Thursday, June 18, 2020

Bandaríkin: Stéttaandstæður þungvægari en rasismi

(birtist á Neistum.is 12. júní 2020
 
Í mótmælaólgunni miklu í Bandaríkjunum eftir dráp lögreglunnar á George Floyd í Minneapolis felst augljóslega gríðarmikil grasrótaruppreisn gegn ríkjandi kerfi. Sterk öfl reyna þó mjög að koma því til leiðar að broddur mótmælanna sneiði framhjá valdakerfi bandaríska auðvaldsins. Hér verða settar fram nokkrar ályktanir um mótmælahreyfinguna.

 

Rasismi – ofbeldi – misskipting

rasismi
Frá kynþátta- og stéttaátökum í Chicago 1919
  • Í Bandaríkjunum eru svartir hlutfallsega miklu oftar drepnir en hvítir.
  • Svartir íbúar í Bandaríkjunum eru að jafnaði miklu fátækari en hvítir og hafa verið það allt frá dögum þrælasölu og þrælahalds.
  • Í bandarískum fangelsum eru 33% vistmanna svartir, sem er nærri þrefalt hlutfall þeirra af þjóðinni (12%).
  • Ofbeldisglæpir í Bandaríkjunum eru mjög bundnir fátækrahverfum borganna. Þar búa hlutfallslega margir svartir.
  • Blökkumenn sem drepnir eru í BNA eru langoftast drepnir af öðrum blökkumönnum.
  • Þeir sem drepnir eru í Bandaríkjunum – af lögreglu og öðrum – eru fátækir.
Þessi tölfræði er tiltölulega óumdeild. En ef út frá henni er reiknuð sú rökrétta niðurstaða að aðalvandi Bandaríkjanna sé stéttaandstæðurnar væri slík fullyrðing fáséð í stóru fjölmiðlunum. Fátækt á þriðjaheimsstigi er útbreidd í þessu ríkasta landi heims þar sem auðurinn safnast á fáar og sífærri hendur með hverju ári. Rasisminn þar í landi er ærinn en stéttaandstæðurnar eru þó miklu þungvægari og meira böl.

Af fréttum frá BNA má skilja að grundvallarvandamál samfélagsins vestan hafs sé rasisminn og hann er skoðaður sem sjálfstætt og einangrað þjóðfélagsböl. Í því formi er kynþáttavandamálið raunar notað í stjórnmálabaráttunni í BNA.

 

Á að reyna „union busting“?

(birtist á Neistum.is 21 maí 2020)
Kjaradeila Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands heldur áfram. FFÍ beygir sig ekki og Icelandair freistar þess að sniðganga FFÍ. Þarna er brennipunktur íslenskrar stéttabaráttu í dag. ASÍ og Efling – stéttarfélag senda flugfreyjum mikilvægar stuðningsyfirlýsingar.
 
Icelandair hefur lýst yfir að það ætli að ná 20% hagræðingu í launakostnaði fyrir hluthafafund 22. maí. og gengur fram af mikilli hörku við flugstéttir. Samist hefur um skerðingar við félög flugmanna og flugvirkja, en Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) hafði ekki beygt sig undir tilsvarandi. FFÍ hefur ítrekað hafnað útspili Icelandair sem félagið segir að feli í sér „tugprósenta launalækkanir og skerðingu á réttindum til frambúðar.“

Icelandair breytir ekki stefnu sinni. „Samkvæmt fréttum Morgunblaðsins 20. maí skoðar Icelandair möguleika á að stofna nýtt stéttarfélag flugfreyja og samkvæmt Fréttablaðinu hyggst Icelandair láta reyna á forgangsréttarákvæði kjarasamnings FFÍ fyrir félagsdómi náist ekki samningur.“ https://www.ffi.is/ Ef þetta er rétt hermt er ljóst að Icelandair stefnir að því að ráða flugfreyjur sem standa utan Flugfreyjufélags Íslands. Atvinnulausar flugfreyjur eru nú mjög margar, íslenskar og miklu fleiri erlendar. Hvernig Icelandair ætlar að safna liði og stofna stéttarfélag vitum við hins vegar ekki, en við vitum til hvers. Og það blasir við að kjaradeila Icelandair og FFÍ er núna brennipunktur stéttabaráttunnar í landinu. Fordæmisgildið er mikið á báða bóga.

