Monday, April 30, 2018

Að hafna olíudollarnum getur kostað innrás

(birtist á fésbók SHA 30. apríl 2018)


Í olíukreppunni snemma á 8. áratug gerðu BNA samning við Sádi-Arabíu. Þau skyldu kaupa olíu sína af Sádum og sjá þeim í staðinn fyrir vopnum (og brátt herstöðvum). Sádar skyldu nota stöðu sína í OPEC til að halda olíuverði niðri og tryggja að öll olía skyldi keypt GEGN DOLLURUM. Olíudollara sína skyldu Sádar (og OPEC-lönd) binda í Bandaríkjunum með kaupum á bandarískum ríkisskuldabréfum. Auk þess: lönd sem kaupa olíu þyrftu þar með að skaffa sér dollara svo að dollarinn varð ríkjandi gjaldmiðill heimsviðskipta. BNA gátu nú safnað skuldum og Alríkisbankinn gat prentað endalaust af dollar án þess að gengi hans félli, vitandi að alltaf er eftirspurn fyrir hendi, og gat þannig fjármagnað ævintýralegan ríkisfjárhallann. Olíudollarinn er hornsteinn undir hnattrænni valdastöðu Bandaríkjanna. Ríki sem hóta að hundsa olíudollarakerfið eru ekki tekin silkihönskum (m.a. Írak, Líbía og reyndar Sýrland). Enda: ef olíudollarakerfið hrynur er hætt við að skuldasprengja BNA springi. Hlustið á grátt gaman Lee Camp:

Rússar mæta í Hag með Douma-vitni

(birtist á Fésbók SHA 27. apríl 2018)


Rússar mæta í Hag með slatta af vitnum frá Douma. Með nokkur af fórnarlömbum umræddrar klórgas-árásar (vitni sem eru á hinum heimsfrægu fréttamyndum) og lækna og starfsfólk af þessari bráðavakt sem er sú eina í Douma. Þeir vitna um að á bráðavaktina hafi hafi komið fólk í andnauð og jafnvel með reykeitrun vegna brennandi húsa og sprengjuryks í nágrenninu. Síðan hafi Hvíthjálmar skyndilega mætt á svæðið og skapað panikk með ópum um eturvopnaárás og tekið myndir og sprautað vatni á fólk. Enginn hafi hins vegar sýnt merki um gaseitrun þann dag. Þetta er t.d. í samræmi við það sem Robet Fisk skrifaði í Independent en hann var fyrsti vestræni blaðamaður til að gefa rapport frá vettvangi.
"Fréttamyndir" Hvíthjálma nægðu hins vegar fyrir BNA, Breta og Frakka til árásar. Hana þurfti „nauðsynlega“ að gera ca. sólarhring áður en OPCW-rannsóknarnefndin komst inn á svæðið til að sannreyna merki um eiturgas. Íslenska ríkisstjórnin sýndi árásinni „skilning“ af því það er „nauðsynlegt að bregðast við“ en skv. Stoltenberg  NATO-leiðtoga var hún „studd“ af öllum NATO-ríkjum, Íslandi líka. Já, áður en vettvangur var rannsakaður.
Þetta tekur sig illa út fyrir íslensku ríkisstjórnina, ef sannanir skipta yfir höfuð máli. En þær gera það líklega ekki. Í meginstraumsfjölmiðlum gildir að „taka sviðið“ á fyrsta degi og koma tilætlaðri frétt út. Ef hún einhvern tíma í framtíðinni verður borin til baka verður það ekki gert með neinum lúðrablæstri. Árangri náð.

Eins er með Skripal-málið. Við tökum þátt í refsiaðgerðum NATO-ríkja gegn Rússum af því það er „nauðsynlegt að bregðast við“. Jafnvel þó Boris Johnson sé staðinn að lygum um að sérfræðingar Porton Down hefðu „sannað“ uppruna eitursins. Jafnvel þó engar sannanir séu bornar fram. Ekki þarf sannanir af því nú krefst NATO þess að allir standi saman. Ísland hafnar ekki slíkum kröfum. Og Skripal-málið var líka nauðsynlegur undanfari loftskeytaárásar.

Sviðssetningar og vestræna bræðralagið

(birtist á Neistar.is 7. apríl 2018)
                                                                     Sergei Skripal


Þessi grein var send á Vísir.is fyrir 10 dögum en ekki birt. Það sem síðan hefur einkum gerst er að breski utanríkisráðherrann, Boris Johnson, er staðinn að ósannsögli. Hann hafði fullyrt að vísindamenn á tilraunaverksmiðjunni í Porton Down hefðu sagt „afdráttarlaust“ að eitrið væri framleitt í Rússlandi. Vísndamenn Porton Down vildu hins vegar ekki staðfesta þetta og sögðust ekki geta fullyrt neitt um framleiðslustaðinn. En skortur á sönnunum hefur ekki breytt samstöðu „vestræna bræðralagsins“. Hér kemur þá greinin.

