Saturday, December 17, 2016

Sögulegur sigur í Aleppo

Birtist á fésbók SHA 13. og 15. des 2016 
                                                 

Frelsun Aleppo eru mikilvæg tímamót. Staðgengislsstríð og valdaskiptaaðgerð NATO-velda og bandamanna í Sýrlandi endar með skelfingu, f. o.fr. af því þjóðin styður hana ekki. Vestræn pressa grætur beisklega örlög þeirra hryðjuverkaherja sem áttu að vinna verkið. Miklu er búið að kosta til. RÚV grætur, Stöð 2 grætur, Frbl. grætur, Mbl. grætur. Hér á skerinu erum við í herkví vestrænnar pressu.

Þessi færsla olli mikilli umræðu á fésbókarsíðu SHA og sýndist sitt hverjum. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir skrifaði: "Mikið finnst mér ótrúlega dapurlegt að lesa þetta. Ég á satt að segja bágt með að skilja hvað nákvæmlega þú ert að vilja í samtökum sem leggja áherslu á afvopnun og herleysi", en nokkrir tóku undir með sjónarmiði færslunnar. Stefán Pálsson skrifaði: "En friðarsinnar eru komnir á verulega hálan ís (svo vægt sé til orða tekið) ef þeir fagna hernaðarsigrum. En að því sögðu veit ég vel að það eru ekki allir hér í þessari grúppu sem skilgreina sig sem friðarsinna (pacifista)." Guttormur Þorsteinsson sagðist ekki skilja af hverju "hernaðarandstæðingar ættu að styðja og fagna með stjórnvöldum sem vissulega hafa gerst sek um stríðsglæpi og pyntingar í stórum stíl." Því svaraði Stefán Pálsson: "Ég leyfi mér að fullyrða að þessi sjónarmið sem þú lýsir séu mikil minnihlutaskoðun innan SHA, en það heyrast vissulega ansi fjölbreytileg viðhorf á þessari síðu." Ég (ÞH) bætti þá við eftirfarandi færslu.

Eigum við að gráta yfir falli vígisins í Austur-Aleppo? Ég geri það ekki. Það var frekar við hæfi að gráta þegar aðvífandi uppreisnarherir tóku borgarhlutann 2012. Rétt hjá Stefáni Pálssyni, ég aðhyllist ekki friðarhyggju (pacifisma) eins og hann og stærstur hluti evrópskrar friðarhreyfingar gerir. Sem neitar að greina á milli réttláts og óréttláts stríðs (S.P. segist þó ekki leggja alla stríðsaðila að jöfnu, sem er gott). Frelsun Aleppo er sögulegur og frækilegur sigur Sýrlendinga yfir staðgengilsherjum NATO-velda og yfir vestrænni heimsvaldastefnu. Í flokki með sigrinum í Stalíngrad 1942, Díen Bíen Pú 1954 og Saigon 1975. Þegar Saígon féll fagnaði ég líka þó þeim sigri hafi örugglega fylgt grimmdarverk í borginni. Talandi um grimmd: Fjölmargar friðarhreyfingar hafa keypt hina skipulegu skrímslagerð heimsvaldasinna gagnvart Assadstjórninni, þá útpældu og skipulegu skrímslagerð sem er stór hluti af hernaðartaktík Vestursins. Hámark skrímslagerðarinnar hefur verið í fréttum af Aleppó og líklega aldrei meiri en undanfarna daga.   

Tuesday, December 6, 2016

... munum hætta að steypa stjórnvöldum...

(Birt á fésbókarsíðu SHA 5. des 2016)
                 

Skv. íslenskum fjölmiðlum er aðalatriðið í „fyrirbærinu Trump“ rasismi og kvenfyrirlitning, enda var það sú lína sem heimselítan á Austurströnd USA markaði – og tala hins vegar sem minnst um raunveruleg áhugaefni almennings, efni sem popúlistinn Trump spilaði á. Trump vann kosningarnar á að tala gegn hnattvæðingunni, eins og ég hef áður skrifað um. Hann sigraði líka út á það að hafna stríðsstefnu Clintonanna, Bushanna og Obama. Að því leyti eru kosningarnar merki um heilbrigði frekar en sjúkleika almenningsálitsins. En breytingin er auðvitað ekki orðin né björnin unninn. Obama vann líka kosningarnar 2008 út á friðsamlegri stefnu en mótherjinn, og sveik það allt rækilega. Ef dæma skal af reynslunni er líklegra en hitt að svipað gerist aftur. Vald „The Military Industrial Complex“ og Wall Street er óskert.

Samt er eitthvað að gerast í utanríkisstefnu sem e.t.v. er raunverulegt. Í ræðu í Cincinnati 1. desember lagði Trump ennþá áherslu á að valdaskiptaaðgerðum USA yrði að linna. M.a. sagði hann: „ We will pursue a new foreign policy that finally learns from the mistakes of the past. We will stop looking to topple regimes and overthrow governments, folks... 6 trillion dollars [wasted] in the Middle East. Our goal is stability, not chaos. We want to rebuild our country. We will partner with any nation that is willing to join us in the effort to defeat ISIS and radical Islamic terrorism. In our dealings with other countries, we will seek shared interests wherever possible and pursue a new era of peace, understanding, and good will.“ Donald Trump er enginn spámaður, og markmið hans er imperíslískt: „Make America great again!“ En sennilega má skoða „raunsæi“ hans sem aðvörunarljós í mælaborðinu, m.ö.o. merki um að hluti yfirstéttarinnar sjái og viðurkenni að skrjóðurinn er orðinn lélegur en ekur bara lengra og lengra út á fenjasvæðið.


Trump nefnir í ofanskráðri klausu mikilvæga ástæðu til þess að breyta þurfi um stefnu, nefnilega kostnaðinn. Á þessari öld er stríðskostnaður Bandaríkjanna sex þúsund milljarðar dollara. Obama hefur í sinni stjórnartíð varpað sprengjum á 7 lönd og staðið að valdaránum í Líbíu og Úkraínu, og hefur að stórum hluta rekið stríðin á lánum svo skuldir USA eru hrollvekjandi á flesta mælikvarða. Og þessar he
rnaðarlegu valdaskiptaaðgerðir eru ekki bara dýrar, þær hafa flestar gengið mjög brösuglega eða illa. Og sú síðasta, Sýrland, er að tapast á vígvellinum. „Raunsæið“ sem Trump sýnir a.m.k. í orði – og þar með hluti elítunnar vestur þar – felst í því að sjá að þetta getur ekki gengið óbreytt áfram, horfast í augu við að staða USA er breytt.

Thursday, December 1, 2016

Frelsun Aleppo (2)

(Birtist á fésbókarsíðu SHA 30. nóv 2016)
[sjá grein með sömu yfirskrift frá febrúar sl.

Frelsun Aleppo gerist nú hraðar. Þessi stærsta borg Sýrlands hefur verið klofin í Vestur og Austur frá 2012 þegar „uppreisnarmenn“ náðu austurhlutanum á sitt vald. Nú býr um 1,5 milljón í vesturhlutanum sem Sýrlandsstjórn hefur alltaf haldið. Um hálf milljón hefur áður flúið frá austurhluta til vesturhluta borgarinnar. Eftir að austan eru 200-300 þúsund íbúar, þ.m.t. vígamennirnir (meirihlutinn líklega erlendur). Vígahóparnir – studdir NATO-veldum, Tyrklandi og Persaflóaríkjum – reyndu í október að hefja nýja sókn, en mistókst. Sýrlandsher hefur mikið til tekist að loka aðflutningsæðunum frá Tyrklandi og tekur nú eitt hverfið af öðu austan til í borginni, og nýjum hópum þjáðra íbúa hefur tekist að flýja. „Signs that the dogged resistance to the Syrian Army and Russian airforce in eastern Aleppo may be crumbling have started to appear as thousands of people fled to areas under government control...“ skrifaði Guardian sl. sunnudag. Þessir flóttamenn munu segja jafn ljóta sögu og flóttamennirnir frá Mosul sem fengið hafa gott pláss í íslenskri pressu undanfarið (UN Women: „Konum blæðir“). Mosul hefur verið á valdi ISIS á meðan „it's primarily al-Nusra who holds Aleppo“ eins og Steve Warren talsmaður Pentagon hefur viðurkennt. Við kunnum söguna um hina grimmu heri Assads og Rússa sem einkum herja á skóla og sjúkrahús og gegn þeim illa vopnuð „alþýðuuppreisn“, og loks um fulltrúa mannúðarinnar: mennina með hvítu hjálmana. En sú saga og sú mynd var sviðsett fyrir Vestrið. Stríð Vestursins gegn Sýrlandi tapast, og spilaborg lyganna hrynur.