 

ASÍ: sættum okkur ekki við union busting

Drífa Snædal forseti ASÍ sendi í gær, 20. maí, frá sér skorinorða yfirlýsingu af tilefni áðurnefndrar fréttar og þar segir: „Framganga Icelandair í samningaviðræðum við flugfreyjur hefur verið með ólíkindum og er til þess fallin að draga úr almennu trausti í garð þessa rótgróna flugfélags. Þetta er ekki flugfélagið okkar allra sem býður okkur velkomin heim. Við munum ekki sætta okkur við aðferðir sem á ensku eru kallaðar union busting og ganga út á að grafa undan samstöðu launafólks og eyðileggja verkalýðsfélög. Verkalýðshreyfingin mun ekki sitja með hendur í skauti andspænis slíkum aðgerðum.“ https://www.ffi.is/

Efling – stéttarfélag sendi líka þann 20. maí frá sér mikilvæga yfirlýsingu í tilefni af þessari deilu. Þar er þess krafist íslenska ríkið, og einnig lífeyrissjóðir, hafni því að styðja við fyrirtæki sem stundar árásir á lögvarin réttindi verkafólks.

 

Ályktun stjórnar Eflingar vegna kjaradeilu Icelandair og FFÍ:

„Stjórn Eflingar – stéttarfélags lýsir reiði og undrun vegna framgöngu Icelandair í garð flugfreyja og stéttarfélags þeirra, Flugfreyjufélags Íslands, í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður.
     Icelandair hefur að mati stjórnar Eflingar notfært sér óvissu og efnahagssamdrátt vegna Kórónaveirufaraldursins til að klekkja á flugfreyjum á einkar tækifærissinnaðan og ósanngjarnan hátt. Stjórn Eflingar telur að flugfreyjur eins og annað verkafólk innan vébanda ASÍ eigi rétt á sambærilegum kjarasamningi og þeim sem nú er í gildi hjá yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna aðildarfélaga ASÍ.
      Fréttir í helstu fjölmiðlum herma að Icelandair hyggist leita leiða til að ráða flugfreyjur utan stéttarfélaga eða jafnvel beita sér fyrir stofnun sérstaks stéttarfélags í þeim tilgangi að geta samið um verri kjör fyrir flugfreyjur.
     Þessir starfshættir eru gróf ögrun við lög, venjur og sameiginlegan skiling aðila sem íslenskur vinnumarkaður byggir á.
     Verkafólk á skýlausan rétt til að bindast samtökum í stéttarfélagi til að semja um sín kaup og kjör. Sá réttur er mannréttindi og er varinn af bæði lögum og stjórnarskrá. Allt verkafólk á ríka hagsmuni af því að standa sameiginlegan vörð um þennan rétt.
     Ætli íslensk stórfyrirtæki nú með aðstoð hins opinbera að hefja árásir á þessi grunnréttindi verkafólks mun Efling – stéttarfélag ekki horfa upp á það þegjandi og hljóðalaust.
     Stjórn Eflingar bendir á að Icelandair er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða, sem eru sameiginlegir sjóðir launafólks og undir stjórn þeirra. Lífeyrissjóðir hljóta að hafna því að fjárfesta í fyrirtækjum sem stunda beinar árásir á grunnréttindi launafólks.
     Að sama skapi bendir stjórn Eflingar á að íslenska ríkið heldur nú uppi rekstri Icelandair með beinum stuðningi. Stjórn Eflingar krefst þess að íslenska ríkið, rétt eins og lífeyrissjóðir, hafna því að styðja við fyrirtæki sem stunda árásir á lögvarin réttindi verkafólks.“ Sjá hér.

