Monday, October 23, 2017

Hverflyndi og þagnarbindindi VG í Evrópumálum

(birtist á Neistar.is 21. okt 2017)

Umræða um ESB er algjörlega fjarverandi í kosningaefni Vinstri grænna. Hins vegar: „Alls segj­ast 51 pró­sent stuðn­ings­manna Vinstri grænna vera fylgj­andi því að ganga í Evr­ópu­sam­bandið í nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir sam­tökin Já Ísland.“ (Kjarninn 16 október) Skv. sömu könnun er um 40% þjóðarinnar ESB-sinnuð en 60% andvíg. VG-kjósendur eru sem sagt orðnir mun aðildarsinnaðari en þjóðin. Þó að VG hafi enn á stefnuskrá að Ísland sé betur komið utan ESB hefur flokkurinn VG nokkrum sinnum á síðustu 4 árum ályktað um að hann vilji að Ísland taki aðildarsamningana upp að nýju og „ljúki aðildarviðræðunum“. Í ljósi þessarar stöðu og þróunar hjá VG og í ljósi þess að Samfylking og Viðreisn hafa umsókn á stefnuskrá sinni og í ljósi þessarar stöðu er hættan á að ný miðju-vinstri stjórn reyni að halda áfram aðildarumsókninni. Það sem verður okkur til happs í þessum efnum er núverandi tregða hjá ESB að opna á aðildarviðræður og frekari stækkun að sinni.

Það sem ég vil einkum benda á í þessu samhengi er: ESB-þróun VG sýnir hvað gerist með flokk sem svíkur sjálfan sig. VG fór í ríkisstjórn með Samfylkingunni 2009 og fórnaði þá ESB-stefnu sinni snarlega fyrir það samstarf (fórnaði reyndar ýmsum öðrum stefnumálum líka) og lagði inn aðildarumsók án þess að spyrja þjóðina fyrst – vísandi til „lýðræðisástar“ flokksins þar sem þjóðin skyldi fá að tjá sig um lokaniðurstöðuna! Ekki nóg með það, frá þessari stjórnarmyndun tók VG-forustan ESB-andstöðuna algjörlega af dagskrá sinnar orðræðu meðan aðildarsinnar fluttu sitt mál sem óðir væru. Hjörleifur Guttormsson þingmaður og félagi í flokknum til 2013 skrifaði seinna: „Eftir að Ísland lagði inn aðildarumsókn að ESB sumarið 2009 minnist ég þess ekki að Steingrímur J. sem formaður eða arftakinn Katrín Jakobsdóttir hafi í blaðagreinum eða á öðrum vettvangi rökstutt og útskýrt þá formlegu afstöðu flokksins að vera á móti aðild.“ ("Á að farga fullveldi Íslands á aldarafmælinu 2018", Mbl. 26. október 2016)

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn.

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn. 

Tuesday, October 17, 2017

Flóttamenn, heimsvaldastefna og hjartagæska

(Birtist í vefritinu neistar.is 16. okt 2017)

Ræðum nú aðeins flóttamannavandann. Sko, í kosningaumræðunni núna og íslenskri stjórnmálaumræðu er afar lítið talað um utanríkismál. Og sama sem ekkert um stríð og stríðshættu. Ein ástæðan er sú að það er engin raunveruleg stjórnarandstaða á þessu sviði á Alþingi. Það lengsta sem kosningaumræðan kemst inn á umrætt svið er að ræða „flóttamannavandann“. Af viðmælendum á götunni er ég dálítið spurður um afstöðu Alþýðufylkingarinnar til flóttamanna. Stundum í gagnrýnum tón, og er þá Alþýðufylkingunni líklegast ruglað saman við Íslensku þjóðfylkinguna, en það vandamál verður nú minna eftir skipbrot þess framboðs.

Umhyggja almennings gagnvart flóttamönnum sýnir heilbrigt hugarfar, síst skal gera lítið úr því. En fjöldi móttekinna flóttamanna er samt ekki aðalatriði málsins. Í fjölmiðlaumræðunni um flóttamenn, og í umræðu flokkanna flokkanna á Alþingi, er skipulega horft framhjá aðalatriði þess máls, orsökum flóttamannastraumsins. Höfuðorsakir hans eru í fyrsta lagi ránsstyrjaldir heimsvaldasinna og í öðru lagi misskipting og arðránskerfi heimsvaldastefnunnar. Hér mun ég eingöngu tala um fyrrnefnda atariðið.

Skv. tölum Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) eru um 22 milljónir manna á heimsvísu skilgreindir flóttamenn utan eigin lands, fólk sem flýr stríð, átök og ofsóknir. Á 21. öldinni eru nokkrar stærstu uppsprettur flóttamanna Afganistan, Írak, Sómalía, Suður-Súdan, Jemen og Sýrland. Sýrland hefur verið stærsta einstaka uppspretta flóttamanna frá 2011 og hefur valdið stöðugum og örum vexti í heildarfjölda flóttamanna. Stærsti orsakaþáttur flóttamannasprengjunnar er stríðsrekstur bandamanna okkar, NATO-velda og bandamanna þeirra, í framantöldum löndum (Suður-Súdan býr að vísu ekki við hernaðarinnrás heldur borgarastyrjöld frá 2013 eftir að Bandaríkin og Vesturlönd þvinguðu í gegn skiptingu Súdans 2011). Að baki hinni vestrænu hernaðarútrás, sem kallast oftast „stríð gegn hryðjuvverkum“ býr gróðadrifin, kapítalísk heimsvaldastefna.

