Sunday, September 6, 2015

Flóttamannasprengjan – á ekki að ræða orsakirnar?

(birtist í Fréttablaðinu 5. sept 2015)

Evrópa fær nú smjörþef af flóttamannavandanum. Fjölmiðlarnir ræða einkum hvernig stöðva megi strauminn, snúa honum við eða hvernig dreifa megi hælisleitendum um álfuna. Forðast hins vegar að tala um ORSAKIRNAR. Oft er gefið í skyn að þetta séu einkum efnahagslegir flóttamenn í leit að betri lífskjörum. Rangt. Langflestir flóttamenn nútímans flýja STRÍÐSÁSTAND. Skýrsla Flóttamannastofnunar SÞ um flóttamannastrauminn til Evrópu hefst svo: „Mikill meirihluti þeirra 130 þúsunda sem komu yfir Miðjarðarhaf til Evrópu sex fyrstu mánuði ársins 2015 flýja stríð, átök og ofsóknir.“ 

– SÝRLAND er stærsta uppspretta flóttamanna á heimsvísu með 4 milljóir flóttamanna, og 7 milljónir á flótta innan landsins sjálfs. Ástæðan? Jú, stríðið sem geysað hefur í landinu frá 2011, stríð Vesturveldanna og helstu bandamanna þeirra í Miðausturlöndum gegn Sýrlandi. Áður en það hófst var einfaldlega enginn flóttamannastraumur frá Sýrlandi. Stríðið hófst 2011 jafnhliða lokakafla Líbíustríðsins. Eins og í Líbíu hefur uppreisnin í Sýrlandi frá upphafi verið mönnuð af harðlínu-jíhadistum en studd, fjármögnuð og vopnuð af Vesturlöndum með bandamönnum, Persaflóaríkjunum, Tyrklandi... Staðgengilsstríð. Árið 2012 viðurkenndu USA og ESB bandalag uppreisnarhópa sem réttmætan fulltrúa sýrlensku þjóðarinnar og beita  sér fyrir „valdaskiptum“ í landinu. Sú afstaða var studd bæði af Össuri Skarphéðinssyni og Gunnari Braga Sveinssyni. Þetta er sem sagt okkar stríð. 

Siðferðissjónarmið í Úkraínudeilunni

(birt á fésbókarsíðu SHA 14. ágúst)
Úkraínudeilan og alveg sérstaklega viðskiptastríðið gegn Rússum hafa bandarískt vörumerki. Hagsmunir Evrópuríkjanna eru þar allt aðrir en USA. ESB og Rússland eru einna mikilvægustu viðskiptaaðilar hvors annars en Rússland er lítilvægur viðskiptaaðili USA. Þvert á móti telur USA sig hafa hag af ef ESB-lönd hætta t.d. að kaupa jarðgas af Rússum. Enda sagði Joe Biden um þvinganirnar: "Það er satt, þau vildu ekki gera þetta, en aftur voru það bandarísk stjórnvöld og forseti Bandaríkjanna sem krafaðist þess, og nokkrum sinnum urðum við að láta Evrópu skammast sín (we had to embarrass Europe) til að fá þau til að standa upp og taka á sig efnahagsleg högg til að valda [Rússum] kostnaði." RÚV hefur margtuggið undanfarið að val Íslands stæði milli viðskiptahagsmuna og siðferðissjónarmiða. Siðferðissjónarmiðin eru þau að beygja sig undir vilja bandamannsins með valdið, beygja því dýpra sem hagsmunafórnin er meiri. Sjá hér bút úr ræðu Bidens.