Friday, November 26, 2021

Bólusetningarskylda og lögregluríki

(Birtist á Neistum 26. nóvember 2021)

 Um allan heim eru átök og spenna sem virðast vaxa með hverjum deginum. Opinbert tilefni átakanna nú er deilan um mismunun óbólusettra með lögum, lögum sem innleidd hafa verið í ýmsum löndum, og skref verið tekin í þá átt í næstu nágrannalöndum okkar (Noregi, Svíþjóð). Þar er um að ræða innanríkisvegabréf, víða nefnt «grænn passi» eða „kórónupassi“, bólusetningarskilríki sem sett eru sem skilyrði fyrir borgaralegum réttindum. Við nánari athugun sést að deilan snýst um nokkrar meginreglur réttarríkis, og um lýðræðið.

Á Íslandi hefur sóttvarnarlæknir fengið að leggja línuna undanfarin misseri, í kerfi sem kalla mætti «sóttvarnarríki» frekar en réttarríki. Núna telur hann «ekki faglegar forsendur fyrir að mismuna bólusettum og óbólusettum að svo stöddu» skv. visir.is 17 nóv. Þórólfur gefur samt hugmyndinni um mismunun undir fótinn, að veita þeim sem fengið hafa örvunarskammt «réttindi umfram aðra» ef sá skammtur reynist vel. Undir þetta hafa einhverjir ráðherrar tekið, og sóttvarnargúrú Kári Stefánsson líka. Svo varla boðar það gott um framhaldið.

Innanríkisvegabréf – hvað þýðir það?

Opinská mismunun milli þegnanna er nu innleidd í einu landinu af öðru. Um er að ræða mestu frelsisskerðingar á borgara í hinum vestræna heimi á friðartímum. Öfgakennd dæmi eru Ástralía, Austurríki, Lettland, Rússland, Kanada. Aðferðin er að útiloka óbólusetta í áföngum frá samfélaginu og gera þeim lífið óbærilegt. Vitnisburður um það er t.d. þetta neyðarkall frá Ástralíu, þar sem stórnvöld ganga lengst: https://www.youtube.com/watch?v=3cI0Q5UgFFU&t=177s

Í flestum löndum er áróðurinn fyrir bólusetningu (nefndur «upplýsing») ákafur og linnulaus. Það dugar samt ekki til þess að allir hlýði. Í Austurríki er þriðjungur enn óbólusettur, hlutfallið er litlu minna í Bandaríkjunum, í ESB-borginni Brussel nærri helmingur. En ef fullnusta á skyldubólusetningu og áróðurinn dugar ekki er ekki annað eftir en valdboð og þvingun gegn stórum minnihluta þegnanna. Réttarríkið og lögregluríkið vega salt, og þróunin stefnir að því síðarnefnda. Í einu landi af öðru.

Mismunun af þessu tagi minnir illilega á aðskilnaðarkerfið sem ríkti í Suður-Afríku. Þar var innanríkisvegabréf miðlægt atriði til að sundurgreina borgarana m.t.t. kynþáttar. Gyðingastjarnan í Þýskalandi var einnig vel þekkt merki til sundurgreiningar þegnanna. Innanríkisvegabréf voru líka miðlægt atriði í stjórnarháttum nasista bæði í Þýskalandi og herteknum löndum Heimsstyrjaldarinnar síðari. En að lokinni þeirri styrjöld var eftirfarandi grein sett inn í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna nýstofnaðra (sjöunda grein): «Allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án nokkurrar mismununar.»

Frá lokunarstefnu til bólusetningarskyldu

Frá upphafi faraldurs hefur sóttvarnarstefnan verið miðstýrð frá WHO sem orðið er verkfæri lyfjaauðvalsins. Fjórir stærstu kostunaraðilar samtakanna eru USA, Bretland, Bill & Melinda Gates Foundation og GAVI Alliance, en stærsti kostunaraðili síðasttalda er aftur á móti Bill & Melinda Gates Foundation (sjá t.d. hér: https://hemali.no/siste/professor-astrid-stuckelberger-en-pandemi-av-logner/).

Stríðið í Eflingu

(Birtist á Neistum 4. nóvember 2021)

Það kom flatt upp á almenning þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sagði upp starfi sínu og formennsku í Eflingu. Og starfsbróðir hennar Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri einnig. Það kom jafnvel enn flatar upp á fólk að ástæðan skyldi vera «vantraust» frá starfsfólki Eflingar.

Tilefni afsagnarinnar var í fyrsta lagi ályktun tveggja trúnaðarmanna starfsfólksins á skrifstofu Eflingar í júní sl. sumar. Í ályktuninni voru borin upp á stjórn Eflingar samningsbrot, tilefnislausar uppsagnir og «aftökulistar» starfsfólks. Í öðru lagi var tilefnið dramatískur fundur með umræddu starfsfólki föstudaginn 29. október. Á þeim fundi gaf Sólveig Anna hópnum tvo kosti, skv. fésbókarfærslu hennar sjálfrar: «Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu.» En niðurstaða starfsmannafundarins varð sú að orð trúanaðarmannanna frá í júní voru staðfest. Þegar sú niðurstaða lá fyrir sagði Sólveig Anna af sér formennsku. Það gerði einnig Viðar Þorsteinsson framkvæmdarstjóri.

