Thursday, May 22, 2014

Þýska Septemberprógrammið frá 1914 orðið að veruleika

Stórauðvaldið hefur almennt ekki mjög ákveðnar pólitískar skoðanir. Það styður einfaldlega þann pólitíska valkost sem tryggir best gróðann og þenslumöguleikana á hverjum tíma. Þess vegna tekur vald auðsins á sig ólíkar birtingarmyndir.
Tökum þýskt stórauðvald sem dæmi. Þegar þýskur iðnaðarkapítalismi komst til þroska eftir sameiningu Þýskalands á 19. öld markaðist tilvera hans af þröngu olnbogarými, af því skipting stórvelda á heiminum í formi nýlendna og áhrifasvæða var þá þegar langt komin. Þýskaland hafði komið seint að „borðinu" svo misræmi var á milli gríðarmikils efnahagsstyrks þess og lítils olnbogarýmis. Í tímans rás hefur þýskt stórauðvald brugðist við þessari stöðu á talsvert mismunandi vegu. Samt er í því veruleg samfella.
Bethmann Hollweg kanslari
Árið 1914. Í septembermánuði það ár þegar rúmur mánuður var liðinn af fyrra stríði - mánuður sem gekk Þjóðverjum mjög í vil - lagði Bethmann Hollweg Þýskalandskanslari framstyrjaldarmarkmiðin fyrir ríkisstjórn sína og næsta valdahring íSeptemberprógramminu. Þar stóð:
„Mynda þarf Miðevrópskt efnahagssamband og tollabandalag sem nái yfir Frakkland, Belgíu, Holland, Danmörku, Austurríki-Ungverjaland, Pólland og mögulega Ítalíu, Svíþjóð og Noreg. Sambandið mun líklegast verða án sameiginlegs stjórskipunarlegs stjórnvalds og hafa yfirbragð jafnréttis meðal þátttakenda, þó það verði í reynd undir þýskri forustu, og verði að tryggja ráðandi stöðu Þýskalands í Mið-Evrópu." 
Skömmu síðar snérist stríðsgæfan á móti Þjóðverjum og stríðsmarkmiðin ýttust inn í framtíðina.
Árið 1933. Framan af höfðaði þýski Nasistaflokkurinn einkum til millistéttar en í djúpi kreppunnar 1932/33 vann hann tiltrú stórauðvaldsins. Það gerði flokkurinn einfaldlega með því setja hagsmuni þess í forgang: lofa harðri baráttu fyrir auknu landrými („lífsrými", nokkuð sem var í stefnuskrá flokksins frá upphafi), með því að leggja fram áform um hervæðingu efnahagslífsins sem leið út úr kreppunni, ennfremur bjóða sig fram sem brjóstvörn gegn kommúnisma/sósíalisma og róttækri verkalýðshreyfingu.
Auðhringar Þýskalands mynduðu kjarnann í efnahagskerfi nasista og stuðningur þeirra var meginforsenda fyrir völdum flokksins. Það er siður að dylja þetta með því að lýsa Þýskalandi sem einræði illmennis. Stjórnarfar Nasistaflokksins var um margt sérstætt. Hugmynd nasista um „lífsrými" var öðru vísi en Septemberprógrammið og gerði ráð fyrir opinskárri undirokun annarra (óæðri) þjóða. Samt var þetta stjórnarfar fyrst og fremstein birtingarmynd á stéttarveldi þýsks auðvalds. Aðferðin skilaði gróða og landvinningum allt til Stalíngrað en snérist síðan í hamfarir. En hamfarirnar eru kapítalismanum hollar og lögðu grunn að nýju þýsku blómaskeiði.
Árið 2014. Þýskt auðvald - ásamt einkum því franska - hefur alla tíð verið forystuaflið í Evrópusamrunanum. Eftir því sem hnattvæðing viðskiptanna náði sér á flug, m.a. með falli Austurblokkarinnar hefur ESB orðið múrbrjótur hnattvæðingar í formi frjáls fjármagnsflæðis og flæðis vöru og vinnuafls á sameiginlegum evrópskum markaði. Djúp kreppa Rússlands á 10. áratugnum auðveldaði sókn ESB inn í Austur-Evrópu. Sambandið beitti eigin viðskiptamúrum gagnvart löndunum: Ef Austur-Evrópulönd vilja aukin viðskipti við ESB-markaðinn verða þau að ganga í ESB! Eftir það áttu svo auðhringar ESB ­- og sérstaklega Þýskalands - óhindraðan aðgang inn í þessi lönd.
ESB-svæðið er nú tvískipt, skiptist í kjarnsvæði norðan og vestanvert og jaðarsvæði í suðri og austri. Kjarninn - og Þýskaland sérstaklega - blæs út sem útflutningshagkerfi og lánveitandi en jaðarsvæðin verða undir í samkeppninni og verða hjálendur í skuldafjötrum. Fjármálaöflin í ESB setja hinum skuldugu löndum skilmálana, afsetja jafnvel ríkisstjórnir og setja sitt fólk í staðinn. „Samstarfssamningur" sá sem ESB bauð Úkraínu í fyrra ber öll merki sömu útþenslustefnu, ekki síst sker hann mjög á hin nánu tengsl landsins við Rússland. Sjá grein mína um samstarfssamninginn:http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1382814/. Dæmið Úkraína sýnir líka að evrópskt stórauðvald styður fasista til valda ef nauðsyn krefur til að tryggja gróða sinn og þenslumöguleika.
Það eru ekki grófar ýkjur að kalla Austur- og Suður-Evrópu efnahagslegan bakgarð Þýskalands. Það eru alls ekki grófar ýkjur að segja að þýska Septemberprógrammið frá 1914 sé orðið að veruleika.