Saturday, November 26, 2016

Trump, Pútín, stríðshættan


Mun Donald Trump breyta utanríkisstefnu USA? Ég bendi hér á grein með brýnum spurningum og varkárum ályktunum um utanríkisstefnu Trumps. Eftir Stephen Kinzer á Boston Globe. Stutt og skýr. Kinzer hefur samið fjölda bóka, m.a. nokkrar um valdaskiptaíhlutanir USA.  

Í kosningabaráttunni spilaði Donald Trump sóló. En það er þyngra að snúa stjórnkerfinu á fullum skirðþunga en halda kosningaræður. Og þeir fáu þungaviktarmenn sem fylgdu honum alla leið (þ.á.m. líklegir ráðherrar) eru hluti af þessu mannætukefi. Þau svið utanríkismála sem Kinzer telur samt að geti breyst tengjast einkum stefnunni gagnvart Rússum, sem myndi þýða minni líkur á stórstyrjöld í bili: "First, he [Trump] wants to de-escalate our spiraling conflict with Russia. For whatever reason, he has rejected the playbook view that President Vladimir Putin is a mad thug whose policies threaten our national security. If he remains firm and pulls us out of the spiral of US-Russia confrontation, he will be stepping back from the conflict that has seemed more likely than any other to explode into nuclear war. Trump’s unorthodox view of Russia leads to his second wise foreign policy instinct, about the horrific war in Syria... It tells him that Syria poses no threat to the United States, and that our priority there should be crushing ISIS, not overthrowing the government... The third way Trump’s foreign policy may break with the playbook has to do with his view of NATO... He doesn’t seem to like the idea that the United States could be dragged into great-power war over a local dispute in the Baltic or the South China Sea."

Tuesday, November 15, 2016

Sigur Trumps: viðbrögð gegn ríkjandi hnattvæðingarþróun og íhlutunarstefnu




Hér má sjá mjög athyglisvert viðtal við Donald Trump, tekið 12. nóvember 2016. Afar fjarri málflutningi Hillary Clinton. Hvernig má skýra sigur Trumps? Annars vegar held ég að hann skýrist sem viðbrögð gegn hnattvæðingarþróun síðustu áratuga (einkum útvistun og afiðnvæðingu í USA) sbr. slagorð hans: "Americanism, not globalism is our credo." Mætti segja að hann kalli á efnahagslega einangrunarstefnu sem svar. Sigur Trumps er þá samfélagsleg höfnun á þeirri þróun, en auðvitað er önnur saga hve vel gengur að snúa henni við. Hins vegar er svo það sem áðurnefnt viðtal snýst um. Þar hafnar hann hinni trylltu íhlutunar- og valdaskiptastefnu sem fylgt hefur verið og Hillary er þvottekta fulltrúi fyrir. Kannski má líka kalla svar Trumps þar aukna einangrunarstefnu. Eða kalla það utanríkisstefnu "raunsæis" sem viðurkennir að hernaðarleg heimsyfirráðastefna USA er að lenda í strandi ellegar heimsstyrjöld - og treysta þurfi á aðrar leiðir til að bjarga heimsveldinu. En the military industrial complex er auðvitað ekki búið að viðurkenna það. Pólitísk færni Trumps felst í að bregðast við straumum og stemningum. Hvort hann gerist svo baráttumaður sömu stemninga í valdastól er annað mál.

Kosningarnar – árangur og lærdómar


(birt á bloggsíðu Alþýðufylkingarinnar 11. nóv 2016)

Það  var óraunhæft var að reikna með að fylgi Alþýðufylkingarinnar teldist í prósentum. 0.3% er kannski í lægra lagi eftir býsna vasklega kosningabaráttu, þó er það ekki afleit byrjun. Það voru 575 manns sem kusu okkur.

Það er vel kunnugt, og auðskilið, að fólk flest kýs taktískt og mjög var fókusað á vegasaltið: stjórnarflokkarnir gegn vinstra bandalagi. Það að greiða R atkvæði þýddi að láta EKKI lóð sitt á umrætt vegasalt – og vera þar með óhjákvæmilega sakaður um að „hjálpa íhaldinu“! Fólkið sem greiddi okkur atkvæði vissi vel að atkvæðið nýttist ekki til þingsæta en vildi væntanlega í staðinn efla Alþýðufylkinguna sem raunverulegan vinstri valkost. Sem sagt nokkuð staðfast fólk sem tók það að byggja flokk til framtíðar fram yfir áhrif á stjórnarmyndunarbrölt hér og nú.

Ég var skeptískur í byrjun og sagði að fyrir byltingarsinnaðan flokk (sem vill steypa auðvaldinu) hefði lítið upp á sig að bjóða fram til þings áður en fólk hefði neitt séð til hans, þ.e.a.s. áður en hann hefði eitthvað gert sig gildandi í stéttabaráttunni. Fyrir því er nokkur reynsla að alþýða fer ekki að treysta róttækum sósíalistum nema hún hafi handfasta reynslu af þeim í stéttabaráttunni. Mælskur málflutningur einn nægir ekki. Það er nefnilega svo að málflutningur byltingarsinna er hreint ekkert meira lokkandi fyrir alþýðu en t.d. málflutningur endurbótasinnaðra krata. M.a.s. getur hann að nokkru virkað fráhrindandi, t.d. tal um nauðsyn harðrar stéttabaráttu, hvað þá tal um nauðsyn byltingar. Það sem á endanum verður að skera úr í málinu og skilja hafrana frá sauðunum er reynsla alþýðunnar í stéttabaráttunni og sá stuðningur sem hún fær þar frá ólíkum stjórnmálaöflum.

Og það var nóg af lokkandi kratískri endurbótastefnu á boðstólnum. VG, Samfylking, Björt framtíð og Dögun eru flokkar sem einkennast af dæmigerðum kratískum áherslum (ásamt mismiklu innslagi af græna litnum m.m.). Og Píratar, Flokkur fólksins og Íslenska þjóðfylkingin höfðu að stórum hluta áherslur í sömu átt (hins vegar eru Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn markaðshyggjuflokkar, og að hluta til Framsókn líka). Sem sagt kratisminn var mjög ríkulega í boði, og alls ekki fluttur af minni mælsku en stefna Alþýðufylkingarinnar. Og ef fólk hafði fengið nóg af gömlu vinstri flokkunum (VG, Samfylkingu) var þarna slatti af nýjum og nýlegum valkostum – aðrir en við – til að hlusta á og taka afstöðu til. Íslenskri alþýðu er vorkunn að sjá ekki út úr þessu bleika skýi.

Ég er samt ekki þess sinnis að framboðið hafi verið mistök. Framboðið sem slíkt tókst vel og var framkvæmt af þrótti, meiri þrótti en ég hafði búist við. Róttæk alþýða og róttæklingar almennt vita nú af Alþýðufylkingunni. Kosningarnar ýttu á að Alþýðufylkingin mótaði róttæka stefnu við íslenskar aðstæður (stefnu sem er þó síst hafin yfir gagnrýni) og náði að kynna hana talsvert. Kosningapróf („Stundarinnar“) benda til að stefnan hafi fallið í góðan farveg þó ekki hafi skilað sér í kjörklefann.

Í svona ströggli fæst líka reynsla, það lærist að afhjúpa veilurnar og mótsagnirnar í málflutningi mótherja, ekki síst gerfivinstri- og hentistefnuflokka, t.d. afhjúpa VG í NATO-málum, ESB-málum, umhverfismálum síðustu ríkisstjórnar, afhjúpa tilræði ESB-flokkanna við sjálfstæðið, misskiptingarpólitík Sjálfstæðisflokksins...