Að vísu sögðust fulltrúar starfsmanna ekki hafa ætlast til neinna afsagna af þeim og ekki ætlað með málið í fjölmiðla https://www.ruv.is/frett/2021/11/01/starfsfolk-vildi-leysa-malid-innanhuss en einn stjórnarmaður í Eflingu, Guðmundur Baldursson, var hins vegar á þeirri leið – og raunar farinn með málið í fjölmiðla daginn fyrir þennan föstudagsfund.

Hér er sem sé um að ræða átök milli starfsfólks á skrifstofu Eflingar og hinnar nýju róttæku forustu félagsins sem kosin var 2018. Hvernig skal meta þau átök? Það mætti hugsanlega álykta sem svo að þarna láti Sólveig Anna persónulega líðan sína í vinnunni yfirskyggja baráttu og verkefni félagsins. Það væri þá varla ásættanleg afstaða hjá verkalýðsforingja. Spurningin er: Er réttlætanlegt að láta starfsmannamálin hafa slíkt vægi í starfi félagsins?

Thursday, September 23, 2021

Hvað um Sósíalistaflokkinn?

 

(Birtist á Neistum  8. september 2021)

Ég er sósíalisti. Ég er í Alþýðufylkingunni en hún býður ekki fram í ár. Það gerir hins vegar Sósíalistaflokkur Íslands (SÍ). Flokkurinn hefur náð athyglisverðum árangri með málflutningi sínum. Að íslenskur flokkur sem kennir sig við sósíalisma hafi 8% stuðning eru tíðindi. Maður verður að taka afstöðu til slíks framboðs.

Baráttustefna SÍ

Það er ljóst að við í Alþýðufylkingunni eigum samstöðu með SÍ í mörgum málaflokkum. Mest um vert er að SÍ hefur sett á dagskrá endurreisn verkalýðsbaráttunnar, og komið með stéttahugsun og stéttabaráttu aftur í hina pólitísku orðræðu. SÍ hefur sett fram framsæknar umbótakröfur í mörgum málaflokkum, nefna má húsnæðismál, skattamál, heilbrigðismál, sjávarútvegsmál, félagslegar lausnir í stað markaðslausna (afstaðan gegn nýfrjálshyggju er alveg afdráttarlaus) – og flokkurinn kennir sig við sósíalisma. Þess er að vænta að slíkur flokkur sé bandamaður Alþýðufylkingarinnar í stéttabaráttunni oftar en aðrir flokkar.

SÍ heyr kosningabaráttuna af krafti. Það er athyglisvert að hún hefur einkum farið fram á samfélagsmiðlum – og þar er framleiðnin mikil – en smám saman einnig í öðrum fjölmiðlum. Það er ekkert leyndamál, og blasir við, að Gunnar Smári Egilsson er helsti áróðursmaður flokksins. Hann er mælskur og öflugur áróðursmaður, ennfremur býsna glúrinn og skarpur pólitískur greinandi – og skoðar mál mjög oft frá stéttasjónarmiði sem er vissulega kostur á sósíalista.

En það eru göt og eyður í stefnu og störf SÍ. Þar vantar atriði sem hreint ekki má vanta. Raunar er ekki hægt að tala um neina stefnuskrá flokksins, frekar lista aðskildra stefnumála sem lesandinn þarf að raða saman til að fá heildarstefnu. Eftirfarandi gagnrýni beinist fremur að langtímastefnu (eða stefnuleysi) flokksins en stefnu og málflutningi hans í einstökum kosningamálum.

Sósíalismi?

SÍ kallar sig sósíalískan flokk. Allt bendir þó til að hann berjist fyrir umbótum á kapitalismanum fremur en afnámi hans, að stefna hans sé innan ramma kratískra umbóta fremur en byltingarsinnaður sósíalismi. Lítt hefur verið skilgreint hvað felst í þessum „sósíalisma“. Ekki er í neinum stefnuplöggum minnst á sósíalískt þjóðfélag, valdatöku framleiðenda, eign þeirra á framleiðslutækjum, valdaafnám auðstéttarinnar eða slíkt.

Saturday, July 3, 2021

Óperasjón Barbarossa – enn og aftur

 (birt á Neistum 22. júní 2021)


Áttatíu ár eru í dag liðin frá innrás Þýskalands í Sovétríkin, Óperasjón Barbarossa, mannskæðasta glæp veraldarsögunnar. Haldið er upp á afmælið með mikilli samræmdri heræfingu í Austur-Evrópu, gegn Rússlandi. Æfingin sem nefnist DefenderEurope 2021 stendur nú yfir en er dreift á nokkrar vikur í 12 Austur-Evrópulöndum, á landi og sjó. Þátt taka 37 þúsund hermenn frá 27 löndum, þar á meðal frá hinum 14 nýju aðildarríkjum NATO í Austur-Evrópu. Öll fer æfingin fram í Austur-Evrópu, frá Eystrasalti til Svartahafs og Balkanskaga.

Á tímum kalda stríðsins var það líkast til aðeins í verstu martröðum sínum sem Rússar gátu séð andstæðinga sína viðhafa slíka vígvæðingu á svo nálægri lengdargráðu. Þá var „stuðpúðabelti“ vinsamlegra ríkja vestan Rússlands, en nú hefur varnarlínan færst miklu, miklu nær – og óvinurinn stendur við útidyrnar.

