(birtist á Fésbók SHA 3. mars 2018)
Annars vegar svör Samgöngustofu og hins vegar Samgöngu- og Utanríkisráðuneyta við spurningum um vopnaflutninga hafa verið skóli í undanbrögðum. Til að útskýra af hverju leyfi voru gefin til flutninganna allt þar til í vetur og nú í kringum gerð Kveiks-þáttarins segir Þórólfur Árnason: „..allt hafði verið gert samkvæmt reglum, samkvæmt heimildum og það [ráðuneytið] hafði ekki ástæðu til að grípa inn í – fyrr en núna að þeim finnst með átakasvæðum nálægt Sádi-Arabíu þá beri Utanríkisráðuneytinu að hafna þessum undanþágum.“ Þegar hann var spurður hvort ekki hefði verið ástæða til að rannsaka nánar um áfangastaði vopnafarmanna í ljósi undirritaðra þjóðréttarlegra sáttmála um slíkt sagði hann að það væri „ráðuneytisins að koma breyttum áherslum til skila.“ Ennfremur sagði hann „Utanríkisráðuneytið og samgönguráðuneytið hafa vitað af þessari starfsemi Atlanta.“
Samgönguráðuneyti hins vegar kannast ekki við að hafa fengið beiðni um vafasaman flutning flugrekenda og síðan skrifar samskiptastjóri Samgöngustofu að „ráðuneytunum [hafi] ekki verið gerð sérstök grein fyrir umsóknum einstakra flugrekenda með formlegum hætti“. Báðir aðilar vísa þannig frá sér ábyrgð og benda á hinn.
Nú. Það er gott og mikilvægt að SHA ákæri Atlanta. En Atlanta þurfti í hvert sinn að fá heimild frá íslenskum stjórnvöldum fyrir vopnaflutningi. Þetta voru „a.m.k. 25 skipti“ og leyfið var alltaf veitt þar til í vetur (þar til „í haust“ sagði Þórólfur en þá var það táragasið til Venezúela). Þótt Sádi-Arabía sé ekki skilgreint átakasvæði vissi íslenska Utanríkisráðuneytið vel um þátt Sádi-Arabíu í Jemen-stríðinu og væntanlega einnig um stuðning Sáda við vopnaða andstöðu í Sýrlandi. Endanleg ábyrgð í málinu hlýtur að liggja hjá utanríkisráðuneyti og ríkisstjórn. Því tel ég eðlilegt að ákæra íslensk stjórnvöld fyrir annað hvort fulla viðurkenningu á þessari tegund vopnaverslunar eða a.m.k. vítavert sinnuleysi í málinu.
No comments:
Post a Comment