Sem sagt: kosningaræður geta verið nytsamlegar en þær breyta ekki samfélaginu. Enda berst sósíalisminn okkur ekki frá Alþingi. Nú þarf að reka stéttabaráttu á grundvelli stefnunnar og sanna sig í starfi.

Tuesday, November 8, 2016

Alþjóðamálastofnun og RÚV til skammar

(Birtist á fésbókarsíðu SHA 1. nóv 2016)
Opinn fundur um stríðið í Sýrlandi var haldinn á vegum HÖFÐA Friðarseturs Reykjavíkurborgar og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands miðvikudaginn 2. nóvember. Kominn tími til að sinna þessari mestu pólitísku krísu og stríðshörmungum samtímans. Fenginn var landflótta Sýrlendingur, Khattab al Mohammad, til að koma og tala um Sýlandsstríðið í fyrirlestrarsal Þjóðmingasafnsins. Daginn eftir fékk Mohammad svo vænt og „athyglisvert“ viðtal á RÚV.
Það er skemmst frá því að segja að hann segir enn einu sinni þá sögu sem við höfum fengið inngefna í sífellu í íslenskum fjölmiðlum, ekki síst RÚV, síðan 2011, að Sýrlandsstríðið sé grimmum harðstjóra að kenna. Assad barði sumsé niður „friðsamleg mótmæli“ og „sigaði her og lögreglu á varnarlaust fólk“.
Spurður um „þátt grannríkja“ í stríðinu segir hann að athæfi Assads gagnvart eigin fólki hafi „gert óhjákvæmilegt að aðrir drægjust inn í það“. Sem sagt þáttur t.d. Sáda og Tyrkja finnst honum "óhjákvæmilegur".
Það helsta sem Mohammad bætir við RÚV-tugguna er sú kenning hans að hryðjuverkin í Frakklandi og Evrópu séu framin af „flugumönnum Assads“. Því til stuðnings hafði hann eftir Muallem utanríkisráðherra Sýrlands að Evrópa yrði „þurkuð út af kortinu“ ef hún skipti sér af Sýrlandi, og „æðstiklerkurinn í Damaskus“ hefði sagt að Assad og hans menn væru „tilbúnir að senda hryðjuverkamenn hvert sem er í Evrópu“. Ofan á allt þetta gagnrýndi Khattab al Mohammad svo Bandaríkin fyrir að „aðhafast ekkert“ í málinu!
Það er hneyksli að Aljóðamálastofnun skuli setja nafn sitt við slíkan fyrirlestur, hneyksli líka að Jón Guðni Krisjánsson hjá RÚV skuli bera slíkt á borð og hvergi gera krítíska athugasemd við svona málflutning. Sjá frétt RÚV:

Wednesday, November 2, 2016

Aleppo: Sviðsettar barnamyndir og krafa um „loftferðabann“

Barnamyndirnar frá Aleppo þjóta um eterinn og steypast yfir okkur gegnum sjónvörp, dagblöð og samfélagsmiðla. Vaskir menn, gjarnan með hvíta hjálma, hlaupa út úr hrynjandi húsum með börn í fanginu. Myndunum fylgir jafnan sú skýring að þetta séu fórnarlömb loftárása Sýrlandshers („tunnusprengjurnar“) ellegar Rússa. Myndirnar þjóna nokkrum brýnum hlutverkum: a) að djöfulgera Assad forseta og hans menn, b) að vinna fylgi kröfunni um að dæma Sýrlandsstjórn og Rússa fyrir stríðsglæpi – í Öryggisráðinu og víðar og c) að kalla eftir „loftferðabanni“ á Sýrland sem í framkvæmd þýðir fullgildur lofthernaður og/eða innrás NATO-veldanna í Sýrland. Hér skiptir líka máli að Hillary Clinton hefur nú stillt sér kröftuglega á bak við hugmyndina um „loftferðabann“, andstætt bæði Donald Trump og Barak Obama.
"Drengurinn í sjúkrabílnum" - Omran litli í heimspressunni

Omran litli – „andlit Aleppo“
Ein mynd hefur farið öðrum meiri sigurför um heiminn síðan hún birtist í ágúst síðastliðnum: myndin af „drengnum í sjúkrabílnum“ sem ku heita Omran Daqnees. Sjá Wikipedíu um hann. Samkvæmt fréttinni bjó Omran litli á svæði uppreisnarmanna í Aleppo. Ljósmyndarinn Mahmoud Raslan bjó aðeins 300 metra þaðan frá, og vaknaði því upp við sprengjuárás stjórnarhersins svona nærri. Sem betur fór voru „Hvítu hjálmarnir“ nærstaddir og björguðu Omran og fjölskyldu hans.
Fyrir skemmstu fullyrti Assad Sýrlandsforseti í svissnesku sjónvarpsviðtali að umrædd mynd væri sett á svið og dró fram aðrar myndir af drengnum og systur hans í öðrum kringumstæðum annars staðar í borgarrústunum. Yfirleitt eru þau þar í fanginu á einhverjum „Hvítu hjálmanna“, og Assad fullyrti að þetta væru hannaðar sviðsmyndir.
Myndirnar hafa verið krítískt skoðaðar af fleirum, bæði áður og enn frekar eftir viðtalið við forsetann. Moon of Alabama hefur nú birt nokkrar og mismunandi myndir af þeim systkinum, og ekki fer á milli mála við skoðun og samanburð að börnin eru klessumáluð og förðuð, og eru í leiksýningum. Þarna er sem sé einhver auglýsingaiðnaður á bak við. Einhvers konar barnaklám sem fréttastofurnar styðja og fær því mikla dreifingu.

Sunday, October 23, 2016

Andlit Aleppo - Enn um "Hvítu hjálmana"

(birt á Fésbókarsíðu SHA 22. okt 2016)
Sýrlandsforseti segir systkinin klessumáluð

Moon of Alabama fjallar um afhjúpun Assads Sýrlandsforseta á frægri blaðaljósmynd af "drengnum í sjúkrabílnum" m.m. sem sagður var fórnarlamb tunnusprengjuárásar Assads. RÚV fjallaði um Assad-viðtalið sl fimmtudag. Moon of Alabama staðfestir að þessar stríðs- og hamfaramyndir eru framleiddar af "Hvítu hjálmunum" - sem kostaðir eru af bandarísku þróunarstofnuninni USAID - og vestrænum almannatengslafyrirtækjum. Þetta er iðnaður. Tilgangur sviðssetninganna er að djöfulgera Assad og kalla eftir "loftferðabanni" á Sýrland (sbr. Líbíu). Sjá umfjöllun Moon of Alabama.

Saturday, October 22, 2016

Ísland og umheimurinn - engin andstaða

(Birt á fésbókarsíðu SHA 21. okt 2016)
Horfði í gærkvöld á frambjóðendur tala um umheiminn (Ísland og umheimurinn, 20. okt). Þar var ekki mikið fjallað um ófriðarútlitið mikla í heiminum árið 2016. Sókn NATO í austur, inn að stofuglugga Rússa? - Ha? Stofuglugga? Um innikróun Kína með perlufesti kjarnorkuherstöðva og flotauppbyggingar á Kyrrahafi? - Perlufesti hvað? Eða um styrjaldaseríu og valdaskiptaaðgerðir Bandaríkjanna og Vestursins í Miðausturlöndum? Nei, þáttastjórnendur nefndu aðeins styrjaldirnar sem einn þátt í því að skapa flóttamannavanda en tóku fram að ekki þyrfti að tala um þær. Ekki var heldur minnst á þá yfirvofandi ógn að fá einn harðvítugasta hernaðarsinna okkar daga, Hillary Clinton, í Hvíta húsið? 