Nú er nánast allt meginland Evrópu sameinað í pólitísk-hernaðarlegt bandalag gegn Rússum, NATO. Undantekningin er Hvítrússland (og Sviss). Löndin Úkraína, Georgía, Svíþjóð og Finnland eru að vísu enn ekki formleg NATO-lönd en hafa öll tekið upp „aukna samstarfsaðild“ (NATO‘s Enhanced Opportunities Partners) sem er full þátttaka í hernaðarsamstarfinu án formlegrar NATO-aðildar (Úkraína fékk þá stöðu 2020).

Þá hlýtur staðan að minna óþægilega mikið á stöðuna við upphaf Barbarossa, fyrir réttum 80 árum, frá rússneskum sjónarhól. Þá var einmitt allt meginland Evrópu sameinað undir eina herstjórn (undantekningar voru Sviss og Svíþjóð) þegar herir Þýskalands og bandamanna þeirra réðust inn í Sovétríkin.

Leiðtogafundur NATO var haldinn viku fyrir afmælið og kallaði Evrópuþjóðir til samstöðu á tímum þegar „árásarsinnaðar aðgerðir Rússlands eru ógn við öryggi Evrópu og Atlantshafs“ og til samstöðu um „að verja gildi okkar og hagsmuni“ á tímum þegar „valdboðsríki eins og Rússland og Kína ógna samskiptareglum milli ríkja.“ https://www.nato.int/cps/en/natohq/news_185000.htm

Söguendurskoðun Evrópuþingsins 2019

Vígvæðingin gegn Rússlandi fer líka fram á sagnfræðisviðinu. Nýlega hefur Evrópuþingið í Brussel ályktað sérstaklega um upphaf Seinni heimstyrjaldarinnar. Sú ályktun var gerð í september 2019, þegar 80 ár voru liðin frá því Þýskaland réðist á Pólland 1939. Ályktunin fól í sér svokallaða söguendurskoðun, endurtúlkun á upphafi stríðsins og þar með allri sögu þess.

Ályktunin segir að Evrópuþingið “…leggur áherslu á að Heimsstyrjöldin síðari, mesta eyðileggingarstríð í sögu Evrópu, hófst sem bein afleiðing af hinum illræmda sovét-nasíska griðasáttmála frá 23. ágúst 1939, einnig þekktur sem Mólotoff-Ribbentrop samningurinn og leynilegum ákvæðum hans, en með þeim skiptu þessar tvær alræðisstjórnir, sem deildu sameiginlegu markmiði um heimsyfirráð, Evrópu í tvö áhrifasvæði.” Ályktun Evrópuþingsins fer m.a. fram á að fjarlægðar séu í aðildarríkjunum öll minnismerki sem „heiðra alræðisstjórnir“, þ.á.m. þau fjölmörgu minnismerki í austanverðri álfunni sem helguð eru baráttu Rauða hersins gegn nasismanum. https://www.europarl.europa.eu/doceo/document/TA-9-2019-09-19_EN.html

Nokkrum árum fyrr hafði reyndar Evrópuþingið samþykkt að gera 3. september að «evrópskum degi minninga um fórnarlömb stalínisma og nasisma.“ Þá tengdi Evrópuþingið sig við sk. Prag-yfirlýsingu frá 2008 sem endurspeglar gallharða andkommúníska hefð og var undirrituð m.a. af þekktum stjórnmálamönnum eins og Václav Havel og Vitautas Landsbergis. Kjarni yfirlýsingarinnar er ákall um „al-evrópskan skilning því á að kommúnískar jafnt sem nasískar stjórnir... verða að skoðast sem þær meginhörmungar sem hafa eyðilagt 20. öldina.“ https://en.wikipedia.org/wiki/Prague_Declaration#2009

Frumkvæðið að söguendurskoðun Evrópuþingsins hefur m.a. komið frá stjórnvöldum Tékklands og Póllands í nokkrum atrennum. Síðan hefur þessi sagnfræði tekið upp hugmyndina um „tvöfalt þjóðarmorð“ sem í austanverðri Evrópu er orðin að hreyfingu á sviði sögutúlkunar, og er í senn afar hægrisinnuð og afar andrússnesk.

Þessi sagnfræði beitir sálfræði og nokkrum hugrenningatengslum: Hún lýsir Sovétríkjum Stalíns sem útþenslusinnuðu ríki á borð við Þýskaland Hitlers. Hún tengir Pútín við „útþenslusinnan“ Stalín. Hún lýsir jafnframt Sovétríkjunum og Hitlers-Þýskalandi sem tveimur hliðum á sömu mynt, myntinni „tótalítarisma“ (oftast þýtt sem „alræði“ sem einnig er þýðing á orðinu „diktatúr“). Sú hugmynd er svo yfirfærð til nútímans þar sem NATO er fulltrúi lýðræðisins sem berst við „alræðisöflin“ (tótalítarismann) og er þá yfirleitt vísað til Rússlands og Kína (og Íran og N-Kóreu bætt við þegar hentar).

Griðasamningnum gefið nýtt og aukið vægi

Sagnfræðin er í þá veru að Hitler og Stalín hafi deilt með sér Evrópu og byrjað svo heimsstyrjöldina sameiginlega. Þýskaland var áður talið vera einn upphafaðili Seinni heimsstyrjaldar en þarna eru Þýskaland og Sovétríkin sögð bera ábyrgðina sameiginlega. Sem sagt, stórfelld söguleg „endurskoðun“.