Það er mikil hræsni að aulýsa sig sem sérstakan vin flóttamanna en standa í reyndinni á bak við þær styrjaldir sem flóttamannastraumnum valda. Íslenskar ríkisstjórnir hafa stutt hernað Vesturlanda og bandamanna þeirra í Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi. Íslensk stjórnvöld hafa auk heldur með þögninni stutt glæpsamlegan stríðsrekstur Sádi-Araba gegn Jemen sem enda er studdur af forusturíkjum NATO.

Þarna breytir litlu eða engu um afstöðu Íslands hvort hér situr íhald við völd eða sk. vinstristjórnir, stuðningurinn við stríðsrekstur bandamanna okkar er óbreyttur. Stuðningur Davíðs og Halldórs við innrásina hroðalegu í Írak 2003 er frægur að endemum. Stuðningur íslensku vinstristjórnarinnar við stríð NATO gegn Líbíu 2011 var fumlaus og skilyrðislaus, stríð sem rak 2 milljónir á flótta, þriðjung þjóðarinnar. Svokölluð „uppreisn“ í Sýrlandi hófst einnig árið 2011. „Bandalag uppreisnarhópanna“ var skjótt viðurkennt og stutt af USA og NATO-ríkjum og bandamönnum þeirra við Persaflóa og af Ísrael – og af íslensku vinstristjórninni. „Uppreisnin“ leiddi af sér ómældar þjáningar fyrir landið. Fyrir hana voru sýrlenskir flóttamenn nánast óþekkt fyrirbæri en innan skamms var hálf þjóðin á flótta, innan landsins eða utan.

Flóttamannastraumur og framlög ríkja til „öryggis- og varnarmála“ hangir náið saman. Eins og áður sagði er stærsti orsakaþáttur flóttamannasprengjunnar hernaðarbrölt NATO-velda og bandamanna þeirra. Hvað um Ísland? Á vef Utanríkisráðuneytisins kemur fram að „hornsteinar varna landsins eru eftir sem áður varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO).“ Meginverkefni NATO í Evrópu nú um stundir er hernaðaruppbyggingin gagnvart Rússlandi. Loftrýmiseftirlitið við Ísland er hluti af því. Þar við bætast hinar efnahagslegu refsiaðgerðir USA og ESB gegn Rússum út af Úkraínudeilunni. Vestrænt stutt valdarán í Kiev og hernaður nýrra stjórnvalda þar gegn austurhéruðunum hefur leitt af sér flótta um 1 milljónar manna þaðan úr landi. Refsiaðgerðirnar gegn Rússum eru studdar af öllum flokkum á Alþingi og hin tvöfalda árásarstefna Vesturblokkarinnar gegn þeim mætir engri andstöðu á Alþingi Íslendinga.

Stríðsframlög Íslands eru einkum pólitískur stuðningur við stríð. En þó að við berum eingöngu saman „varnarmálaframlög“ Íslands og framlög til flóttamanna er útkoman mjög slæm. Á yfirstandandi ári eru framlög Íslands til „flóttamanna og hælisleitenda“ (150 milljónir) aðeins einn tíundi hluti af framlagi landsins til „öryggis- og varnarmála“ (1,5 milljarður).

Alþýðufylkingin krefst þess að Ísland auki framlög sín til flóttamanna mjög verulega. Samt er það aðeins einn þáttur málsins, og ekki sá mikilvægasti. Flóttamannastraumur er fyrst og fremst ein afleiðing af yfirgangi heimsvaldasinna. Aðalspurningin á að vera: Hver er afstaða ykkar/okkar til styrjaldanna í áðurnefndum löndum? Þá spurningu vilja stjórnamálaflokkar Alþingis ekki ræða. Hana vill RÚV ekki heldur ræða, bara afstöðuna til flóttamanna. Þetta þrönga sjónarhorn mætti yfirfæra á annað svið til glöggvunar, frá utanríkisstefnu t.d. yfir á lýðheilsustefnu. Segjum að stjórnvöld rækju þá lýðheilsustefnu að troða í þegnana sem allra mestu af sykri og ómeti – sem væri jú nokkurs konar sýklahernaður gegn þeim – og tækju svo afleiðingum hernaðarins með mikilli áherslu á bætta tannhirðu. Það væri einmitt hliðstætt þeirri stefnu Vesturlanda (þ.á.m. Íslands) að standa að hernaði víða um heim og gera svo móttöku flóttamanna að aðalatriði í lausn vandans.

Sem áður segir er Sýrland nú stærsta uppspretta flóttamanna á heimsvísu, en nú eru fréttir þaðan reyndar batnandi. Góðu fréttirnar eru ekki brjóstgæði einstaka Evrópulands í móttöku flóttamanna – enda gildir um þau flest það sama og um Ísland að framlag þeirra til stríðsþáttarins er margfalt meira en framlagið til flóttamanna – heldur eru það hernaðarlegir sigrar Sýrlandshers sem valda því að flóttamannastraumur þaðan er byrjaður að snúast við.