Sko, þáttastjórnendurnir gáfu sér þær forsendur að helsta ógn í alþjóðamálum stafaði af framferði Rússa á Krím. Þessu mótmælti enginn þátttakandi. Þeir studdu allir viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum, nema Inga Sæland, Flokki fólksins, sem hafnaði okkar þátttöku í þeim á grundvelli viðskiptahagsmuna okkar. Í samhengi við "meiri fyrirferð Rússa en áður" og "loftrýmisgæsluna", var Ari Trausti (VG) spurður,um þá afstöðu VG að vilja slíta samstarfinu við NATO. Hann sagði ekkert ljótt um NATO en bara: "Það hefur verið á dagskránni, já." Bætti svo við: "En klárt mál að það er meirihlutaafstaða innan VG og þar við situr." Aumlegt var það og tannlaust. Það er greinilega engin stjórnarandstaða í utanríkismálum meðal flokkanna á Alþingi. Og að frátalinni Alþýðufylkingunni, er engin andstaða heldur hjá nýju framboðunum,

Sunday, October 16, 2016

Mosul og Aleppo - veruleiki og tungutak

(Birt á fésbókarsíðu SHA 16. okt 2016
Í frétt RUV núna 15. október segir: "Massud Barzani, leiðtogi Kúrda í Írak, segir að undirbúningi fyrir árás á borgina Mosul sé lokið og ekkert til fyrirstöðu að láta til skarar skríða... Allt að ein milljón manna kunni að hrekjast á vergang vegna þeirra. Barzani sagði að forystumenn Kúrda og ráðamenn í Bagdad hefðu ákveðið að skipa sameiginlega aðgerðastjórn sem annast myndi skipulag og hafa umsjón með þróun mála í Mosul eftir að vígamenn hefðu verið hraktir þaðan. Barzani kvaðst vona að allt færi vel og að íbúar Mosul yrðu frelsaðir undan harðstjórn Íslamska ríkisins." Íhugum þetta. Ein milljón mun fara á vergang! Við heyrum lítið af vorkunnsemi Vestursins gagnvart íbúum Mosul. Þó er neyðin þarna stærri í sniðum en í Austur-Aleppo þar sem aðeins um 200 þúsund íbúar eru eftir. Það hefur trúlega með það að gera að í Mosul er það ekki hinn illi Assad sem reynir að sigrast á uppreisnaröflunum heldur Íraksstjórn og sérstaklega kúrdneski USA-leppurinn Barzani.

Það sem við heyrum af sannleik um Íraksstríðið í vestrænni pressu er helst það sem ráðamenn hermála stöku sinnum „missa út úr sér“. Nú snýst fréttaflutningurinn mest um borgina Aleppo. Ráðamenn á Vesturlöndum reyna að höfða mál gegn Assad/Rússum fyrir stríðsglæpi í Aleppo. Við fáum að heyra að þar séu hófsöm uppreisnaröfl og saklausir borgarar undir stöðugu regni af tunnusprengjum frá Assad með aðstoð Rússa. En við hverja berst Assad í Aleppo? Á fréttamannafundi í apríl í vor talaði Seve Warren ofursti, talsmaður Pentagons, um Aleppo og „missti út úr sér“ mikilvægt atriði, að það væri hin opinbera Al Kaídadeild, Al-Nusra, í Sýrlandi sem væri aðalaflið í andspyrnunni gegn Assad í borginni: „That said, it's primarily al-Nusra who holds Aleppo.“ Einu sinni (2001) þótti sjálfsagt að fara í stórstríð við heilt land, Afganistan, til að jafna um Al Kaída, en öðru máli gegnir ef Sýrlandsstjórn vill endurheimta stærstu borg sína frá sömu öflum. Svona er réttlætið teygjanlegt.

Sýrlandsstríðið er innrásarstríð

(Birt á fésbókarsíðu SHA 13. okt 2016)
Rætt er um eðli Sýrlandsstríðsins. Ég segi, það er DULBÚIÐ sem borgarastríð en er fjölhliða INNRÁS Vestursins (undir forustu USA) og svæðisbundinna bandamanna - má líka kalla það fjölhliða valdaskipta-aðgerð. Nokkrar hestu hliðar innrásarinnar eru: 1) Það að leyfa Persaflóaríkjum að vopna trúarvígamenn (langtífrá "hófsama") frá 100 löndum til uppreisnarstríðs. 2) Það að NATO leyfi meðlim sínum, Tyrklandi, að halda opnum ótal aðflutnings- og þjónustuæðum til hryðjuverkahópanna. 3) Vesturblokkin öll, viðurkenndi árið 2012 „Þjóðareiningu“ uppreisnarhópa – National Coalition – sem hið lögmæta stjórnvald Sýrlands, sem þýðir auðvitað það að Vestrið stillir sér á bak við uppreisnina. 4) Viðskiptabann. Bandaríkin lögðu viðskiptabann á Sýrland frá 2004 (hafa hert það síðan) en ESB gerði hið sama 2013. 5) "Bandalagið gegn ISIS" (stóru NATO-veldin plús Persaflóaríki) hefur nú gert 111 þúsund sprengjuárásir (sorties, tölur frá Pentagon) á Sýrland og Írak, 147 árásir á dag í rúm 2 ár. 6) Þó Persaflóaríkin séu í aðalhlutverkum í að vopna sýrlensku uppreisnina stunda Bandaríkin (gegnum CIA) líka verulegan vopnaflutning til hennar. Breska hermála-upplýsingaþjónustan Jane´s greindi t.d. frá einum skipsfarmi með um 1000 tonn af austur-evrópskum léttavopnum, skipað út frá borginni Constanta í Rúmeníu og til Sýrlands gegnum Tyrkland og Jórdaníu í desember sl. Kostað af CIA. Borgarastríðs-dulbúningurinn nær ekki að fela hið rétta eðli þessa svívirðilega innrásarstríðs.

Clinton og bandarísk yfirvöld hafa alltaf vitað að vinir þeirra fjármagna ISIS og Al Kaída

(birtist á fésbókarsíðu SHA 12. október 2016)
WikiLeaks er farinn að birta tölvupósta John Podesta, kosningastjórna Hillary Clinton, til hennar frá 2014. Í pósti 19. ágúst þ.á. segir hann um ISIS/ISIL og Sýrlandsstríðið: „the governments of Qatar and Saudi Arabia,which are providing clandestine financial and logistic support to ISIL and other radical Sunni groups in the region.“ Rúmum mánuði seinna talaði Joe Biden varaforseti við Harvard-stúdenta, einnig um ISIS og bandamenn USA. Hann sagði að ISIS væri „sköpunarverk bandamanna okkar“ og nefndi sérstaklega Tyrkland, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádi Arabíu: “They were so determined to take down Assad and essentially have a proxy Sunni-Shia war, what did they do? They poured hundreds of millions of dollars and tens, thousands of tons of weapons into anyone who would fight against Assad—except that the people who were being supplied were al Nusra and al Qaeda and the extremist elements of jihadis coming from other parts of the world.” Það blasir við: Obamastjórnin hefur vitað frá upphafi hvaðan peningarnir streymdu til ISIS og Al Kaída. Hitt skiptir enn meira máli: Hvorki í Sýrlandi né í Jemen né annars staðar gætu Sádar og aðrir olíufurstar staðið fyrir stórstyrjöldum nema hafa til þess öruggan stuðning frá USA.

