Tuesday, June 8, 2021

Frásögn Kjartans Ólafssonar af íslenskum kommúnistum

 (Birtist á Neistum 23. maí 2021)

                                              Kommúnistasamkoma nærri Reykjavík 1932. Mynd úr Draumar og veruleiki        

Bók Kjartans Ólafssonar Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Draumar og veruleiki. Stjórnmál í endursýn er mikið rit. Enda er það rit um mikla hreyfingu, sem er íslenskur vinstrisósíalismi í hálfa öld (u.þ.b. 1917-1968). Sagan er rakin af einum þátttakanda frá síðasta skeiði hennar. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Frásögn Kjartans er á margan hátt afrek og dregur saman feikna mikið efni (568 bls. í stóru broti) í skilmerkilegri og glöggri framsetningu sem á heimtingu á gagnrýninni umræðu. Í mati á sögu sósíalismans er margt sem orkar tvímælis og er sígilt deiluefni, og svo verður líka um úttekt Kjartans Ólafssonar.

Tvískiptingin: hið „heimagerða“ og hið „moskvustýrða“

Það er því ekki áhlaupaverk að ritdæma þessa bók. Ég tek þann kost að taka nokkur mikilvæg atriði til umræðu, pólitískrar umræðu, ekki bókmenntalegrar. Í þessari fyrri (fyrstu) grein fjalla ég eingöngu um afgreiðslu Kjartans Ólafssonar á Kommúnistaflokki Íslands, KFÍ.

Í sögutúlkun sinni gefur Kjartan okkur þá mynd að Kommúnistaflokkurinn íslenski hafi unnið merkilegt og mikið til gott starf fyrir verkalýðinn í íslenskri stéttabaráttu. Hins vegar hafi mjög háð flokknum hin sterku tengsl hans við Moskvu. Þar var Komintern og þar bjó Stalín, og öll áhrif þaðan voru slæm. Jafnframt má fullyrða að á engan þátt í starfsháttum KFÍ leggi Kjartan jafn mikla áherslu og einmitt tengslin við Moskvu. Þessi tvískipting er auðvitað ekki uppfinning Kjartans heldur er hún mjög algeng í hvers konar umfjöllun um þessa hreyfingu, sagnfræðinga sem annarra.

En aðgreiningin er á margan hátt hæpin. Tilkoma, þróun og viðgangur kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi var alla tíð mörkuð af miklum áhrifum frá rússnesku byltingunni, sovéska fordæminu – og á fyrri hluta tímans frá Komintern. Fyrirmynd Sovétríkjanna virkaði sem gríðarleg hvatning fyrir róttækan verkalýð, stundum virkaði hún þó í öfuga átt. En tilraunin til að skilja á milli hins vonda „stalíníska“ og hins góða „heimagerða“ verður gjarnan einskær draumur um fortíðina.

Komintern og klofin hreyfing

Komintern, Þriðja alþjóðasambandið, var miðstýrður heimsflokkur sem reyndi að framfylgja samræmdum, byltingarsinnuðum sósíalisma gegnum aðildarflokka hinna einstöku landa. Komintern, stofnað 1919, var hugmynd Leníns, en var samt engin ný hugmynd. Á undan höfðu starfað Fyrsta alþjóðasambandið og Annað alþjóðasambandið sem bæði reyndu að samræma byltingarsinnaðan sósíalisma á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi, enda væri barátta verkalýðsins alþjóðleg að eðli. Þegar Annað alþjóðasambandið sveik í kringum 1914 og helstu flokkar þess breyttust í verkfæri nokkurra heimsvaldaríkja sem háðu með sér heimsvaldastríð, og þegar byltingin 1917 hafði sigrað í Rússlandi, þótti byltingarsinnum eðlilegt að stofna nýtt alþjóðasamband. Komintern var stofnað um byltingarsinnaðan marxisma sem hafði bætt við sig reynslunni af a) svikum sósíaldemókrata og b) rússnesku byltingunni, stofanð utan um þá lærdóma og endurnýjaða byltingarsinnaða stjórnlist og baráttuaðferðir.

Þó að stéttabaráttan sé alþjóðleg að innihaldi hefur hún að miklu leyti þjóðlegt form í ólíkum löndum og útheimtir því misjafnar baráttuaðferðir. En margur myndi meta það svo að skipulag og uppbygging Komintern hafi um of horft framhjá þessari staðreynd og reynt að fylgja einni samræmdri stefnu við jafnvel ólíkustu aðstæður.

Í sögu Komintern hefur tímabilið á milli 6. og 7. heimsþings – 1928 til 1935 – verið nefndur „vinstri“ tíminn þegar sambandið einkenndist af „vinstri“ kúrs og talsverðri einangrunarstefnu. Stefna sú var mörkuð á 6. heimsþingi sambandsins árið 1928. Stefnan fól í sér það mat að heimskapítalisminn væri aftur orðinn óstöðugur – eftir tímabundinn stöðugleika sem hófst upp úr 1920 – kreppa væri nú í aðsigi og byltingaröflin væru í sókn en auðvaldið í vörn. Efnahagskreppan sem hófst ári síðar þótti staðfesta þetta mat.