Endurskoðunin felur í sér að heimsstyrjöldin hafi ekki hafist 1. sept. 1939 þegar Þýskaland réðist á Pólland heldur einni viku fyrr, 23. ágúst, við undirritun griðasamningsins sem gjarnan er kenndur við Mólotoff-Ribbentrop. Samningnum er gefið vægi sem hann hefur ekki áður haft, að vera upphaf heimsstyrjaldarinnar. Jafnframt er skipulega horft framhjá aðdraganda samningsins. Sá aðdragandi er þó ærið mikilvægur, jafnvel mikilvægari en samningurinn sjálfur, nefnilega stigvaxandi yfirgangur Þjóðverja (og í minna mæli Ítala) í álfunni – og mjög misjafnlega öflugar tilraunir annarra ríkja til að halda aftur af þeim.

Tuesday, June 8, 2021

Frásögn Kjartans Ólafssonar af íslenskum kommúnistum

 (Birtist á Neistum 23. maí 2021)

                                              Kommúnistasamkoma nærri Reykjavík 1932. Mynd úr Draumar og veruleiki        

Bók Kjartans Ólafssonar Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Draumar og veruleiki. Stjórnmál í endursýn er mikið rit. Enda er það rit um mikla hreyfingu, sem er íslenskur vinstrisósíalismi í hálfa öld (u.þ.b. 1917-1968). Sagan er rakin af einum þátttakanda frá síðasta skeiði hennar. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Frásögn Kjartans er á margan hátt afrek og dregur saman feikna mikið efni (568 bls. í stóru broti) í skilmerkilegri og glöggri framsetningu sem á heimtingu á gagnrýninni umræðu. Í mati á sögu sósíalismans er margt sem orkar tvímælis og er sígilt deiluefni, og svo verður líka um úttekt Kjartans Ólafssonar.

Tvískiptingin: hið „heimagerða“ og hið „moskvustýrða“

Það er því ekki áhlaupaverk að ritdæma þessa bók. Ég tek þann kost að taka nokkur mikilvæg atriði til umræðu, pólitískrar umræðu, ekki bókmenntalegrar. Í þessari fyrri (fyrstu) grein fjalla ég eingöngu um afgreiðslu Kjartans Ólafssonar á Kommúnistaflokki Íslands, KFÍ.

Í sögutúlkun sinni gefur Kjartan okkur þá mynd að Kommúnistaflokkurinn íslenski hafi unnið merkilegt og mikið til gott starf fyrir verkalýðinn í íslenskri stéttabaráttu. Hins vegar hafi mjög háð flokknum hin sterku tengsl hans við Moskvu. Þar var Komintern og þar bjó Stalín, og öll áhrif þaðan voru slæm. Jafnframt má fullyrða að á engan þátt í starfsháttum KFÍ leggi Kjartan jafn mikla áherslu og einmitt tengslin við Moskvu. Þessi tvískipting er auðvitað ekki uppfinning Kjartans heldur er hún mjög algeng í hvers konar umfjöllun um þessa hreyfingu, sagnfræðinga sem annarra.

En aðgreiningin er á margan hátt hæpin. Tilkoma, þróun og viðgangur kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi var alla tíð mörkuð af miklum áhrifum frá rússnesku byltingunni, sovéska fordæminu – og á fyrri hluta tímans frá Komintern. Fyrirmynd Sovétríkjanna virkaði sem gríðarleg hvatning fyrir róttækan verkalýð, stundum virkaði hún þó í öfuga átt. En tilraunin til að skilja á milli hins vonda „stalíníska“ og hins góða „heimagerða“ verður gjarnan einskær draumur um fortíðina.

Komintern og klofin hreyfing

Komintern, Þriðja alþjóðasambandið, var miðstýrður heimsflokkur sem reyndi að framfylgja samræmdum, byltingarsinnuðum sósíalisma gegnum aðildarflokka hinna einstöku landa. Komintern, stofnað 1919, var hugmynd Leníns, en var samt engin ný hugmynd. Á undan höfðu starfað Fyrsta alþjóðasambandið og Annað alþjóðasambandið sem bæði reyndu að samræma byltingarsinnaðan sósíalisma á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi, enda væri barátta verkalýðsins alþjóðleg að eðli. Þegar Annað alþjóðasambandið sveik í kringum 1914 og helstu flokkar þess breyttust í verkfæri nokkurra heimsvaldaríkja sem háðu með sér heimsvaldastríð, og þegar byltingin 1917 hafði sigrað í Rússlandi, þótti byltingarsinnum eðlilegt að stofna nýtt alþjóðasamband. Komintern var stofnað um byltingarsinnaðan marxisma sem hafði bætt við sig reynslunni af a) svikum sósíaldemókrata og b) rússnesku byltingunni, stofanð utan um þá lærdóma og endurnýjaða byltingarsinnaða stjórnlist og baráttuaðferðir.

Þó að stéttabaráttan sé alþjóðleg að innihaldi hefur hún að miklu leyti þjóðlegt form í ólíkum löndum og útheimtir því misjafnar baráttuaðferðir. En margur myndi meta það svo að skipulag og uppbygging Komintern hafi um of horft framhjá þessari staðreynd og reynt að fylgja einni samræmdri stefnu við jafnvel ólíkustu aðstæður.

