„Byltingarnar eru eimreiðar mannkynssögunnar.“ (Karl Marx, „Stéttabaráttan í Frakklandi 1848-50“, Úrvalsrit, 93) Októberbyltingin spratt upp úr heimsstyrjöldinni fyrri, hún var afsprengi þess hvernig rússnesk stéttabarátta brást við heimsstyrjöldinni og þeirri pólitísku kreppu sem hún olli. Byltingarnar voru nánar tiltekið tvær. Sú fyrri, Febrúarbyltingin sk., var mikið til sjálfsprottin, ekki skipulögð af neinum stjórnmálaöflum. Það var borgaraleg lýðræðisbylting gegn ríkjandi valdstétt, rússneska aðlinum, en sérstæð að því leyti að hún var fyrst og fremst drifin áfram af verkalýð bæjanna og verkfallsbaráttu hans, einkum í Petrógrad, og síðan af uppreisnum í hernum – en að litlu leyti af borgarastéttinni. Þegar keisarinn afsalaði sér völdum fór síðan af stað uppskipting aðalsjarða, þ.e. bylting jarðlausra bænda gegn landeigendaaðlinum.
Seinni byltingin, Októberbyltingin, var verkalýðsbylting, framkvæmd einkum af verkamannaráðunum (sovétunum) í Petrógrad, Moskvu og miklu víðar sem spruttu fram í framhaldi af Febrúarbyltingunni. Öfugt við Febrúarbyltinguna var Októberbyltingin í hæsta máta skipulögð – afurð markviss pólitísks starfs. Það sem mestu réði um stefnu og rás atburðanna frá febrúar til október (raunar mars – nóvember) var þróun meðal verkalýðsins og innan hinnar ungu sósíalísku hreyfingar landsins, og alveg sérstaklega var afgerandi þáttur róttækasta hluta hennar – bolsjevíkaflokksins sem leiddi verkamannaráðin til valdatöku og byltingar þann 7. nóvember (25. október á rússnesku dagatali þess tíma).
Valdatakan var fyrirfram boðuð undir þremur meginslagaorðum: Friður! Jarðnæði! Brauð! Á næstu mánuðum voru þessi slagorð sett í framkvæmd – þannig: 1. Hinar stóru landeiginr aðalsins voru teknar eignarnámi og skipt milli þeirra sem erjuðu landið. 2. Saminn var friður við Miðveldin í Brest-Litovsk í mars 1918. Það aflétti ógnarlegum þjáningum af landsmönnum, þó að friðarskilmálarnir væru Rússum erfiðir. Friðurinn var forsenda fyrir framkvæmd síðasta slagorðsins – 3. Rússneski herinn, sem að stærstum hluta var bændaher, gat farið heim og framleitt brauð.
Byltingarstjórnin gat ekki komið í veg fyrir að fyrri valdstéttir, aðall og auðstétt, hæfu borgarastríð árið 1918 sem stóð fram á árið 1922. Þær fengu til liðs við sig 14 kapítalísk ríki sem lögðu þeim til herafla. Rauði herinn hafði þó sigur. Borgarastríðið hafði afgerandi áhrif á stjórnarfar verkalýðsríkisins og átti sinn þátt í að það þróaðist yfir í flokksræði Bolsévíkaflokksins. Það flokksræði var samt stéttbundið eins og pólitísk völd jafnan eru, og sótti vald sitt og stuðning fyrst og fremst til verkalýðsstéttarinnar, lengi vel.