Skilgreining Komintern á þjóðfélagslegu hlutverki sósíaldemókrata var erfiðasta málið, síðan einnig skilgreiningin á hlutverki hins vaxandi fasisma. Sósíaldemókratar voru á þessu skeiði skoðaðir sem „þjóðfélagsleg höfuðstoð borgarastéttarinnar“. Og lengi voru hægri kratar og stéttasamvinna þeirra skoðuð sem mikilvægari stoð undir veldi borgarastéttarinnar en fasisminn. Lögð var upp sóknartaktík með mikla áherslu á að yfirvinna áhrif sósíaldemókrata innan verkalýðshreyfingarinnar. Samtímis var þróun fasismans og tilheyrandi afnám borgaralegra réttinda gjarnan túlkað sem veikleikamerki, sem örþrifaráð auðstéttar sem sæi völd sín í bráðri hættu. „Vinstri“ stefna Komintern byggði sem sagt á yfirdrifinni byltingarbjartsýni og vanmati á stéttarandstæðingnum.

Liðskönnun Antony Blinkens á Norðurslóðum

 (birtist á Neistum 23. maí 2021)

Liðskönnun Antony Blinkens á Norðurslóðum gekk vel. Allir flokkar á Alþingi Íslendinga stóðu prúðan heiðursvörð þegar hann gekk könnunarganginn. Hann var ekki spurður um nýja norðurslóðastefnu Bandaríkjahers. Sergei Lavrov var hins vegar sagður efna til átaka á Norðurslóðum, vegna einhvers sem hann sagði aldrei.

Kurteislegt tal í Hörpu

Eftir fund þeirra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í Hörpu sagði Antony Blinken: “Sem bandamenn á Norðuslóðum vilja Íslendingar og Bandaríkjamenn tryggja að heimshlutinn verði áfram laus við átök, þar sem samvinna ræður.“ Íslensku blaðamennirnir létu þetta gott heita og spurðu hann ekki frekar um stefnu og athafnir Bandaríkjanna á Norðurslóðum, hvorki á þessum fundi né öðrum. Enda telja þeir vandamálið liggja annars staðar. Bogi Ágústsson orðaði það svo í sjónvarpsfréttum 18. maí: „Lavrov varaði vestræn ríki við að gera kröfur til Norðurskautssvæðisins, það tilheyri Rússum.“ Svo át hver það eftir öðrum að Sergei Lavrov hefði komið með „stóryrtar yfirlýsingar“ um að „Norðurskautssvæðið tilheyri Rússum“ og þær kröfur „brjóta í bága við alþjóðalög um hafrétt á svæðinu“ (sjá t.d. Fréttablaðið 20. maí). Það er auðséð hvar ógnin er og yfirgangurinn! Gallinn sá er að Lavrov sagði þetta aldrei, og orð Blinkens tjá ekki Norðurslóðastefnu Bandaríkjanna.

Kurteislegt tal Antony Blinkens um spennuleysi og umhverfisvernd í norðri hefur það hlutverk að breiða yfir staðreyndir, sem er vígvæðing Norðurslóða, leidd af Bandaríkjunum. Fundir Norðurskautsráðsins hafa lengi undafarið snúist um annað en hermál. En á fund ráðsins í Finnlandi í maí 2019 var Pompeo utanríkisráðherra mættur og lýsti yfir: “Þetta er stund Ameríku til að standa upp sem heimskautaþjóð... Svæðið er orðið að vettvangi hnattrænna valda og samkeppni.“ Hann réðist þar harkalega á „yfirgang“ Rússa og Kínverja á Norðurslóðum.

Skömmu eftir valdatöku Bidenstjórnar birtu höfuðstöðvar Bandaríkjahers stefnu sína fyrir Norðurheimskautssvæðið í bæklingi með heitið: „Að endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu. Norðurslóðastefna Bandaríkjahers.“ Þar má lesa: „Breytingarnar í hinu landfræðipólitíska umhverfi og aðgerðir stórveldakeppinauta ásamt breytingum í náttúrulegu umhverfi krefjast þess að herinn endurstilli og endurskerpi valkostina við að byggja aftur upp mátt okkar á Norðurskautssvæðinu.“ https://api.army.mil/e2/c/downloads/2021/03/15/9944046e/regaining-arctic-dominance-us-army-in-the-arctic-19-january-2021-unclassified.pdf Blinken minntist ekki á þessa stefnuyfirlýsingu í Hörpu, og íslenskir blaðmenn voru þá ekki heldur að ónáða utanríkisráðherrann með óþægilegum spurningum þarum.

Grænland, Noregur og Atlantshafsflotinn

Blinken kom hingað með viðkomu í Danmörku. Mikilvægasta erindi hans þangað var að ræða Grændlandsmál og hitta fólk úr grænlensku heimastjórninni (einnig þeirri færeysku). Hann lýsti þar yfir ánægju sinni vegna stórlega aukinna útgjalda Dana til varnarmála á Grænlandi. Danska ríkisstjórnin samþykkti í febrúar sl. 40 milljarða aukningu til málaflokksins. Þessi gríðarlega hækkun kom eftir mikinn þrýsting frá Washington. Berlingske hafði í ágúst 2019 eftir Peter Viggo Jakobsen, lektor í Varnarmálaakademíunni dönsku: „Það er feiknalegur þrýstingur á Danmörku til að fá okkur til að hafast meira að á Norðurheimskautssvæðinu sem þjónar bandarískum hagsmunum. Bandaríkin segja: 'Setjið upp hjálminn og komið með í bardagann'.“ https://www.berlingske.dk/nyheder/ekspert-danmark-er-under-gigantisk-pres-usas-budskab-er-spaend-nu-hjelmen Þetta var í anda Trumps sem pressaði mjög á NATO-bandamann að leggja meira fram til hermála. Danir höfðu sem sagt látið undan þessum þrýstingi og Blinken lýsti ánægju sinni með það.