Thursday, September 23, 2021

Hvað um Sósíalistaflokkinn?

 

(Birtist á Neistum  8. september 2021)

Ég er sósíalisti. Ég er í Alþýðufylkingunni en hún býður ekki fram í ár. Það gerir hins vegar Sósíalistaflokkur Íslands (SÍ). Flokkurinn hefur náð athyglisverðum árangri með málflutningi sínum. Að íslenskur flokkur sem kennir sig við sósíalisma hafi 8% stuðning eru tíðindi. Maður verður að taka afstöðu til slíks framboðs.

Baráttustefna SÍ

Það er ljóst að við í Alþýðufylkingunni eigum samstöðu með SÍ í mörgum málaflokkum. Mest um vert er að SÍ hefur sett á dagskrá endurreisn verkalýðsbaráttunnar, og komið með stéttahugsun og stéttabaráttu aftur í hina pólitísku orðræðu. SÍ hefur sett fram framsæknar umbótakröfur í mörgum málaflokkum, nefna má húsnæðismál, skattamál, heilbrigðismál, sjávarútvegsmál, félagslegar lausnir í stað markaðslausna (afstaðan gegn nýfrjálshyggju er alveg afdráttarlaus) – og flokkurinn kennir sig við sósíalisma. Þess er að vænta að slíkur flokkur sé bandamaður Alþýðufylkingarinnar í stéttabaráttunni oftar en aðrir flokkar.

SÍ heyr kosningabaráttuna af krafti. Það er athyglisvert að hún hefur einkum farið fram á samfélagsmiðlum – og þar er framleiðnin mikil – en smám saman einnig í öðrum fjölmiðlum. Það er ekkert leyndamál, og blasir við, að Gunnar Smári Egilsson er helsti áróðursmaður flokksins. Hann er mælskur og öflugur áróðursmaður, ennfremur býsna glúrinn og skarpur pólitískur greinandi – og skoðar mál mjög oft frá stéttasjónarmiði sem er vissulega kostur á sósíalista.

En það eru göt og eyður í stefnu og störf SÍ. Þar vantar atriði sem hreint ekki má vanta. Raunar er ekki hægt að tala um neina stefnuskrá flokksins, frekar lista aðskildra stefnumála sem lesandinn þarf að raða saman til að fá heildarstefnu. Eftirfarandi gagnrýni beinist fremur að langtímastefnu (eða stefnuleysi) flokksins en stefnu og málflutningi hans í einstökum kosningamálum.

Sósíalismi?

SÍ kallar sig sósíalískan flokk. Allt bendir þó til að hann berjist fyrir umbótum á kapitalismanum fremur en afnámi hans, að stefna hans sé innan ramma kratískra umbóta fremur en byltingarsinnaður sósíalismi. Lítt hefur verið skilgreint hvað felst í þessum „sósíalisma“. Ekki er í neinum stefnuplöggum minnst á sósíalískt þjóðfélag, valdatöku framleiðenda, eign þeirra á framleiðslutækjum, valdaafnám auðstéttarinnar eða slíkt.