Samstarfssamningur ESB og Úkraínu; liður í vestrænni útþenslustefnu

Meginorsök hins grafalvarlega ástands í Úkraínu er pólitík Vesturblokkarinnar, skammsýn gróðadrifin heimsvaldapólitík. Blokkin sú nýtti sér til hins ýtrasta djúpa kreppu og veiklun Rússlands eftir fall Sovétríkjanna.
Þetta var einkum gert með samhliða sókn ESB og NATO inn í gömlu Austurblokkina og áhrifasvæði Sovétríkjanna. Þannig voru brotnir niður gamlir viðskiptamúrar og verndaður iðnaður, opnað fyrir frjálst flæði vestrænna auðhringa o.s.frv. jafnhliða því að Rússland var umkringt hernaðarlega.
Þegar svo Rússland rís úr öskunni og leitar eftir hefðbundinni stöðu sinni sem stórveldi svarar Vesturblokkin af fullri hörku. Annars vegar býður ESB Úkraínu „samstarfssamning“. Hann gerir Úkraínu að hluta af evrópska markaðnum og raskar mjög tengslum Úkraínu við Rússland sem verið hafa mjög samþættuð frá Sovéttímanum. M.a. útilokar samningurinn þátttöku Úkraínu í svonefndu Eurasian Economic Community sem er efnahagsbandalag undir forustu Rússa.
„Samastarfssamningnum“ fylgdi einnig boð um AGS-lán til Úkraínu. Kreppan í Úkraínu er djúp og hinir voldugu í vestrinu vinna saman, í þessu tilfelli AGS og ESB. AGS-lánið er bundið miklum skilmálum um lífskjaraskerðingu og niðurskurð og mun í framkvæmd setja Úkraínu í líka stöðu og Grikkland. Það var ekki síst þetta AGS-lán sem stjórnvöld í Úkraínu voru að hafna þegar þeir höfnuðu samstarfssamningnum við ESB sl. haust. Íslandsvinurinn Michael Hudson skrifar að markmið AGS-lánsins hafi verið og sé að þvinga stjórnvöld til að stórfelldrar einkavæðingar ríkiseigna. Útþenslan heldur áfram. Samstarfssamningur við Georgíu, Moldóvu og Hvíta-Rússland er á aðgerðaráætlun ESB fyrir yfirstandandi ár.
Hin hliðin á sókn Vesturblokkarinnar gagnvart Úkraínu er hernaðarleg. Hernaðarþátturinn var sterkur og afar mikilvægur þáttur í umræddum samstarfssamningi við ESB. Þar segir: „Samstarfssamningurinn mun stuðla að samlögun aðila á sviði utanríkis- og öryggismála og stefnir að dýpri þátttöku Úkraínu í evrópska öryggiskerfinu“. NATO er ekki nefnt berum orðum en „Evrópska öryggiskerfið“ þýðir á mannamáli NATO og reyndar gaf NATO Úkraínu þegar árið 2008 þungvæga stöðu með „strategic partneship“.
Enn frekar en á efnahagssviðinu nýtti Vesturblokkin sér veiklun Rússlands í öryggismálum. Eftir fall múrsins sóttu Bandaríkin og NATO hratt inn á fyrrverandi svæði Sovétríkja, komu sér upp herstöðvum í nýju Kákasus-ríkjunum, í Mið-Asíulýðveldunum, í Búlgaríu, Rúmeníu, Póllandi og Eystrasaltsríkjum (og Finnland í norðri hefur „samstarfsaðild“ og náið hernaðarsamstarf við NATO), og nú segir NATO-Rasmussen gallharður að vegna spennunnar í Úkraínu muni NATO „efla starfsemi sína í Eystrasaltsríkjum og Austur-Evrópu“. NATO hefur auk þess byggt upp langdrægt skotflaugakerfi (gagneldflaugakerfi) á landi og sjó allt frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og Svartahafs. Úkraína er aðeins eitt dæmi um hina herskáu grundvallarafstöðu Vesturblokkarinnar, en sérlega hættulegt dæmi..
