Sunday, March 4, 2018

Hnattræn hersjórnarlist og gagnbylting

(birtist á vefritinu Neistum.is 5. febrúar 2018)

Þýddur er hér hluti af stærri grein eftir John Bellamy Foster úr marxíska tímaritinu Monthly Review, 3. hefti 2017, „Revolution and Counterrevolution, 1917–2017“. Þennan kafla um herstjórnarlist heimsvaldasinna og gagnbyltingar undangengin 100 ár er skynsamlegt að lesa í framhaldi bókar Leníns, Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldsins. Þýðandi
Það var heimsvaldastefnan – ekki í hefðbundnu merkingunni sem spannar alla sögu nýlendustefnunnar [ætti þá frekar að skrifast „heimsveldisstefna“ Þ.H.] heldur tengd einokunarstsigi kapítalismans, eins og V.I. Lenín notaði hugtakið – sem myndaði differentia specifica eða ákvarðandi sérkenni kapítalisma 20. aldarinnar og ákvarðaði þar með skilyrði jafnt byltingar sem gagnbyltingar. Strax á seinni hluta 19. aldar hafði keppnin um nýlendurnar – sem hafði að miklu leyti mótað átökin innan Evrópu allt frá 17. öld – breyst í baráttu nýs eðlis: baráttu á milli ríkja ásamt auðhringum þeirra, ekki fyrir ákveðnum heimsveldissvæðum heldur fyrir hnattrænum yfirráðum í sífellt samþættaðra heimsvaldakerfi.1 Síðan þá hafa bylting og gagnbylting verið samtengdar í kerfinu sem heild. Allar byltingaröldur eftir það – oftast sprottnar upp á jaðarsvæðum þar sem kúgunin er harkalegust, magnaðar af arðráni heimsveldanna – hafa verið byltingar gegn heimsvaldastefnunni og hafa átt í höggi við heimsvaldasinnaða gagnbyltingu, skipulagða af kjarnríkjum heimskapítalismans.2 Það flækti þessa stöðu enn frekar að forréttindageiri verkalýðsstéttarinnar í þróuðum auðvaldsríkjum sýndist þéna óbeint á arðinum sem fenginn var frá jaðarsvæðunum og myndaði „verkalýðsaðal“, fyrirbæri sem Friedrich Engels benti á og seinna var skilgreint fræðilega af Lenín í Heimsvaldastefnunni, hæsta stigi auðvaldsins.3
En það sem kalla má sígild hnattræn stjórnmál [geopolitics] kom ekki fram á sjónarsviðið fyrr á millistríðsárunum og stríðsárunum síðari. Leiðandi kennigasmiður í Bretlandi var Halford Mackinder, fyrrum skólastjóri London School of Economics og í tóf ár þingmaður fyrir Glasgow. Í bókinni Democratic Ideals and Reality(1919) ritaði hann: „Hinar miklu styrjaldir sögunnar eru bein eða óbein niðurstaða af ójafnri þróun landa.“ Verkefni kapítalískra hnattrænna stjórnmála væri að örva „vöxt heimsvelda“ sem myndi enda með „einu heimsveldi“.4 Mackinder varð frægur fyrir kenningu sína um Kjarnalandið: Yfirráð yfir því sem hann kallaði „ Heims-eyjuna“ (hin samföstu meginlönd Evrópu, Asíu og Afríku) og gegnum það yfirráð í öllum heiminum gætu að hans sögn aðeins fengist með því að ráða yfir Kjarnalandinu – hinum miklu löndum Evrasíu sem ná yfir Evrópu, Rússland og Mið-Asíu. Kjarnalandið var „mesta náttúrulega virki á Jörðu“, vegna óaðgengileika að sjó.5 Á hinni nýju öld Evrasíu yrðu völd yfir landi – ekki völd yfir sjó – úrslitaatriði. Eins og Mackinder orðaði það: „Sá sem ræður Austur-Evrópu ræður yfir Kjarnalandinu: Sá sem ræður Kjarnalandinu ræður yfir Heimseyjunni: Sá sem ræður Heimseyjunni ræður yfir heiminum.“
Hnattræn herstjórnalist Mackinders var undir áhrifum frá rússnesku byltingunni og var notuð til að réttlæta heimsvaldasinnaða gagnbyltingu. Árið 1919 útnefndi breska ríkisstjórnin hann yfirstjórnanada í Suður-Rússlandi og fól honum að styðja Denikin og Hvíta herinn í borgarastríðinu. Eftir sigur Rauða hersins á Denikin snéri Mackinder til London og tilkynnti ríkisstjórninni að þótt Bretland mætti með réttu óttast þýska iðnvæðingu og hernaðarstefnu þá væri þýsk hernaðaruppbygging – sem var hindruð af Versalasamningunum – grundvallaratriði. Að mati Mackinders var Þýskaland aðalvörnin gegn yfirráðum Bolsévíka í Austur-Evrópu og um leið gegn völdum þeirra í Kjarnalandinu.6 Mackinder var ekki eini áhrifamaður millistríðsáranna sem hélt slíkum viðhorfum fram. Það var sama rökfærsla sem fékk ríkisstjórn Neville Chamberlain til að leggjast á eitt með Hitlers-Þýskalandi – fremur en til að „friða“ það – í von um að Þýskaland snéri byssum sínum í austur, að Sovétríkjunum.
