strategisti“ íslenskra
byltingarsinna og róttæklinga á síðustu öld segir í viðtali upp úr 1970: „Ég tel alveg tvímælalaust að mikil hnignun
hafi orðið í íslenskri verkalýðshreyfingu og stjórnmálasamtökum hennar...
einkum eftir miðja öldina.“ (Með storminn
í fangið III, 133). Þegar hann lítur til baka í samtalsbók þeirra Einars
Ólafssonar staldrar hann mjög við tímann upp úr 1960, þegar
Sósíalistaflokkurinn var lagður niður í áföngum og þegar Alþýðubandalagið – stofnað
1956 sem kosningabandalag ólíkra hópa um „brýnustu nauðsynjamál“ – var í hans
stað smám saman gert að stjórnmálaflokki. Margir „frjálslyndir vinstri menn“ og
aðrir hópar í því bandalagi leituðu fast eftir að gera það að flokki og brátt
urðu flokksbatteríin tvö, einn verkalýðs- og stéttabaráttuflokkur en annar
kosningaflokkur. Allt ríkjandi stjórnmálalíf landsins beindi höfuðathygli fólks
að kosningaflokknum og svo fór að nýi flokkurinn át þann gamla. Samruninn var endanlega
fullnustaður 1968.
Brynjólfur segir í samtalsbókinni: „Ég hefði aldrei trúað
því að flokkur sem átti sér jafn glæsilega fortíð og Sósíalistaflokkurinn myndi
ekki hafa styrk til þess að koma heill út úr þeirri samfylkingu sem við
stofnuðum til á sjötta áratugnum... Það voru því geysimikil vonbrigði fyrir mig
þegar ég sá að svo reyndist ekki.“ Spurður um það í hverju hnignun flokksins
hafi legið svaraði Brynjólfur: „Sósíalistaflokkurinn var ekki heilsteyptur
flokkur lengur. Þeir innviðir hans voru nú brostnir sem höfðu gert hann sterkan
og sigursælan.“ (Brynjólfur Bjarnason.
Pólitísk ævisaga. 1989, 131). Hann hafði oft talað um ónóga skólun og einingu
um grundvallaratriði sósíalismans: „heildarstefnan og hin langsýnni markmið eru
ekki nægilega ljós“ (57).
Umskiptin frá Sósíalistaflokki til Alþýðubandalags urðu
mikil. Sósíalistaflokkurinn, eins og Kommúnistaflokkurinn áður, var mikið til
vaxinn upp úr verkalýðsstéttinni. Hann hafði miklu sterkari stöðu innan
verkalýðshreyfingarinnar en Alþýðuflokkurinn, og sú verkalýðshreyfing var
skipuleg og virk. Sósíalistaflokkurinn var stéttabaráttuflokkur. Hann var
framan af agaður flokkur og hugmyndalega samstæður á marxískum grundvelli.
Alþýðubandalagið var hins vegar sundurleitur klíkuflokkur, reikull og
hentistefnusinnaður í hugmyndalegum efnum. Alþýðubandalagið byggði afl sitt
ekki á starfinu í verkalýðshreyfingunni eins og fyrirrennarinn. Við það
veiktist verkalýshreyfingin og þar með aflið á bak við flokkinn. Starf hans
snérist fyrst og fremst um þingpallabröltið og ýmis pólitísk hrossakaup þar.
Árið 1962
Ég leyfi mér að tiltaka eitt ár sem vendipunkt, þó auðvitað
sé um langt þróunarferli að ræða. Árið er 1962. Það voru tímar andstreymis og
umbreytinga fyrir sósíalista á heimsvísu. Þetta var einmitt ár Kúbudeilunnar og
kalda stríðið svo kalt að það var næstum heitt.