I. Tvíburaturnarnir féllu 11. sept 2001 og NATO hóf stríð sitt í Afganistan þremur vikum síðar. Afgerandi fundur var haldinn í Norður-Atlantshafsráðinu í Brussel 2. okt. Þar var mættur Frank Taylor sendiherra frá bandaríska State Department. Hann lagði fram skýrslu með kynningu sönnunargagna um atburðina 11. september. Utanríkisráðherrar NATO fengu sama dag skýrsluna kynnta munnlega, hver í sinni höfuðborg. Henni var svo haldið leyndri í 7 ár en leyndinni var aflétt 2008 þegjandi og hljóðalaust. Prófessor Niels Harrit við Kaupmannahafnarháskóla hefur gert grein fyrir innihaldi hennar. Á grundvelli skýrslunnar lýsti Robertson lávarður, aðalritari NATO yfir 2. október: „Á grundvelli þessarar sönnunar-kynningar hefur það verið staðfest að árásinni á Bandaríkin 11. september var stjórnað utanlands frá og verður hún því skoðuð sem aðgerð sem 5. grein Washington-sáttmálans tekur til, þar sem segir að hernaðarárás á einn eða fleiri bandamenn í Evrópu eða Norður-Ameríku sé skoðuð sem árás á þá alla.“ En í skýrslu Taylors er bara ekki neitt sem sýnir fram á tengsl afganskra stjórnvalda við árásirnar 11. september. Kjarnaatriðið – sem fjallaði um þau tengsl – kom orðrétt fram í yfirlýsingunni sem Robertson lávarður gaf út 2. október. Svohljóðandi: „Staðreyndiranr eru skýrar og óyggjandi. Við vitum að einstaklingarnir sem framkvæmdu þessar árásir voru hluti af alheims-hryðjuverkaneti Al Kaída sem stjórnað er af Osama bin Laden og liðsforingjum hans og verndað af Talíbanastjórninni.“ Engar frekari sannanir. Bara einföld fullyrðing, komin frá CIA og Pentagon. En stjórnvöld í samanlögðum NATO-ríkjum spurðu einskis frekar um sannanir, heldur „stóðu með sínum bandamönnum“. Engar sannanir hafa síðar komið fram sem tengja Afganistan á neinn hátt við 11. september, en stríð NATO gegn landinu hefur staðið síðan. www.globalresearch.ca/the-mysterious-frank-taylor-report-the-911-document-that-launched-us-natos-war-on-terrorism-in-the-middle-east/5632874

II. Átyllan til að ráðast á Írak var sviðssett. Við þekkjum hana. Skýrsluna sem sem Colin Powell varnarmálaráðherra gaf Öryggsiráðinu 30. janúar 2003. Hún var byggt á „gögnum“ sem starfsmenn í ráðuneyti Tony Blairs klipptu og límdu saman af samfélagsmiðlum – um gjöreyðingarvopn Saddams Hussein. Skýrsla Powells var flutt undir mikilli stríðshljómkviðu vestrænnar pressu. Mótmælin gegn þessu stríði voru reyndar svo gríðarleg að nokkur NATO-ríki heltust úr lestinni og NATO gat ekki staðið formlega að innrásinni, lét nægja að gerast aðili að hernáminu á eftir. Og nógu margir NATO-ráðherrar, bandalag viljugra, létu þessar „sannanir“ nægja og „stóðu með sínum bandamönnum“. Árás Vestursins á Miðausturlönd var hafin.

III. Sviðssetningin í Líbíu tókst „betur“. Vestrænar fréttastofur þróuðu þá tækni að búa til stríðsæsifréttir. Sagðar voru skáldaðar fréttir um fjöldamorð og fyrirhuguð fjöldamorð Gaddafís á þegnum sínum ásamt skálduðum fréttum af spontan uppreisn þegnanna. Það nægði ráðherrum NATO og þeir ákváðu einróma að hefja lofthernað gegn Líbíu. Þeir spurðu ekki um frekari sannanir, og landið er í tætlum síðan.

IV. Stríðið gegn Sýrlandi er aðallega þríþætt: með þungvopnuðum leiguherjum fjölþjóðlegra íslamista, með viðskiptabanni/diplómatískri útskúfun og með háþróaðri og samhangandi sviðssetningu vestrænnar pressu, leikstýrðri leiksýningu sem ber yfirskriftina „uppreisn gegn ógnarstjórn“. Sýningin er afar vel auglýst og kaflar úr henni hafa fengið Óskarasverðlaunin. Þetta virðist þó ekki duga til að koma á hinum tilætluðu „valdaskiptum“. Þess vegna getur maður enn átt von á skelfilegum sviðssetningum frá óvinum Sýrlands.

V. Sviðssetningin í Salisbury virðist vera illa valin og illa leikstýrð, æpandi órökræn og ótrúverðug í alla staði. Hefði gamli njósnarinn Skripal verið mjög hættulegur Rússum hefðu þeir ekki sleppt honum í fangaskiptum. Ef þeir vildu eitra fyrir hann var auðveldara að gera það meðan hann var í fangelsinu heima. Fyrirfram var í gangi mikil herferð á Vesturlöndum til að gera skrímsli úr Pútín og einangra Rússa. Afskaplega er ólíklegt að Rússar kysu að auka á þá einangrun með diplómatískum skandala, allra síst í aðdraganda HM. Nú, fróðir menn segja að Bretar geti vel framleitt eiturefnið novitjok, í tilraunaverksmiðju hersins við Salisbury, Porton Down. Og Pentagon er á kafi í efnavopnaprógrömmum þeirrar verksmiðju. Ekkert hefur verið lagt fram sem líkist sönnun á þátttöku Rússa í atburðinum. Enda sagði Theresa May aldrei að umrætt taugagas væri rússneskt, aðeins „af tegund sem þróuð var í Rússlandi“. Rússar eru krafðir skýringa en þegar þeir stinga upp á sameiginlegri rannsókn er því hafnað. En Guðlaugur Þór og aðrir utanríkisráðherrar NATO spyrja bara ekkert um sannanir. Hann og þeir hinir segjast bara „standa með sínum bandamönnum“ (og engar athugasemdir heyrast frá VG heldur).

Ef þessi leiksýnig selur – eftir allan lygabálkinn sem einkenndi upphaf fyrri árásarstríða – er komið upp stórhættulegt pólitískt ástand. Ég hef þó vissa von um að almenningur kaupi sig ekki inn á þessa síðustu sýningu.