[Hér er litlum kafla sleppt, þar sem fjallað er um Karl Haushofer (1869-1946), leiðandi hnattpólitískan hugsuð Þjóðverja og einnig um bandaríska strategistann Nicholas Spykeman sem ólíkt Mackinder lagði meira upp úr gildi þess að ráða heimshöfunum. En bæta má því við að í grein frá 1943, “The Round World and the Winning of the Peace”, víkkaði Mackinder út sjónarhornið á „Kjarnalandið“ með því að innlima Bandaríkin í það og gera Bretland að „herflugvelli“ Bandaríkjanna.]
Árið 1943 undirstrikaði Mackinder þá hnattrænu hagsmuni sem í húfi voru fyrir Bandaríska heimsveldið þegar hann lýsti yfir í Foreign Affairs að „landsvæði Sovétríkjanna jafngildir Kjarnalandinu“ og að ekki mætti leyfa þeim að halda völdum á því. 7 Upphaflegri hnattrænni herstjórnalist Bandaríkjanna sem tekin var upp á árum seinna stríðs var ætlað að þenja yfirráð Bandaríkjanna út yfir það sem hugveitan Council of Foreign Relations kallaði stórsvæði hinna bresku og bandarísku heimsvelda, yfir í það að ná yfir meginland Evrópu, Miðausturlönd og jaðarlönd Asíu.8 Í hinni andkommúnísku krossför átti að berjast gegn byltingum um allan hnöttinn, en sérstaklega á þessum þýðingarmiklu svæðum. Ekki aðeins Council of Foreign Relations heldur röð valdapólitískra hugsuða kaldastríðsins og eftir-kaldastríðsins eins og James Burnham, Eugene Rostow, Henry Kissinger, Zbigniew Brzezinski, og Paul Wolfowitz færðu fram rök sín á líkan hátt.9 Bandaríkin settu sér að lokum að drottna yfir ríkjum og svæðum um allan heim og eins að stjórna herfræðilega mikilvægum auðlindum, fjármagnsflutningum, gjaldmiðlum og heimsverslun. En heimsvaldametnaður Bandaríkjanna varð þó ekki allur ljós fyrr en á tímabili hinna nöktu heimsvaldastefnu sem fylgdi falli Sovétríkjanna.10
Skýrasta opinbera stefnuyfirlýsing þessa nýja metnaðar var „Leiðarvísir um varnarmálaáætlun fyrir 1994-99“ (Defence Planning Guidance, glefsum úr honum var lekið til New York Times 1992) saminn undir eftirliti Wolfowitz sem var aðstoðar-varnarmálaráðherra. Þetta varð þekkt sem Wolfowitz-kenningin sem almennt er tengd uppgangi nýhægrimennskunnar. Hún var hugsuð sem bein viðbrögð við brotthvarfi Sovétríkjanna af sviðinu og lýsti því berum orðum að nýtt markmið bandarískrar hnattrænnar herstjórnarlistar væri að hindra uppkomu nokkurs keppinautar sem gæti ógnað yfirburðum Bandaríkjanna – þ.e.a.s. stefna á einpóla heim til frambúðar. „Rússland“ sagði leiðarvísirinn „verður áfram sterkasta hernaðarveldið í Evrasíu og eina veldið með getu til að tortíma Bandaríkjunum.“11 Rússland hélt því áfram að vera helsta langtíma-skotmarkið.