Friday, September 30, 2016

Loftferðabann í Sýrlandi? (og umræða um gagnsemi SHA)

(birt á fésbókarsíðu SHA 26. september 2016)
Yfirmaður bandaríska herráðsins, Joseph Dunford, mælir með svæðisbundnu "loftferðabanni" yfir Sýrlandi, að kyrrsetja sýrlenskar og rússneskar flugvélar: “I do agree that Syrian regime aircraft and Russian aircraft should be grounded.” Og Kerry segir: "We must move forward to try to immediately ground all aircraft flying in those key areas..." Hverjir eru "we" sem eiga að framfylgja því? Jú Bandaríkin og bandamenn þeirra, enda tekur Dunford fram: “I would not agree that coalition aircraft ought to be grounded.” Fordæmin um "loftferðabann" eru ófögur. Bandaríkin, Bretar og Frakkar settu loftferðabann á Írak 1991 - sem var meginforsenda fyrir árangursríku árásarstríði gegn landinu - og héldu því svo til streitu allt fram að seinna Íraksstríði. Öryggisráðið setti á loftferðabann yfir Bosníu-Herzegóvínu 1993-95 gegn Bosníuserbum og flugher Serbíu. Því var framfylgt af NATO. NATO setti loftferðabann yfir Kosovo 1999 til að geta gert loftárásir á her Serba og síðan fullt stríð úr lofti gegn Serbíu. Meirihluti Öryggisráðsins samþykkti ályktun nr. 1973 um loftferðabann yfir Líbíu, sem NATO framfylgdi með fullu stríði úr lofti sem sprengdi Líbíu í tætlur. Dunford gerir sér grein fyrir að loftferðabann yfir Sýrlandi er alvörumál: “Right now… for us to control all of the airspace in Syria would require us to go to war against Syria and Russia.” Segir hann, án þess að flökra né ropa. Hvað þarf stríð Vestursins gegn Sýrlandi að ganga langt áður en t.d. SHA sjá ástæðu til að hreyfa legg eða lið?



Sölvi Jónsson SHA eru allt of lin samtök rétt eins og Rússar. Þeir samþykktu að draga sig að mestu út úr Sýrlandi þegar þeir áttu nánast bara eftir að greiða uppreisnaröflunum náðarhöggið. Ég veit ekki hvað þeir voru að spá. Þeir eru alltof dipló.

Halldor Carlsson SHA eru takmörkuð, eins og Kata (sem við viljum samt sem næsta forsætisráðherra): skilja hvað við erum að tala um, en þora að viðurkenna sirka helminginn.
hinir eru ekki hætishót betri, rússadindlarnir (Chossoudovsky td), bakka alltupp sem rússar gera, td gagnvart smáþjóðum. öh. same shit, take yr pick..

Björgvin Rúnar Leifsson SHA eru handónýt samtök, því miður

Sunday, September 25, 2016

"Hvítu hjálmarnir" bera börn úr rústum og biðja um loftferðabann

(birt á fésbókarsíðu SHA 24 september 2016)



Áróðursstríðið er grundvallarþáttur stríðsins, m.a. Sýrlandsstríðsins. Um skeið hefur í heimspressunni borið mjög á myndum tengdum samtökunum Syrian Civil Defence sk „Hvítu hjálmunum“. Einkum eru þar bjargvættirnir með hvítu hjálmana sýndir bjarga börnum úr rústum í Aleppó. Öll stærstu blöð og fréttastofurnar USA og Vestursins birta um þá lofgreinar. Holliwood tekur þátt í þessu enda þyrlast sterkar og hjartnæmar áróðursmyndir út um heimsbyggðina, hannaðar til að hitta fólk í hjartastað og mikil áhersla á barnamyndirnar. Ein slík var af Orman litla, „drengnum í sjúkrabílnum“ (sjá hér að ofan), sem „Hvítu hjálmarnir“ „björguðu“. Fréttastofan NBC News kallar „Hvítu hjálmana“ "Angels on the Front Line" og rekin er sterk herferð vestan hafs fyrir því að veita samtökunum friðarverðlaun Nóbels.
Samtökin kalla sig „frjáls félagasamtök" (non governmental, NGO) en fá samt opinbert fé frá a.m.k. fjórum NATO-löndum, USA, Bretlandi, Hollandi, Danmörku. Wikipedia skrifar að ein mikilvæg stofnun á vegum bandaríska utanríkisráðuneytisins „USAID now appears to be the largest donor, having contributed at least $23 million since 2013“
Það er mikilvægt er að gera sér grein fyrir að samtökin starfa bara á svæðum uppreisnarmanna (jíhadista) og birtar hafa verið myndir af hvíthjálmamönnum í bland við Al Nusramenn. Samtökin hafa sér líka pólitíska stefnu og foringjar þeirra krefjast „loftferðabanns“ gegn Assadstjórninni, sem þýðir fullan lofthernað Vestursins gegn Sýrlandi. Þetta minnir mjög á stúlkuna Nayira sem vitnaði um það 1991 hvernig hermenn Saddams Húseins hefðu ráðist á „súrefniskassabörnin“ í Kúvaít og svo hjartnæman vitnisburð Colins Powel hjá Öryggisráðinu 2003 um gjöreyðingarvopn Saddams, sem sagt hluti af stríðsæsingaáróðrinum.

Obama friðardúfa í andsnúnu stjórnkerfi?

(Birt á fésbókarsíðu SHA 14. september 2016)
Ekki þarf að búast við að Bandaríkin standi heil á bak við vopnahléssamkomulagið (um Sýrland) sem þeir gerðu við Rússa um daginn. Að einhverju leyti vegna mótsagna í stjórnkerfinu (hermálaráðuneytið virkar herskárra en utanríkisráðuneytið) en ennþá frekar af því allt stríðið er blekkingarleikur af þeirra hálfu. Það er fyrir hendi ákveðin býsna algeng tilhneiging til að gera Obama að friðelskandi manni í andsnúnu stjórnkerfi. Þrátt fyrir allt hans mjúka orðfæri er hann herskár heimsvaldasinni. Það þýðir þó ekki að vont geti ekki versnað, og endurkoma Hillary Clinton í Hvíta húsið verður vissulega enn eitt skref bandaríska stjórnkerfisins inn í sívaxandi hernaðarstefnu.

Það eru ýmsir í USA miklu herskárri í tali en Obama, rétt er það. Obama hefur annan talsmáta en Bush og nýhægrimenn (og Hillary), Hann hefur lært "soft power" af því það þjónar heimsvaldastefnunni betur. Stefnuna sjáum við ekki af orðum hans heldur gerðum. Stjórn hans hefur smíðað fleiri atómsprengjur en fyrirrennararnir og staðið að meiri hernaðaruppbyggingu í Austur-Evrópu en nokkur þeirra sem og miklu meira hernaðarumsátri um Kína en þeir... Og Sýrlandsstríðið er enn eitt valdaskiptastríð Bandaríkjanna, gangsett í valdatíð hans, dulbúið sem uppreisn. Markmið USA er valdaskipti/sundurlimun landsins, ekki friður. Fordæming á al-Nusra er orð (sem Assad vissulega getur nýtt sér), en gjörðirnar eru vopnun (leynd eða ljós) þessara samtaka og vopnabræðra þeirra með önnur nöfn (Jabhat al-Sham, Jays al-Islam..). Samningur við Rússa er auðvitað bara ný friðsamleg orð, ný taktík Obama/Kerrys, líka taktík af Rússlands hálfu. Raunveruleikinn verður ekki eins friðsamlegur.

Sunday, September 4, 2016

Í staðgengilsstríði þarf að ríða mörgum stríðshestum í einu

(Birt á fésbókarsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga 4. sept 2016)
Langtímamarkmið USA – og bandamanna þeirra – er að steypa Sýrlandsstjórn (og Íranstjórn) og yfirvinna áhrif Rússa (og Kínverja) í Miðausturlöndum. Til þess þarf staðgöngu-stríðsmenn, og taktíkin gagnvart þeim er mjög flókin. Aðra vikuna hvetja þeir heri Kúrda til að sækja fram á Alepposvæðinu og hina vikuna skipa þeir Kúrdaherjum að hlýða kröfu Tyrkja að hverfa „austur fyrir Efrat“, enda styður USA tyrknesku innrásina sem beinist að stórum hluta gegn Kúrdum. Taktíkin gagnvart herskáum íslamistum er ennþá flóknari. USA og „Alþjóðlega bandalagið gegn ISIS“ senda sprengjur á stöðvar ISIS og drepa forystumenn þeirra fyrir framan fréttamyndavélar, en láta bandamenn sína fóðra og vopna ISIS bak við tjöldin og halda aðflutningsleiðunum frá Tyrklandi opnum. Formlega fordæma Bandaríkin Al Nusra fylkinguna, sem opinbera Al Kaída-deild, en styðja (ásamt Sádum, Tyrkjum...) „hófsama íslamista“ t.d. Faylaq Al-Sham sem er vopnabróðir Al Nusra og raunar nýtt vörumerki á sama liði eða hópinn Nour al-Din al-Zinki sem skemmdi „hófsömu“ myndina í sumar með því að dreifa mynd af sér hálshöggvandi palestískt barn. Í öðru orðinu greina þeir á milli hinna vondu „hryðjuverkamanna“ (ISIS...) og „uppreisnarmanna“ eða „hófsamra uppreisnarmanna“ en viðurkenna í hinu orðinu að hófsamir uppreisnarmenn séu ekki til í Sýrlandi. Íslensku fréttamiðlarnir hafa eðlilega ekki undan að útskýra þessa flóknu stöðu eins og hún er dregin upp af vestrænu fréttastofunum.