Í sögu Komintern hefur tímabilið á milli 6. og 7. heimsþings – 1928 til 1935 – verið nefndur „vinstri“ tíminn þegar sambandið einkenndist af „vinstri“ kúrs og talsverðri einangrunarstefnu. Stefna sú var mörkuð á 6. heimsþingi sambandsins árið 1928. Stefnan fól í sér það mat að heimskapítalisminn væri aftur orðinn óstöðugur – eftir tímabundinn stöðugleika sem hófst upp úr 1920 – kreppa væri nú í aðsigi og byltingaröflin væru í sókn en auðvaldið í vörn. Efnahagskreppan sem hófst ári síðar þótti staðfesta þetta mat.

Skilgreining Komintern á þjóðfélagslegu hlutverki sósíaldemókrata var erfiðasta málið, síðan einnig skilgreiningin á hlutverki hins vaxandi fasisma. Sósíaldemókratar voru á þessu skeiði skoðaðir sem „þjóðfélagsleg höfuðstoð borgarastéttarinnar“. Og lengi voru hægri kratar og stéttasamvinna þeirra skoðuð sem mikilvægari stoð undir veldi borgarastéttarinnar en fasisminn. Lögð var upp sóknartaktík með mikla áherslu á að yfirvinna áhrif sósíaldemókrata innan verkalýðshreyfingarinnar. Samtímis var þróun fasismans og tilheyrandi afnám borgaralegra réttinda gjarnan túlkað sem veikleikamerki, sem örþrifaráð auðstéttar sem sæi völd sín í bráðri hættu. „Vinstri“ stefna Komintern byggði sem sagt á yfirdrifinni byltingarbjartsýni og vanmati á stéttarandstæðingnum.

Liðskönnun Antony Blinkens á Norðurslóðum

 (birtist á Neistum 23. maí 2021)

Liðskönnun Antony Blinkens á Norðurslóðum gekk vel. Allir flokkar á Alþingi Íslendinga stóðu prúðan heiðursvörð þegar hann gekk könnunarganginn. Hann var ekki spurður um nýja norðurslóðastefnu Bandaríkjahers. Sergei Lavrov var hins vegar sagður efna til átaka á Norðurslóðum, vegna einhvers sem hann sagði aldrei.

Kurteislegt tal í Hörpu

Eftir fund þeirra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í Hörpu sagði Antony Blinken: “Sem bandamenn á Norðuslóðum vilja Íslendingar og Bandaríkjamenn tryggja að heimshlutinn verði áfram laus við átök, þar sem samvinna ræður.“ Íslensku blaðamennirnir létu þetta gott heita og spurðu hann ekki frekar um stefnu og athafnir Bandaríkjanna á Norðurslóðum, hvorki á þessum fundi né öðrum. Enda telja þeir vandamálið liggja annars staðar. Bogi Ágústsson orðaði það svo í sjónvarpsfréttum 18. maí: „Lavrov varaði vestræn ríki við að gera kröfur til Norðurskautssvæðisins, það tilheyri Rússum.“ Svo át hver það eftir öðrum að Sergei Lavrov hefði komið með „stóryrtar yfirlýsingar“ um að „Norðurskautssvæðið tilheyri Rússum“ og þær kröfur „brjóta í bága við alþjóðalög um hafrétt á svæðinu“ (sjá t.d. Fréttablaðið 20. maí). Það er auðséð hvar ógnin er og yfirgangurinn! Gallinn sá er að Lavrov sagði þetta aldrei, og orð Blinkens tjá ekki Norðurslóðastefnu Bandaríkjanna.

Kurteislegt tal Antony Blinkens um spennuleysi og umhverfisvernd í norðri hefur það hlutverk að breiða yfir staðreyndir, sem er vígvæðing Norðurslóða, leidd af Bandaríkjunum. Fundir Norðurskautsráðsins hafa lengi undafarið snúist um annað en hermál. En á fund ráðsins í Finnlandi í maí 2019 var Pompeo utanríkisráðherra mættur og lýsti yfir: “Þetta er stund Ameríku til að standa upp sem heimskautaþjóð... Svæðið er orðið að vettvangi hnattrænna valda og samkeppni.“ Hann réðist þar harkalega á „yfirgang“ Rússa og Kínverja á Norðurslóðum.

Skömmu eftir valdatöku Bidenstjórnar birtu höfuðstöðvar Bandaríkjahers stefnu sína fyrir Norðurheimskautssvæðið í bæklingi með heitið: „Að endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu. Norðurslóðastefna Bandaríkjahers.“ Þar má lesa: „Breytingarnar í hinu landfræðipólitíska umhverfi og aðgerðir stórveldakeppinauta ásamt breytingum í náttúrulegu umhverfi krefjast þess að herinn endurstilli og endurskerpi valkostina við að byggja aftur upp mátt okkar á Norðurskautssvæðinu.“ https://api.army.mil/e2/c/downloads/2021/03/15/9944046e/regaining-arctic-dominance-us-army-in-the-arctic-19-january-2021-unclassified.pdf Blinken minntist ekki á þessa stefnuyfirlýsingu í Hörpu, og íslenskir blaðmenn voru þá ekki heldur að ónáða utanríkisráðherrann með óþægilegum spurningum þarum.