Icelandair-kjaradeilan og stéttabaráttan eftir Covid

(birtist á Neistum.is 15 maí 2020)
Icelandair Group og Félag íslenskra atvinnuflugmanna hafa gert með sér nýjan kjarasamning til fimm ára (15/5). Í tilkynningu frá Icelandair segir að samningurinn sé „í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag og sveigjanleika verulega.“ Samningurinn tryggir m.a. verulega aukið vinnuframlag flugmanna. Bogi Nils Bogason forstjóri orðar það svo: „Þetta er stórt skref til að tryggja samkeppnishæfni félagsins og veigamikill þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins.“ Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, kallar þetta „tímamótasamning“ og bætir við: „Flugmenn eru stoltir af því að hafa náð markmiðunum sem lagt var upp með sem eykur enn á samkeppnishæfni Icelandair.“ https://theworldnews.net/is-news/flugmenn-og-icelandair-gerdu-timamotasamning-i-nott

Björgunaraðgerðir fyrir Icelandair-group hafa verið fyrsta frétt fjölmiðla um skeið. Fyrirtækið rambar á barmi gjaldþrots, en stefnir á að safna 29 milljarða hlutafé fyrir hluthafafund 22. maí. Biðlar m.a. til lífeyrissjóða og enn frekar til ríkisins. Ennfremur: Bogi Nils forstjóri hefur sagt að unnið sé dag og nótt að því að bjarga fyrirtækinu en „að helsta fyrirstaðan fyrir að það takist erum við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu.“ Ef bjarga eigi fyrirtækinu verði starfsfólk þess að taka á sig kjaraskerðingar. Stjórn Icelandair hefur gert Flugfreyjufélagi Íslands tilboð sem félagið metur sem allt að 40 prósenta kjaraskerðingu. Samninganefnd félagsins hafnaði tilboðinu en þá sendi Bogi Nils tilboðið bara beint til einstakra félagsmanna!

Þann 11. maí sagði í frétt Morgunblaðsins: „Til að forða Icelandair frá gjaldþroti verða flugfreyjur og flugmenn félagsins að taka á sig launalækkun á bilinu 50-60%. Þá verður nýr kjarasamningur að gilda til fimm ára og vera auk þess uppsegjanlegur að hálfu Icelandair að samningstíma loknum. Þetta segir ráðgjafi eins af stóru hluthöfum Icelandair í Morgunblaðinu í dag.“ https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2020/05/11/stadan_ordin_grafalvarleg/


Hamfarakapítalismi og hnattvæðing
Stórauðvaldið lítur á Covid-kreppuna sem tækifæri til mikilla árása gegn réttindum launafólks. Sú afstaða er skýr í orðum og aðferðum hins prúðmannlega Boga Nils Bogasonar. Aðferðir Icelandair eru í góðum samhljómi við þá „sjokkmeðferð“ sem Naomi Klein hefur lýst best í bókum sínum um aðferðir stórkapítalsins á heimsvísu, einkum við innleiðingu nýfrjálshyggju/markaðshyggju: „Ég nota hugtakið „sjokkkenningin“ til að lýsa hinum ruddalegu aðferðum að nýta sér ráðaleysi almennings eftir sameiginlegt áfall – styrjöld, valdarán, hryðjuverkaárás, markaðshrun eða náttúruhamfarir – til að knýja í gegn róttækar aðgerðir í þágu stórfyrirtækja, oft kallaðar „sjokkmeðferð“ [shock therapy]... Þessi hernaðaraðferð hefur verið þegjandi fylginautur innleiðingar á nýfrjálshyggju í yfir 40 ár.“ https://www.theguardian.com/us-news/2017/jul/06/naomi-klein-how-power-profits-from-disaster

Talskonur flugfreyja benda á að kjaraskerðingarstefna Icelandair sé ekki alveg ný: „þeir eru búnir að bjóða nánast sömu samninga síðan haustið 2018 og það er ástæðan fyrir að ekki hefur verið samið.“ En með tilkomu Covid-19 getur Icelandair sett margfalt afl á bak við kjaraskerðingakröfur sínar. Nákvæmlega eins og Naomi Klein lýsir er það til að „knýja í gegn róttækar aðgerðir í þágu stórfyrirtækja“. Markmiðið er að sjokkera fólk til undirgefni, Covid-19 er verkfærið.