Eins og Brzezinski, þjóðaröryggisráðgjafi Carters, skrifaði 1997 í The Grand Chessboard, „Bandaríkin... njóta nú alþjóðlegra yfirburða með veldi sitt dreift á þrjá útjaðra hins evrasíska meginlands – Vestur-Evrópu, hluta Austur-Evrópu, Miðasíu og Miðausturlönd og svo Austur-Asíu og Kyrrahafsjaðarinn. Markmiðið, hélt hann fram, var að skapa „yfirráð af nýrri tegund“ eða „hnattræna yfirburði“, að marka Bandaríkjunum varanlega stöðu sem „fyrsta og eina raunverulega hnattræna veldið“.12
Í þeirri Nýju heimsskipan (New World Order) sem þá var í augsýn höfðu Bandaríkin einpóla vald, styrkt af kjarnorkuyfirbuðrum. Valdaskipti í ríkjum af millistærð sem talin voru valdapólitískt mikilvæg en stóðu utan bandaríska yfirráðasvæðisins – jafnvel þau sem látin voru í friði í samhengi Kalda stríðsins – urðu nú áríðandi. Markmiðið var ekki að skapa stöðug lýðræðisríki – sem aldrei var talið vænlegt markmið á herfræðilegum lykilsvæðum eins og Miðausturlöndum heldur frekar að ryðja úr vegi „þorpararíkjum“ og óundirgefnum ríkjablokkum, sérstaklega á útjaðri evrasíska Kjarnalandsins og í hinum olíuríka Persaflóa sem gæti ógnað örygginu og hindrað útþenslu bandaríska veldisins. Gjaldið fyrir þessa miklu herstjórnarlist eyðileggingar er augljósast nú um stundir í vexti Íslamska ríkisins.
Meginherstjórnarlist Bandaríska heimsveldisins á eftir-sovét tímanum sem lögð var fram í „Leiðarvísi um varnarmálaáætlun“ hafði sem grunnforsendu að fjandskapur við nú kapítalískt Rússland myndi endurnýjast, þegar sú þjóð óhjákvæmilega myndi ná sér aftur. Í ljósi þess þöndu bandaríski drottnarinn og NATO-bandamenn hans sig lengra inn í Evrasíu og nálæg svæði og lögðust í hernað á Balkanskaga, Mið-Asíu, Miðausturlöndum og Norður-Afríku, þrengjandi snöruna um Rússland á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er frá 1992.13 Sama meginherstjórnarlist fól í sér undirokun allra afla og hreyfinga gegn kerfinu á valdapólitískum lykilsvæðum á jaðrinum, sem og tilraunir til að þrengja að Kína hernaðarlega og pólitískt.
Í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001 í Bandaríkjunum íklæddist hin Nýja heimsskipan sem fyrst var boðuð af George H.W. Bush í viðbót hugmyndafræðilegri kápu „Stríðs gegn hryðjuverkum“ sem boðað var af George W. Bush. Það réttlætti herstjórnarlist samfellds stríðs og „mannúðarinnrása“ hvar sem var á jaðarsvæðum heims. Í viðleitninni að ná fullum yfirráðum í Miðausturlöndum í kjölfar Íraksstríðsins 2003 útnefndu Bandaríkin og NATO Íran og – sérstakleg eftir innrásina í Líbíu 2011 – Sýrland sem helstu stuðningsaðila hryðjuverka, nokkuð sem gerði valdaskipti þar að forgangsmáli. En raunverulegar ástæður fyrir valdaskiptastefnu í Miðausturlöndum, eins og Wolfowitz gaf í skyn við Wesley Clark yfirhershöfðingja snemma á 10. áratug, voru hreint hnattpólitískar.14
Obamastjórnin ásamt NATO-bandamönnum hafði milligöngu um valdaránið í Úkraínu 2014 og kom til valda þægri öfgahægri ríkisstjórn undir forustu vestrænt-sinnaðs ólígarka og lýsti þar með í skýru máli yfir Nýja kalda stríðinu gegn Rússlandi. Það endurspeglaði herferð sem verið hafði í farvatninu a.m.k. frá því 2007 þegar Vladimir Pútín lýsti því ögrandi yfir að „stjórnlist einpóla líkansins [með algeru bandarísku hnattrænu ægivaldi] er ekki aðeins óásættanleg heldur ómöguleg í heimi samtímans.“15Hin langa gagnbylting gegn Sovétríkjunum var þannig framlengd yfir í hnattpólitíska baráttu sem stefnt var gegn upprisnu, nú kapítalísku, Rússlandi. Rússland sló til baka: með innlimun Krímskaga (áður hluta Úkraínu) eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, og reyndi þannig að koma jafnvægi á ástandið í Austur-Úkraínu nærri rússnesku landamærunum, sérstaklega m.t.t. rússneska þjóðarbrotsins; og með íhlutun í Sýrland sem svar við bandarísk-sádísku staðgengilsstríði gegn Assad-stjórninni – og tókst þannig að hindra helsta bandamanni Rússa í Miðausturlöndum væri steypt af stóli.