Grænland, Noregur og Atlantshafsflotinn

Blinken kom hingað með viðkomu í Danmörku. Mikilvægasta erindi hans þangað var að ræða Grændlandsmál og hitta fólk úr grænlensku heimastjórninni (einnig þeirri færeysku). Hann lýsti þar yfir ánægju sinni vegna stórlega aukinna útgjalda Dana til varnarmála á Grænlandi. Danska ríkisstjórnin samþykkti í febrúar sl. 40 milljarða aukningu til málaflokksins. Þessi gríðarlega hækkun kom eftir mikinn þrýsting frá Washington. Berlingske hafði í ágúst 2019 eftir Peter Viggo Jakobsen, lektor í Varnarmálaakademíunni dönsku: „Það er feiknalegur þrýstingur á Danmörku til að fá okkur til að hafast meira að á Norðurheimskautssvæðinu sem þjónar bandarískum hagsmunum. Bandaríkin segja: 'Setjið upp hjálminn og komið með í bardagann'.“ https://www.berlingske.dk/nyheder/ekspert-danmark-er-under-gigantisk-pres-usas-budskab-er-spaend-nu-hjelmen Þetta var í anda Trumps sem pressaði mjög á NATO-bandamann að leggja meira fram til hermála. Danir höfðu sem sagt látið undan þessum þrýstingi og Blinken lýsti ánægju sinni með það.

Monday, April 26, 2021

Úkraína: Hver byggir upp spennuna?

(Birtist á Neistum  22. apríl 2021)

Spennustig er hátt í Úkraínudeilunni. Diplómatísk samskipti Rússa og Bandaríkjanna hafa líklega ALDREI verið verri. Rússar hóta árásaröflum öllu illu. Samkvæmt NATO stunda þeir «óréttlætanlega hernaðaruppbyggingu». Það gera þeir þó innan eigin landamæra. Hver magnar upp spennuna?

Sagan harkalega

Rússar eru stærsta þjóð í Evrópu. Þeir hafa ráðið stóru evrópsku austurléttunni vestan Úralfjalla og lengst austur um Síberíu nokkurn veginn óslitið í á fjórðu öld, frá dögum Péturs mikla, og raunar alveg frá því þeir hrintu í áföngum af höndum sér útþensluríki Mongóla, Gullnu hordunni.

Í Rússlandi ræður ríkjum mjög samþjöppuð auðstétt, kennd við fáveldi, óligarkí. Eignaskiptingin harla ójöfn – mætti að því leyti samlíkjast við stórþjóð í Vesturheimi, Bandaríkin. Ráðandi hugmyndafræði (eftir að Rússar létu af hvers konar sósíalisma) er þjóðernissinnuð íhaldssöm austurkristni. Réttindi minnihlutahópa eins og samkynhneigðra og hinseginfólks eru heldur bágborin, og félagafrelsið og útgáfufrelsið mættu vera betri, hafa þó æði oft verið verri. Eiríkur Bergmann kallar Rússland „valdboðsríki“ og mótmæli ég því ekkert.

Svo eru það utanríkis- og varnarmálin. Rússar og þjóðarleiðtogar þeirra búa á margan hátt í óblíðu ytra umhverfi. Þeir búa við harkalegan utanríkispólitískan veruleik. Eitt atriði er sléttlendið, landið er opið og berskjaldað í vesturátt. Útþenslusinnuð veldi hafa notfært sér það, og eftir miðaldir hafa allar innrásir í Rússland komið einmitt úr vestri. Pólsk-litháíska samveldið réðist þar inn í byrjun 17. aldar (hertók Moskvu 1610), Karl 12. Svíakóngur réðist þar inn á 18. öld, Napóleon hundrað árum síðar og Þjóðverjar bæði 1914 og 1941. Sovétríkin misstu a.m.k. 25 milljónir þegna sinna í seinni heimsstyrjöld, og eftirá var vesturhluti landsins eitt blæðandi flagsæri.

Áherslur Rússa í utanríkismálum byggja á þessari sögu. Eftir síðastnefnda hildarleikinn gripu þeir, Sovétrússar, til nokkuð harkalegra ráðstafana, og komu sér upp „stuðpúðabelti“ vestan við sig. Þeir áskiluðu sér þann rétt að tryggja að í belti ríkja vestan þeirra sætu þeim „vinsamleg“ stjórnvöld. Og „vinsamleg“ túlkun á því er sú að það hafi verið meiri öryggisráðstöfun en útþensluráðstöfun. Hafa má líka í huga að lönd eins og Búlagía, Rúmenía, Ungverjaland og einnig Finnland höfðu verið í bandalagi við Hitler á stríðsárunum. En svarið kom: í beinu framhaldi af stríðslokunum var NATO stofnað til höfuðs Sovétrússum árið 1949, undir bandarískri forustu.