Innrás Tyrkja sýnir: óhaggað stríðsbandalag og mögnun stríðs

Birt á fésbókarsíðu SHA 1. sept 2016
Tyrkland fótum treður þjóðarétt og sendir her sinn óboðinn inn í Sýrland. Þetta felur í sér grafalvarlega mögnun stríðsins og miklar nýjar hættur. Bandaríski flugherinn verndar innrásina úr lofti og tilkynnir að hann muni skjóta niður sýrlenskar flugvélar sem mögulega veitist að innrásarhernum! Bandarísk stjórnvöld halda á loft þeirri mynd að andstæðingur þeirra sé ISIS. En lífæðar ISIS liggja gegnum Tyrkland. Og m.a.s. NY Times skrifar að ISIS sé ekki aðalskotmark innrásarinnar: “Turkish officials made little secret that the main purpose of the operation was to ensure that Kurdish militias did not consolidate control over an area west of the Euphrates River.” Tyrkneska innrásin sýnir eftirfarandi:
A) NATO-tenging og bandalag Tyrklands við Bandaríkin standa óhögguð þrátt fyrir getgátur manna (m.a. mínar) um annað eftir valdaránstilraunina. Sú „tilraun“ leiddi af sér þær hreinsanir sem gerðu Erdogan kleift að fara í stríð, svo líklegast er að valdaránstiraunin hafi verið „framkölluð“.
B) Bæði Tyrkland og Bandaríkin eru staðföst í stríðsstefnu sinni gegn Sýrlandi, tilbúin að magna átökin, tilbúin að storka Rússum, tilbúin að hætta á stórstríð.
C) Stríðsmarkmið árásarlandsins og volduga bakmannsins eru ólík. Báðir vilja „valdaskipti“, steypa Sýrlandsstjórn. En á meðan Bandaríkin stefna á sundurlimun Sýrlands í þrennt eftir trúar- og þjóðernalínum – og nýta þjóðernishreyfingu Kúrda í því skyni – er fremsta markmið Tyrkja að stöðva framgang Kúrda. Strategískt mat Pentagon er að í núverandi stöðu sé framlag Tyrkja mikilvægara en framlag Kúrda

Vilja Tyrkir skipta um lið?

Birt á fésbókarsíðu SHA 3. ágúst 2016
Hreinsanir Erdógans hafa verið helstu fréttir frá Tyrklandi undanfarið. Valdaránstilraunin kom eins og „sending frá himnum“ sagði Erdógan og varð honum tilefni til að herða tök og berja niður andstöðu. Það sem hefur fengið minni athygli er að bandarísk-tyrknesk samskipti hafa snarversnað í kjölfarið. Föstudaginn 29 júlí sagði Reuter: „The director of US national intelligence, James Clapper, said on Thursday the purges were harming the fight against Islamic State in Syria and Iraq by sweeping away Turkish officers who had worked closely with the United States.“ Eitt af því sem mun hafa einkennt upphlaupið var að NATO-flugvöllurinn Incirlik (með helling af kjarnorkuvopnum) virðist hafa verið miðlægur. Í kjölfar valdaránstilraunarinnar var vellinum lokað um skeið af miklum lögregluher og mótmælendur í kringum völlinn kölluðu „dauða yfir USA“. Ásakanir Tyrkja að USA hafi staðið þarna á bak við (og gegnum Gullen-hreyfinguna) hafa ekki þagnað síðan, og spor liggja líka til Sáda og Persaflóaríkja. Ástæða upplausnarástands í Tyrklandi er umfram allt að landið hefur gert sig að verkfæri í stríði gegn Sýrlandi sem er að tapast. Helsta niðurstaða hins mislukkaða valdaráns getur orðið sú að Tyrkir skipti um lið og nálgist nú Rússa, sem mun sjálfsagt leiða af sér nýjar valdaránstilraunir.

Friday, July 29, 2016

Hillary Clinton forsetaefni

Birtist á fésbókarsíðu SHA 28. júlí 2016

James Corbett hjá Global Research setur saman skilvirka bútasaums-ræmu um Hillary Clinton. Skv. honum er hún neo-con, kjarnorkustríðshaukur og Wall Street-leikbrúða. Sem er satt og rétt. Wall Street hefur fast grip um tögl og hagldir hvort sem D eða R situr í ökusæti. Vald stórbanka og vopnaframleiðenda reyndar enn beinna og traustara með Hillary. Ímyndað lýðræði dulbúið sem veruleiki, kjósendur án áhrifa á stjórnunina. Fólk í gildru valdsins og sýndarveruleikans. Orðrétt skrifar Corbett. „Heimurinn horfir á í hryllingi þegar Hillary Clinton er útnefnd sem forsetaefni Demókrataflokksins... Hillary Clinton er tilvistarógn við mannkynið... Samt halda leiðarvitar sk. „framsækinnar“ hreyfingar að það sé skylda vinstri manna að kjósa þennan stríðsæsingamann."

Margt bendir á mikla trú H. Clinton á hernaðarlegum lausnum. Skv Washington Times var ágreiningur innan Óbamastjórnarinnar gagnvart stríði gegn Líbíu 2011 Hillary beitti sér persónulega í málinu og dreifði því viðhorfi að Gaddafí undirbyggi þjóðarmorð á eigin þegnum, og tókst að sannfæra bæði Obama og NATO um að rétt væri að hefja stríð.

Vil svo nefna annað dæmi. The Intercept bendir á að H.Clinton standi hægra megin við George W Bush gagnvart Palestínu: "the Clinton-led Democratic Party’s hostility toward the most basic precepts of equality and dignity for Palestinians, and their willingness – their eagerness – to support and cheer for the most extremist Israeli acts of oppression, racism and decades-long occupation, is nothing short of despicable."

Saturday, July 23, 2016

Valdaránstilraun merki um klofning

Birtist á fésbókarsíðu SH 17. júlí 2016
Recep Erdogan

Robert Fisk skrifar að Tyrkland sé á barmi upplausnar (þó Erdogan herði sín einræðistök) og hann leitar skýringa í því hlutverki sem Tyrkland hefur tekið sér, að vera svæðisbundið verkfæri USA og Vestursins í hnattræna taflinu þar sem valdi er beitt: "Recep Tayyip Erdogan had it coming. The Turkish army was never going to remain compliant while the man who would recreate the Ottoman Empire turned his neighbours into enemies and his country into a mockery of itself." Og Fisk líkir þessu við eldra dæmi um sama hlutverk, hjá Pakistan: "When Turkey began playing the same role (as Pakistan) for the US in Syria – sending weapons to the insurgents, its corrupt intelligence service cooperating with the Islamists, fighting the state power in Syria – it, too, took the path of a failed state, its cities torn apart by massive bombs, its countryside infiltrated by the Islamists. The only difference is that Turkey also relaunched a war on its Kurds in the south-east of the country where parts of Diyabakir are now as devastated as large areas of Homs or Aleppo.