Þó merkilegt megi virðast gaf nýja Trump-stjórnin, sem er fulltrúi fyrir nokkuð annan hluta bandarísku auðstéttarinnar – sem tengist einkum jarðefnaeldsneytis-iðnaði og fjármálageiranum og byggir fylgi sitt mjög á ofurþjóðernislegri hugmyndafræði lægri milli stéttar – í fyrstu merki um hnattpólitíska stefnubreytingu í átt að slökunarstefnu gagnvart Rússum. Þessu átti að fylgja meiri áhersla á baráttu gegn Íslamska ríkinu, Norður-Kóreu og Kína sem helstu andstæðingum – viðhorf tengt „átökum milli siðmenninga“, stjórnlistarhugsun Samuel P. Huntingtons en ekki hinni evrasísku Kjarnalands-hugsun Wolfowitz og Brzezinskis.16 Nýja stjórnin gerði lýðum ljóst að Kína, með sinn hraða hagvöxt og vaxandi svæðisbundin völd væri aðalógnin við yfirráð Bandaríkjanna (og bandarísk störf) og væri þess vegna höfuðandstæðingurinn í herstjórnarlist þeirra.
Þrátt fyrir það hefur ráðandi hluti af bandarísku her-iðnaðar-samstæðunni (military-industrial complex), frá Pentagon til leyniþjónustunnar og til „öryggisverktakanna“, staðið staðfastlega gegn brotthvarfi frá stefnunni um Rússa sem höfuðandstæðing – allt yfir í það að dylgja um landráð Trumpstjórnarinnar vegna undirbúningsviðræðna við rússneska embættismenn, viðræður sem túlkaðar eru sem samvinna við óvininn. Síðan hafa stjórnvöld orðið fyrir fordæmalausum fjölda leka innan úr þjóðaröryggisstofnunum og hafa sætt rannsókn vegna samskipta við Rússa í kosningabaráttunni og aðdraganda stjórnarskiptanna. Fyrir ráðandi hluta bandarísku valdastéttarinnar er það enn grundvallaratriði að Rússland, sem þekur evrasíska Kjarnalandið og er enn aðalkeppinautur á sviði kjarnavopna, sé ennþá höfuðandstæðingur í bandarískri herstjórnarlist. Stöðugleiki NATO og öll sú bandaríska herstjórnarlist að halda Evrópu sér undirgefinni til frambúðar er grundvölluð á Nýja kalda stríðinu við Rússland.
Fyrir valdastétt Bandaríkjanna eru styrkleiki bandaríska hagkerfisins, yfirráð dollarans og þar með fjármálavald Bandaríkjanna álitin vera komin undir hnattrænum yfirburðum Bandaríkjanna. Þó að landsframleiðsla Bandaríkjanna og annarra kjarnaríkja kapítalismans hafi staðnað og þó að halli á Vestrið gegn örum vexti Kína þá hefur þessi æ órökrænni hnattræna herstjórnarlist frá Washington ennþá einpóla heim sem sitt viðmið. Því skal ná með langri röð herfræðilegra yfirburða eins og sameinuðu vægi Bandaríkjanna, Kanada, Evrópu og Japans undir bandarískri forustu, hnattpólitískum yfirburðum, hernaðarlegu og tæknilegu valdi og fjármálayfirburðum með hjálp dollarans.
[Niður er felldur lítill kafli um hvernig Bandaríkin treysta á yfirburði sína á sviði kjarnavopna og á „dauða MAD“, hinnar gagnkvæmu gjöreyðingar, sem sagt sú hugmynd að aftur sé hægt að vinna kjarnorkustríð í fyrsta höggi.]
„Grundvallareinkenni heimsvaldastefnunnar“, skrifaði Lenín, „er samkeppni milli nokkurra stórvelda sem berjast um yfirráðin“.17Slíkar hættur margfaldast með tímanum þegar eitt auðvaldsríki, eins og í tilfelli Bandaríkjanna á 21. öld, reynir að skapa einpóla heim eða heimsskipan ofurheimsveldis.