Victoria Nuland, bandaríski varautanríkisráðherrann sagði í umtalaðri ræðu að Bandaríkin hefðu varið 5 milljörðum dollara í að byggja upp stjórnarandstöðuna í Úkraínu. Hún átti þá væntanlega helst við aðstoð gegnum ríkisstofnunina USAID, en auk þess hafa fjölmörg bandarísk „frjáls félagasamtök“ starfað í Úkraínu (eins og vítt um heim) að „mannréttindamálum“ um langt árabil.
Hér skal látið nægja að fullyrða að valdarán úkraínskra þjóðernissinna í febrúar sl. fór fram með afar ríkulegum vestrænum stuðningi án þess ég útlisti það frekar. Í heimsókn hjá þýska starfsbróður sínum sakaði þá Lavrov, rússneski utanríkisráðherrann, ESB um að byggja upp áhrifasvæði í austur: „Ég tek alveg undir með Steinmeier. Það ættu ekki að vera nein áhrifasvæði. En að draga Úkraínu yfir á aðra hliðina, segjandi að hún  verði að velja „annað hvort eða“, annað hvort með ESB eða með Rússlandi er í reynd að skapa slíkt áhrifasvæði." Þessi pólitík er sérstaklega skaðleg í ljósi þess að Úkraína er ósamstætt land a.m.k. tveggja stórra þjóða.(sjá nánar) 
Úkraínudeilan er fyrst og síðast afleiðing blindrar útþenslustefnu Vesturblokkar. Þá er þess að geta að hagsmunir innan Vesturblokkarinnar í málefnum Úkraínu og Rússlands eru á margan hátt mjög ólíkir. Fyrir þýskt auðmagn er Úkraína frjótt landbúnaðarland með auðlindir og mikla fjárfestingamöguleika, en fyrir Bandaríkin er mikilvægi hennar fyrst og fremst hernaðarlegt. Ekki síður gagnvart viðskiptaþvingunum og efnahagslegum refsiaðgerðum á Rússa eru hagsmunirnir ólíkir.
ESB er mikilvægasti viðskiptaaðili Rússa og Rússar eru einn af þremur mikilvægustu viðskiptaaðilum ESB. Árleg viðskipti þeirra á milli nema 370 milljörðum dollara. Í samanburði eru viðskipti Bandaríkjanna við Rússa léttvæg, aðeins 26 milljarðar. Viðskiptaþvinganir þýða því fremur samkeppnisávinning fyrir Bandaríkin, nefnilega stóraukinn útflutning til Evrópu. Með viðskiptabanni er að nokkru leyti verið að fórna hagsmunum ESB. Að ekki sé minnst á bein hernaðarátök við Rússa sem væru afar váleg tíðindi fyrir Evrópu. Þá væri nú Evrópa að fórna sjálfri sér fyrir „vini“ sína. Ég er ekkert bjartsýnn, en það væri þó helsta vonin að tilfinnanlegur skaði ESB af refsiaðgerðunum gæti orðið til að slá á herskáa afstöðu ESB-veldanna.(sjá nánar)