Thursday, July 21, 2016

Það sem lesa má úr „Brexit“

Birtist á bloggsíðu Alþýðufylkingarinnar 20 júlí 2016


Almenningur vann
Úrslit atkvæðagreiðslunnar um Brexit voru merkileg og sögulegur stórviðburður. Þarna tókust á almenningur sem vildi ráða eigin málum og hins vegar yfirþjóðlegt vald ESB-elítunnar. Almenningur vann. Annars vegar stóð hin fjölþjóðlega ESB-elíta, stjórnvöld Bretlands, fjármála- og bankavaldið, voldugustu fjölmiðlarnir, hins vegar almenningur. Almenningur vann. Ekki bara það. Nokkrir helstu ráðamenn Evrópuríkja gerðu sitt besta, Stoltenberg NATO-framkvæmdastjóri gekk fram fyrir skjöldu – og Obama forseti kom yfir hafið og hótaði Bretum verri viðskiptasamningum við Bandaríkin ef þeir kysu ekki rétt. Það dugði ekki til og almenningur vann. Í ESB-samhengi var kosningaþátttakan alveg óvenjulega mikil, 72%.

Eftir atkvæðagreiðsluna hefur her af breskum lögfræðingum lýst yfir að atkvæðagreiðslan sé auðvitað bara ráðgefandi. Og það er alls óvíst að hún verði staðfest af þinginu. Ég á eftir að sjá að Bretland yfirgefi ESB í þessari lotu. Valdakerfið í heilu lagi vinnur gegn slíku og vilji almennings fær yfirleitt litlu að ráða.

Hvað segja nú ráðamenn Brusselvaldsins? Þeir hrökkva ekki hátt þótt almenningur sé með uppsteyt. Steinmeier utanríkisráðherra Þýskalands og franski starfsbróðir hans, Ayrault, lögðu í júnílok fram stefnuplagg þar sem segir að svarið við Brexit sé meiri samruni innan ESB og minna þjóðlegt sjálfstæði aðildarríkja, m.a. á efnahags- og hernaðarsviði. Um þetta skrifaði Daily Mail 27 júní. Það sama er uppi á teningnum hjá forseta Evrópuþingsins, Martin Schulz, í grein í Frankfurter Allgemeine Zeitung 3. júlí. Þar segir hann að rétt svar við atkvæðagreiðslunni í Bretlandi sé að „breyta Framkvæmdastjórn ESB í raunverulega evrópska ríkisstjórn“, sem sagt taka stórt skref í átt til yfirþjóðlegs evrópsks stórríkis. Í áðurnefndri yfirlýsingu fylgdi Schulz eftir stefnumörkun sem hann gaf frá sér bara nokkrum dögum fyrir atkvæðagreiðsluna ásamt hinum fjórum forsetum ESB: Juncker forseta Framkvæmdastjórnarinnar, Tusk forseta Ráðherraráðsins,  Dijsselbloem forseta Evruhópsins og Draghi forseta Evrópska Seðlabankans. Þar kemur m.a. fram að fyrir 2025 skuli stofnanir ESB ákvarða fjárlög fyrir einstök aðildarlönd. Skoðanakannanir sýna hins vegar að í engu aðildarlandi vilja kjósendur aukið vald til stofnana ESB. En hvorki það né úrslit Brexit-kosninganna hefur nein áhrif á afstöðu Schulz og þessara toppmanna til áframhaldandi samrunaþróunar í álfunni. 

Saturday, June 25, 2016

Vesturblokkin og Sýrlandsstríðið

Birtist í Fréttablaðinu 23. júní 2016

Fáni Sýrlands í sprengdri borg

Alla 21. öld hefur Vesturblokkin stundað hernaðaríhlutanir í Miðausturlöndum og nærsveitum. Stríð í seríu: Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi, en valdaskiptaáformum í Íran hefur verið vikið til hliðar, rétt í bili.

STRÍÐSMARKMIÐ: Að tryggja full yfirráð á þessu efnahagslega og hernaðarlega kjarnasvæði. Framantalin lönd höfðu af ólíkum ástæðum ekki látið nógu vel að stjórn USA og Vestursins, sem settu þess vegna „valdaskipti“ þar á dagskrá. Þeirri dagskrá er fylgt fast þótt það kosti stríð, rústun ríkjanna og/eða sundurlimun.

„MANNÚÐARÍHLUTUN“: Yfirskriftir styrjaldanna eru mismunandi. Yfirskrift innrásar í Afganistan var að „ná hryðjuverkamönnum“ en í Írak að „finna gjöreyðingarvopn“. Hvort tveggja er löngu afhjúpað sem uppspuni. Stríð NATO-velda í Líbíu hafði vandaða og söluvæna yfirskrift: „íhlutun í mannúðarskyni“, vegna árása Gaddafís á þegna sína!

EN SÝRLANDSSTRÍÐIÐ? Afskipti Vestursins af Sýrlandi eru sett í flokk „mannúðaríhlutana“. Sagan sem sögð er á Vesturlöndum er að misþyrmingar Assad-stjórnarinnar á eigin þegnum hafi kveikt „borgarastríð“ – vestræna fréttaveitan malar þá frétt í sífellu, en talar líka stundum um átökin sem „trúardeilur“. „Alþjóðasamfélagið“ ku því hafa „verndarskyldu“, ástandið kalli á íhlutun í mannúðarskyni. Þó yfirskriftir fyrri íhlutana hafi augljóslega reynst fals gengur furðu vel að selja stríðið með þessari yfirskrift. Vesturlönd standa þarna sameinuð, nema helst í afstöðunni til sýrlenskra flóttamanna. Íslensk pressa tekur svo vel undir söng Vestursins að aldrei heyrist mishljómur. Aldrei.

FJÓRSKIPT STRATEGÍA Í SÝRLANDI: Aðferð Vestursins til að brjóta andstöðu Sýrlands er fjórskipt: Viðskiptabann, diplómatísk einangrun, stuðningur við „uppreisn“, hernaðarinnrás.


a) Viðskiptabann. Bandaríkin lögðu viðskiptabann á Sýrland frá 2004 (hafa hert það síðan) en ESB gerði hið sama 2013. Þetta á stóran þátt í þjáningum Sýrlendinga og landflótta. Ísland gengur í sama takt og hefur engin viðskipti við Sýrland (en hefur t.d. veruleg viðskipti við Tyrkland, Sáda og Ísrael).

b) Diplómatísk einangrun. Íslenska vinstri stjórnin, líkt og Vesturblokkin öll, viðurkenndi árið 2012 „Þjóðareiningu“ uppreisnarhópa – National Coalition – sem lögmætt stjórnvald Sýrlands. Þessi viðurkenning þýðir að Vestrið – Ísland með – stillir sér á bak við annan aðilann í sk. borgarastríði, gefur grænt ljós á uppreisn gegn stjórnvöldum sem viðurkennd eru af SÞ sem lögmæt. Þessi afstaða Íslands þýðir einnig að hjálparstarf héðan fer til uppreisnarafla og er því undir formerkjum „valdaskipta“.

c) Stuðningur við uppreisn. Á pappírnum heitir það stuðningur við „hófsama uppreisnarmenn“ en Joe Biden, varaforseti USA, sagði það skýrt: „Hófsöm miðja var aldrei til“ í sýrlensku uppreisninni. Uppreisnin er frá byrjun borin uppi af trúarvígamönnum. „Borgarastríð“ og „uppreisn“ eru auk þess rangnefni, í fyrsta lagi af því að stór hluti andstöðunnar eru erlendir vígamenn (Wikipedia áætlar að þeir „may now number more than 11.000“). Í öðru lagi eru hryðjuverkaherirnir (og sk. uppreisn) fjármagnaðir utanlands frá, eru „staðgenglar“ erlendra velda. Frá upphafi hefur NATO-landið Tyrkland lagt „uppreisninni“ til aðflutningsleiðir og aðdrættina, ekki síst vopnasendingar, en Sádar og Persaflóaríkin sjá mest um fjármögnunina. Að baki stendur Vestrið, enda Sádar og Tyrkir (auk Ísraels) mikilvægustu bandamenn Vesturblokkarinnar í Miðausturlöndum.