Á seinni hluta 20. aldar sönnuðu Bandaríkin sig sem skaðlegasta ríki heims sem drap milljónir í styrjöldum, innrásum og gagnuppreisnum um heim allan.18
Þessi blóðuga arfleifð heldur áfram inn í samtímann: Um eina helgi, 3.-5. september 2016 slepptu Bandaríkin sprengjum eða skutu eldflaugum á sex múslimalönd, Afganistan, Írak, Líbíu, Sómalíu, Sýrland og Jemen. Árið 2015 slepptu þau 22.000 sprengjum á Írak og Sýrland ein.19 Ekkert land sem snýst gegn Bandaríkjunum hefur efni á að vanmeta umfang þess ofbeldis sem það getur orðið fyrir af hendi þessa ríkis.
Þórarinn Hjartarson þýddi.

1  Þetta viðhorf greinir sig frá flestum heimskerfa-kenningum sem líta á yfirráð Hollendinga, Breta og Bandaríkjamanna á ólíkum tímum innan efnahagskerfa heimsins sem sams konar í eðli sínu og afneita sérleika kapítalisma á einokunarstigi.
2  Um sögu byltingaraldna á jaðarsvæðum frá á 9 áratug sjá L. S. Stavrianos, Global Rift: The third world Comes of Age (New York: Morrow, 1981).
3  Frederick Engels, The Condition of the Working Class in England (Oxford: Oxford University Press, 1993), 324; V. I. Lenin, Imperialism, the Highest State of Capitalism (Moscow: Progress Publishers, 1939),13–14, 106–08. Um flutning byltingarinnar til þriðja heimsins og áhrif þess á marxísk fræði sjá Paul M. Sweezy, Modern Capitalism and Other Essays (New York: Monthly Review Press, 1972), 147–65.
4  Halford Mackinder, Democratic Ideals and Reality (New York: Holt, 1919), 1–2.
5  Halford Mackinder, “The Round World and the Winning of the Peace,” Foreign Affairs 21, no. 4 (1943): 601.
6  Brian W. Blouet, Halford Mackinder (College Station, TX: Texas A&M University Press, 1987), 172–77.
7  Halford Mackinder, “The Round World and the Winning of the Peace,” 598.
8  Noam Chomsky, “The Cold War and the Superpowers,” Monthly Review 33, no. 6 (November 1981): 1–10; Gabriel Kolko, The Politics of War (New York: Random House, 1968).
9  See John Bellamy Foster, “The New Geopolitics of Empire,” Monthly Review 57, no. 8 (January 2006): 9–14.
10  John Bellamy Foster, Naked Imperialism (New York: Monthly Review Press, 2006).
11  See Foster, “The New Geopolitics of Empire,” 9–12; Diana Johnstone, “Doomsday Postponed?” in Paul H. Johnstone, From MAD to Madness: Inside Pentagon Nuclear War Planning (Atlanta, GA: Clarity, 2017), 275–77.
12  Zbigniew Brzezinski, The Grand Chessboard: American Primacy and Its Geostrategic Imperatives (New York: Basic, 1997), 3, 10, 30–39.
13  Richard N. Haass, “The New Thirty Years War,” Project Syndicate, July 21, 2014, http://project-syndicate.org.
14  General Wesley K. Clark, Don’t Wait for the Next War (New York: PublicAffairs, 2014), 37–40.
15  Putin quoted in Johnstone, “Doomsday Postponed?” 277.
16  Samuel P. Huntington, The Clash of Civilizations (New York: Simon and Schuster, 2011).
17  Lenin, Imperialism, 91. (sjá ísl. útgáfu bls 120)
18  Um dauðsföll af bandarískum hernaði á jaðarsvæðum, sérstaklega almennra borgara, sjá John Tirman, The Deaths of Others: The Fate of Civilians in America’s Wars (Oxford: Oxford University Press, 2011), 316–36. Um sögu bandarískra hernaðaríhlutana frá 1945 og út 9. áratug, sjá Gabriel Kolko, Confronting the Third World (New York: Pantheon, 1988).
19  Hluti þessarar efnisgreinar er sótt til “Notes from the Editors,” Monthly Review 68, no. 6 (November 2016).

No comments:

Post a Comment