Einstefnan eftir 1990

Síðan liðu fjórir áratugir. Þegar svo „stuðpúðabeltið“ og Warsjárbandalagið var að leysast upp 1990 og semja skyldi um sameiningu Þýskalands aftur og inngöngu þess í NATO voru Sovétleiðtogum gefin hátíðleg loforð: „Þannig verður það með sameinað Þýskaland í NATO. Sú staðreynd að við ætlum ekki að staðsetja NATO-heri handan við landsvæði Sambandslýðveldisins gefur Sovétríkjunum traustar tryggingar um öryggi“, lýsti aðalritari NATO Manfred Wörner yfir 17. maí 1990. https://www.nato.int/docu/speech/1990/s900517a_e.htm

Já, um hvað var samið við endalok Kalda stríðsins 1990? Der Spiegel skrifaði 26. nóvember 2009:

«Eftir að hafa talað við marga þá sem voru þarna viðriðnir og lagt mat á áður leynileg bresk og þýsk skjöl í smáatriðum hefur DER SPIEGEL komist að þeirri niðurstöðu að enginn vafi sé á að Vestrið gerði allt sem það gat til að gefa Sovétmönnum þá vissu að NATO-aðild væri útilokuð fyrir lönd eins og Pólland, Ungverjaland eða Tékkóslóvakíu». Sjá t.d. hér: https://consortiumnews.com/2016/07/10/europes-nato-ambivalence/

En eftir stutta bið – bið til ársins 1999 – var NATO-ríkjum í Evrópu skjótlega fjölgað um nákvæmlega helming (úr 14 í 28), alveg upp að vesturgluggum Rússlands! Þetta er það sem ég kalla „harkalegan utanríkispólitískan veruleik“, séð frá Moskvu. Valdakerfið í heiminum var „einpóla“, risaveldið aðeins eitt, NATO gleypti „stuðpúðabeltið“. En þegar stærsti granninn á vesturlandamærum Rússlands og næststærsta land Evrópu, Úkraína, gerði sig líklegt til að ganga í NATO ákvað Pútín Rússlandsforseti að reka hnefann hart í borðið og segja hingað og ekki lengra. Gerði það þó ekki fyrr en eftir að valdaskiptin í Úkraínu voru staðreynd.

Valdaskipti sem voru valdarán, litabylting af bandarísku vörumerki með bandarísk stjórnvöld djúpt innblönduð í uppþotið sjálft og takandi ákvarðanir um nýja ráðamenn. Victoria Nuland aðstoðarutanríkisráðherra heimsótti Kiev þrisvar á þeim fimm vikum sem mestu mótmælin stóðu, og stærði sig af margmilljón dollara stuðningi við stjórnarandstöðuna. Ofbledi á Maidan-torgi vakti andúðarbylgju gegn Janukovitsj forseta. En traustar heimildir eru fyrir því að mesta ofbeldið á torginu kom frá „mótmælendum“ úr öflugum hópum fasista sem voru vel vopnaðir. Í „byltingunni“ var lýðræðislega kjörinn forseti hrakinn frá völdum. Það gerðist m.a.s. eftir að náðst hafði samkomulag milli forsetans og stjórnarandstöðunnar, um að skipa skyldi þjóðstjórn og flýta kosningum, samkomulag sem utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands og Póllands ábyrgðust. En næsta dag var valdaránið framið og samkomulaginu nýja hent út um gluggann eftir að vopnaðar sveitir frá Maidantorgi hertóku þingið og forsetinn flúði borgina, og landið. Sjá t.d. https://www.counterpunch.org/2015/04/14/ukraine-the-truth/

Pútín gat sem sagt ekki hindrað valdaskipti í Kiev, og til varð afar andrússnesk ríkisstjórn í Úkraínu. Fyrsta verk hennar var að afnema stöðu rússnesku sem annað opinbert tungumál í landinu (um þriðjungur þegnanna hefur rússnesku sem fyrsta mál, helmingur þegnanna í austurhéruðunum) og þremur mánuðum síðar var Kiev-stjórn komin í stríð við austurhéruðin Donetsk og Lugansk. En Pútín átti a.m.k. eitt svar: Innlimun Krímskaga í Rússland, frá Úkraínu. Þjóðaratkvæðagreiðsla var skipulögð í skyndi á skaganum, reynt var sem sé að framkvæma innlimunina í einhverju samræmi við þjóðréttarlegar reglur (sem vissulega leyfa ekki einhliða breytingar á landamærum). Íbúar Krím hafa undanfarnar aldir verið yfirgnæfandi Rússar og skaginn því sögulega rússneskur. Við upplausn Sovétríkja árið 1991 höfðu Krímbúar (94% þeirra) í þjóðaratkvæðagreiðslu kosið sjálfsstjórnarstöðu sér til handa gagnvart Úkraínu, og höfðu slíka stöðu í fjögur næstu ár þar til Úkraínustjórn felldi það einhliða úr gildi 1995. Það var því vitað mál hvað þeir kysu í mars 2014.


Allt breyttist með innlimun Krím“

Íslenska utanríkisráðuneytið skrifaði 2016 í skýringu á stuðningi sínum við refsiaðgerðirnar gegn Rússlandi: „Innlimun Krímskaga af hálfu Rússlands í mars 2014 og aðgerðir rússneska hersins í austurhluta Úkraínu voru kaflaskil í samskiptum vestrænna ríkja við Rússland frá lokum Kalda stríðsins – og í raun frá lokum síðari heimsstyrjaldar.“ https://www.stjornarradid.is/media/utanrikisraduneyti-media/media/utn-pdf-skjol/utn-hagsmunamat---thvingunaradgerdir.pdf Þessi staðhæfing utanríkisráðuneytisins er röng þegar gefið er í skyn að innlimun Krím hafi verið upphaf Úkraínudeilunnar og þess vegna verið „kaflaskil“. Innlimunin var ekki upphaf, hún var svar Rússa við því sem ég hef hér nefnt „harkalegan utanríkispólitískan veruleik“. Rússar eru aðþrengdir, umkringdir, höfuðsetnir. Síðasta ógnin var valdaránið í Kiev.