d) „Alþjóðlega bandalagið gegn ISIS“ hóf lofthernað yfir Sýrlandi (og Írak) í desember 2014, gegn vilja sýrlenskra stjórnvalda og þ.a.l. gegn alþjóðalögum. Aðilar bandalagsins eru Bandaríkin og Evrópustórveldin, ásamt helstu stuðningsríkjum ISIS, Tyrklandi og Persaflóaríkjum. Skal því ekki undra að þetta „stríð“ hafði þveröfug áhrif í því að veikja ISIS. Ekki fyrr en Rússar mættu á svæðið til aðstoðar við sýrlenska herinn tók ISIS að láta undan síga. Viðbrögð Vestursins núna við sókn Sýrlandshers eru endurskipulagning: Styðja við sveitir Al Kaída/Al Nusra (sem reynt er að skíra „hófsama“) og einnig sveitir Kúrda á ákveðnum svæðum jafnframt því að senda inn eigin sérsveitir, bandarískar, franskar, breskar og þýskar. Öll áhersla er lögð á að hindra að Sýrlandsher skeri á aðflutningsleiðir „uppreisnarinnar“ frá Tyrklandi, einkum að hann nái aftur borginni Aleppo, sem gæti ráðið úrslitum í stríðinu. Stríðsmarkmið Vestursins eru þau sömu, hafa þó hliðrast frá „valdaskiptum“ í Damaskus yfir í sundurlimun Sýrlands í a.m.k. þrennt eftir þjóðernis- og trúarlínum, líkt og Írak.

Sunday, June 19, 2016

Stærsta heræfing í Austur-Evrópu eftir kalda stríðið

Birt á Fésbókarsíðu SHA 9. júní 2016

NATO-æfing í Póllandi

Margt í gangi hjá NATO í Austur-Evrópu í maí og júní. CNN skrifar: „The United States launched a ground-based missile defense system earlier this month in Romania. The system is meant to defend Europe against rogue states like Iran and not intended to target Moscow’s missiles, Washington has said.“
Trúi hver sem vill að þessu sé miðað á Íran! Eldflaugakerfið kallast „Aegis Ashore“, tilheyrir herstyrk NATO í Evrópu og NATO-Stoltenbereg klippti á borðann við vígsluna. Á næstu 2-3 árum verður svo hliðstætt eldflaugakerfi sett sett upp í Póllandi.
Og miklar NATO-heræfingar í Eystrasaltssvæðinu í júní. Fréttaveitur skrifa: „Over the next three weeks BALTOPS 16 will draw together some 6,000 personnel, 45 warships, and 60 aircraft from 17 nations, including the United States, Germany, the U.K., the Netherlands, along with the littoral states of the Baltic States who are NATO members (Estonia, Latvia, Lithuania, Poland, Denmark) or NATO partners (Sweden and Finland).“
Undir sömu NATO-æfingu heyrðu m.a. tvö þúsund fallhlífarhermenn sem steyptu sér yfir Pólland 7. júní: „About 2,000 NATO troops from the U.S., Britain, Portugal and Poland conducted an airborne training operation on Tuesday as part of the biggest exercise performed in Poland since the 1989 end of communism and amid concerns over Russia.“ En The Guardian hefur þessar tölur hærri: 31 þúsund manns frá 24 löndum, stærsta heræfing í A-Evrópu eftir kalda stríðið.
Tveimur dögum áður var önnur áhugaverð frétt um þróun mála í Póllandi undir harðlínu hægriflokknum Lög og réttlæti. RÚV sagði fá: „Yfirvöld í Póllandi hafa heitið því að koma á fót vopnuðu heimavarnarlið. Vonir stjórnvalda standa til að innan þriggja ára verði alls 35.000 sjálfboðaliðar í sveitunum, um allt Pólland... Þá tilkynnti Macierewicz [varnarmálaráðherra] að til stæði að fjölga hermönnum í pólska hernum um helming - úr 100 þúsund í 150 þúsund... Stjórn flokksins Lög og réttlæti, undir forystu Jaroslaws Kaczynski, hefur lagt mikið upp úr föðurlandsást og verið tíðrætt um þá ógn sem stafi af útþenslustefnu Rússa.“ 
Eitt einkenni á herskárri Bandaríkjanna og NATO síðustu misseri er ákafinn að virkja hið andrússneska. Andrússneskir straumar hafa lengi mátt sín allmikils í Austur-Evrópu, m.a. í vestanverðri Úkraínu og Lithauen en þó hvergi meira en í Póllandi.

Tuesday, May 31, 2016

Stríð um heimsyfirráð - hnattræn auðvaldselíta þolir ekki sjálfstæð ríki

Birtist á fridur.is 24. maí og vefsíðu Alþýðufylkingarinnar 31. maí 2016
„Það er alheims stríð, það er allsherjar stríð og það er eyðilegging. Það á sín rök, það er hluti hnattræns kapítalisma. Á núverandi stigi er þetta þó ekki barátta gegn sósíalisma, en það er barátta gegn þjóðlegum kapítalisma. Með öðrum orðum, það eru hinar hnattrænu auðvaldselítur – aðallega ensk-amerískar þar sem hinar miklu fjármálamiðstöðvar Wall Street og London ráða för – gegn kapítalískum keppinautum, sem vel má nefna: Rússland og Kína – Kína er ekki kommúnískt land, Kína er kapítalískt land, í raun mjög þróað kapítalískt land, og eins er um Íran.“ (heimild)

              

Það er kanadíski samfélagsrýnirinn Michael Chossudovsky sem segir þetta. Í eftirfarandi grein tek ég undir þessa greiningu, helstu hernaðarátök nútímans taka á sig þessa mynd, heimselítan berst gegn þjóðlegum kapítalisma og sjálfstæði þjóða. Í framhaldinu spyr ég: Hvers vegna er það svo?

Eitt einkenni kapítalismans er hneigð auðmagnsins til að hlaðast upp, samruni, yfirtökur, stór gleypir lítinn, samruni útyfir landamæri þjóðríkja og sístækkandi efnahagseiningar. Risaauðhingar skipta með sér heimsmarkaðnum. Á pólitíska sviðinu ríkir samþjöppun í vaxandi valdablokkir. Heimskapítalisminn hefur frá 1945 einkennst af drottnunarstöðu eins ríkis, Bandaríkjanna. Um skeið var þó einnig fyrir hendi sterk blokk kennd við kommúnisma. En eftir lok kalda stríðsins og brotthvarf Austurblokkarinnar um 1990 varð heimurinn „einpóla“ með mikilli drottnunarstöðu Vesturblokkar, Bandaríkjanna ásamt bandamönnum.

Í upphafi var hugveitan
Hnattræn stjórnlist (strategía) bandarískrar/vestrænnar elítu er ekki mótuð á neinu þjóðþingi né í stofnunum SÞ. Hún er einkum mótuð í nokkrum hugveitum eða klúbbum þar sem saman koma fulltrúar bandarískrar og vestrænnar toppelítu – alls ekki þjóðkjörnir. Lýðræðið þvælist ekki mikið fyrir hinum raunverulegu valdhöfum heimsins. Af áhrifaríkustu hugveitum innan Bandaríkjanna ber að nefna Brookings Institution (stofnuð 1916), Hoover Institution (1921) og Council of Foreign Relations (1921) og Center for Strategic and International Studies (1962). Tvær þær síðastnefndu hafa öðrum fremur mótað utanríkisstefnu USA, en allir hafa þó klúbbarnir haft mikil og afgerandi áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Á alþjóðavettvangi starfa Bilderberg Group (stofnuð 1954 til að treysta samband N-Ameríku og V-Evrópu og „atlanticism“), Aspen Institute (stofnað 1950), Trilateral Commission (stofnað af David Rockefeller 1973 til að rækta og móta samband Norður Ameríku, Vestur Evrópu og Japans). Síðarnefndu klúbbarnir þrír eru hugveitur fyrir Vesturlönd en að uppruna og öllum grundvelli eru þeir bandarískir eins og hinir sem fyrr voru nefndir. Loks ber að nefna stofnunina The World Economic Forum, eins konar heimsþing vestræns einokurarauðvalds, hagsmunasamtök ca. 1000 voldugustu auðhringa á hnettinum, sem hittist árlega í Davos í Sviss og hefur mjög bein völd og setur pólitík á dagskrá vítt um hinn vestræna heim.