Þórarinn Hjartarson

Blokkin og járntjaldið

Birtist í Fréttablaðinu 1. maí 2014
Járntjaldið er komið upp aftur – á nýjum stað. Það var tekið niður skamma stund meðan Rússland lá í djúpri kreppu með Jeltzín við völd, enda var hann handgenginn vestrænu auðmagni. NATO-blokkin náði þá stöðu sem nálgaðist heimsyfirráð og neytti nú yfirburða sinna. Blokk sú er fulltrúi auðhringja Bandaríkjanna og ESB fremur en fulltrúi þjóðanna. Ég kalla hana bara Blokkina. Hún notaði lægð Rússlands til að þenja NATO í austur. Hvert af öðru fengu fyrrverandi Varsjárbandalagsríki „samstarfsaðild“ að NATO til aðlögunar, svo fulla aðild. Síðar gerðist það sem hlaut að gerast – Rússland reis upp og leitaði hefðbundinnar stöðu sem stórveldi. Þá var járntjaldið sett upp aftur: Blokkin var nú langt komin með að girða Rússland vestrænum herstöðvum: í nýju Kákasusríkjunum, í Mið-Asíulýðveldunum, í Búlgaríu, Rúmeníu, Póllandi og Eystrasaltsríkjum (og Finnland í norðri með „samstarfsaðild“ og náið hernaðarsamstarf við NATO). Blokkin hefur þróað langdrægt skotflaugakerfi á landi og sjó allt frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og Svartahafs. Rússar hafa fengið járntjaldið aftur, utan við stofugluggann.

Froða um lýðræði
Varnarsamstarf var snar þáttur í margfrægum samstarfssamningi Úkraínu við ESB. Hann átti að stuðla að „aðlögun“ og „dýpri þátttöku Úkraínu í evrópska öryggiskerfinu“. Sem þýðir á mannamáli? Aðild að NATO. Að stærsti granni Rússa í vestri gengi formlega yfir til andstæðinganna. Þá loks barði Pútín í borðið og fór að gera neyðarráðstafanir. Þá kom næsta skref: Í pressu sinni málar Blokkin upp skrímslið Pútín. Eins og hún málar alla andstæðinga sína; Milosévits, Saddam, Gaddafí, Assad… áður en hún greiðir höggið. Svo kemur viðskiptabann, diplómatísk einangrun, efldar NATO-„varnir“. „Varnir“ segja menn og gefa sér að Blokkin vinni að friði. En framanskráð heruppbygging lýsir engri friðsemd. Blokkin er jú árásaraðilinn í öllum helstu styrjöldum frá falli Múrsins. 

Með froðuna um lýðræði og mannréttindi vellandi úr báðum munnvikum beitir Blokkin fasistum og pólitískum terroristum til skítverka sinna í Kænugarði. Svipað og í Líbíu og Sýrlandi. Hið nýja er hins vegar það að gengið er yfir „rauða strikið“, þolmörk Rússlands. Man einhver viðbrögð Kennedys þegar Sovétmenn ætluðu með skotpalla yfir „rauða strikið“ í Kúbudeilunni? Ef Blokkin heldur áfram sturluðum heimsyfirráðamarsi sínum í sömu átt endar hún í stórstríði við Rússa sem yrðu váleg tíðindi fyrir Evrópu. Að vanda fylgir Ísland Blokkinni sjálfkrafa og vélrænt – nema skynugt fólk fari að tjá sig.