Staðhæfingin um innlimun Krím sem „kaflaskil“ er hins vegar rétt m.t.t. þess hvernig hún hefur síðan verið notuð af NATO-blokkinni. Innlimunin er helsta ástæða og yfirvarp þeirrar blokkar fyrir víðtækum efnahagslegum refsiaðgerðum sem og hernaðarlegri uppbyggingu gegn Rússlandi. Í hinum vestrænu herbúðum er það túlkað svo að innlimunin hafi fyrst og fremst verið merki um útþenslu- og árásarstefnu Rússa. Og þessi útþenslu- og árásarstefna er sögð ógna bæði nágrönnum Rússlands og Evrópu í heild. Að Pútin geri sig líklegan til að ráðast á Evrópu, hann ógni heimsfriði.

Obamastjórnin brást við hart. John Kerry mælti: „Á 21. öld haga menn sér ekki bara í 19. aldar stíl og ráðast á annað land á fullkomlega fölskum forsendum.“ Utanríkisráðherra BNA hafði efni á slíku tali! Á Krím var fengið efni í nýtt kalt stríð og Bandaríkin fóru að slá taktinn ákaflega. Nokkru síðar hældist Biden varaforseti yfir því að Bandaríkin hefðu neyðst til að kúska Evrópulönd til refsiaðgerða gegn Rússum: „Það er satt, þau vildu ekki gera þetta, en aftur voru það bandarísk stjórnvöld og forseti Bandaríkjanna sem krafðist þess, og nokkrum sinnum urðum við að láta Evrópu skammast sín (we had to embarras Europe) til að fá þau til að standa upp og taka á sig efnahagsleg högg til að valda [Rússum] kostnaði.“ http://eldmessa.blogspot.com/2016/01/russum-refsa-hfur-domari-rettmt-refsing.html


Hvernig getur litla Ísland hjálpað til?

Í miðjum herbúðum Vestursins standa Íslendingar. Getur litla Ísland lagt stríðinu gegn Rússum eitthvert lið? Jú, aðstöðuna! Á Íslandi er „herinn“ á leiðinni til baka, í Keflavík er að taka á sig mynd varanleg herstöð með sívaxandi herbúnaði og hreyfanlegum herafla frá Bandaríkjunum og NATO. Nokkur hunduruð manns með reglulegu millibili. Sveitir kafbátaleitarflugvéla koma og fara, flugskýli stækkuð og flughlöð. Gámaíbúðir og svefnskálar hermanna í byggingu, fyrir a.m.k. 1000 manns á næstu þremur árum. Árlegar flotaæfingar NATO við Ísland.

En Ísland á að geta lagt herbúðum vestursins til enn meiri aðstöðu í stríðinu við Rússa. Síðastliðið haust kom Robert Burke flotaforingi og yfirmaður bandaríska sjóhersins í Evrópu í heimsókn til Reykjavíkur. Burke segir bandaríska herinn vera að „..íhuga aukna fjárfestingu hér á landi... Hann segir herinn líta sérstaklega til Austurlands þar sem slíkur staður væri „hentugri“ fyrir hernaðaraðgerðr en t.d. höfuðborgarsvæðið, vegna nálægðar við svæðin sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega... Ekki er búið að ræða við íslensk yfirvöld um þessi áform en hugmyndinni hefur verið velt upp, að sögn Burke.https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/30/skoda_varanlega_vidveru_bandarikjahers/

Flotaforinginn sagði sem sé að Bandaríkjaher liti sérstaklega til Austurlands „vegna nálægðar við svæðin sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega“. Þá er eins og við manninn mælt: Þremur mánuðum seinna hefur Guðlaugur Þór Þórarson utanríkisráðaherra samið frumvarp um breytingu á varnarmálalögum, um margfalda stækkun öryggissvæðisins á Gunnólfsvíkurfjalli niður í Finnafjörð. Tilefni þessarar breytingar á varnarmálalögum er „möguleg uppbygging stórskipahafnar“ í Finnafirði og auðvitað tekur frumvarpið „mið af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland“ https://neistar.is/greinar/ys-og-thys-ut-af-nato/

Ísland reynir alltaf að vera best í bekknum. Óskir Bandaríkjahers og viðbrögð íslenskra ráðamanna ríma alveg. Viðbrögðin fumlaus og hröð. Þau sýnast vera eftir pöntun. Andstaðan á þingi er engin. Svo er sálfræðihernaðurinn grundvallaratriði: Fjölmiðlarnir með RÚV í fararbroddi teikna upp óvinamyndina, stöðugt skýrari og stöðugt ljótari. Pútín er með Hitlersskegg. Xi Jinping er að fá það líka. Þetta er einfalt, bara að endurvarpa frá helstu fréttastöðvum Vesturblokkar, CNN, CBS, BBC... Þar fáum við NATO-veruleikann. Upplýsingastreymið er miðstýrðara en nokkru sinni. Enginn þarf að hugsa.