(Birtist á Neistum 14. nóv 2020)
Nýr forseti sýnist hafa tryggt sér völd í Bandaríkjunum. Joe Biden var varaforseti BNA í stjórnartíð Baracks Obama. Af þessu tilefni er vert að rifja upp eitt atvik í afskiptum hans af utanríkismálum frá 2014. Nánar tiltekið fólust þau í greiningu á stríðinu í Sýrlandi sem ollu fjaðrafoki og móðguðu nokkra helstu bandamenn BNA í Miðausturlöndum.
Joe Biden var ákafur og áhrifamikill stuðningsmaður innrásar í Írak 2003. En Íraksstríðið varð Bandaríkjunum dýrt, blóðugt og óvinsælt, og erfitt yrði í Bandaríkjunum að markaðssetja slíkt stríð á ný. Næstu stríð í Miðausturlöndum hlutu að verða annars konar.
Frá byrjun Sýrlandsstríðsins 2011 hafa Washington og Pentagon, vestræn stjórnvöld og vestrænir fjölmiðlar markaðssett það stríð sem eina mikla „uppreisn gegn harðstjóra“. Sú uppreisn gegn Assad-stjórninni hafi byrjað sem „friðsamleg mótmæli“ en verið lamin niður af slíkri hörku að „borgarastríð“ hlaust af. Þessa sögu hafa RÚV Mogginn og Fréttablaðið sagt okkur 1000 sinnum.
Eftir því sem „uppreisnin“ gegn Assad varð villimannlegri varð hins vegar ekki framhjá því horft að í henni voru „slæm öfl“ sem komu óorði á málstaðinn. Fremst í þeim óþokkaflokki var Íslamska ríkið, og fleiri en eitt útibú af al-Kaída sem nokkru áður, eftir 11. september, voru sögð mesta ógn við mannkynið.
Þá var það að vestræn stjórnvöld tóku að sundurgreina uppreisnaröflin í Sýrlandi í annars vegar „öfgasinnaða“ hryðjuverkamenn og hins vegar „hófsama uppreisnarmenn“ þar sem styðja þyrfti þá síðarnefndu í baráttu við bæði þá fyrrnefndu og gegn Sýrlandsstjórn.
Það var um þessa vandasömu greiningu milli vondra og góðra afla í sýrlensku uppreisninni sem Joe Biden eitt sinn talaði furðulega glannalega. Hann lagði jafnframt fram greiningu á stríðinu sem var hreint ekki í samræmi við hina opinberu stefnu stjórnvalda. Greininguna þurfti hann þess vegna að draga til baka. Hún var hins vegar miklu nær sannleikanum en opinbera stefnan frá Washington.
Eftirfarandi texti er eftir sænska blaðamanninn Patrik Paulov og er kafli úr bókinni Syriens tystade röster sem kom út árið 2019. Sjá hér
Patrik Paulov (kafli úr bókinni Syriens tystade röster):
Vopnin fljóta inn í Sýrland
Cambridge, Boston 2. október 2014. Salurinn er þéttsetinn. Harvard Kennedy School við hinn virta Harvard University hefur boðið Joe Biden varaforseta að koma og tala um utanríkismál.
Stríðið í Sýrlandi hefur staðið í þrjú og hálft ár. Tölur um mannfall og fjölda flóttamanna hafa stöðugt hækkað og hryðjuverkaherinn Íslamska ríkið hefur á stuttum tíma hernumið stór svæði í Írak og Sýrlandi. Með Íslamska ríkið sem átyllu hafa BNA byrjað að varpa sprengjum yfir Írak og Sýrland.
Biden virkar afslappaður og í góðu skapi. Hann tekur hljóðnemann og grínast við kynninn áður en hann hefur mál sitt. Hann talar um Rússland og Pútín, um fund sinn með Xi Jinping og um það að BNA hafi ekki látið brjóta sig niður með hryðjuverkunum 11. september og sé enn fremsta hagkerfi heimsins. Hann endar með orðunum: „Guð blessi ykkur öll og megi guð vernda hermenn okkar. Takk fyrir.“
Þá tekur við lófaklapp og kominn er tími fyrir fyrstu spurningu. Stúdent spyr um þátttökuna í Sýrlandsstríðinu og af hverju rétt sé að taka þátt í því núna en ekki fyrr. Biden tekur við hljóðnemanum og kemur með svar sem brátt verður vel þekkt víða um lönd.
Varaforsetinn byrjar á að segja að í Bandaríkjunum haldi menn að í hverju því landi sem standi frammi fyrir umbyltingu sé að finna hófsama miðju í stjórnmálunum. „En möguleikinn á að finna hófsama miðju í Sýrlandi var aldrei fyrir hendi“ slær Biden föstu. Þessu fylgir síðan nokkuð sem á eftir að vekja viðbrögð:
- „Mesta vandamál okkar í Sýrlandi fólst í bandamönnum okkar á svæðinu. Tyrkir voru góðir vinir okkar og ég er í góðu sambandi við Erdógan sem ég hef nýlega hitt, og ég er í góðu sambandi við Sáda og Sameinuðu furstadæmin o.s.frv. Hvað voru þeir að gera? Þeir voru svo ákveðnir að steypa Assad og koma af stað styrjöld súnnía við sjía gegnum staðgengla að þeir jusu inn hundruðum milljóna dollara og tugþúsundum tonna af vopnum í hverja þá sem börðust gegn Assad – nema hvað þeir sem tóku við sendingunum voru al-Nusra og al-Kaída og öfgasinnaðir jíhadistar sem koma frá öðrum svæðum heimsins. Þið haldið að ég sé að ýkja, en gáið að hvert þessar sendingar fóru.“
Ræða Bidens var fest á filmu og má finna á Youtube-vef Harvard háskólans [vandfundnari á netinu nú en áður, þýð.]. Óvænt útspil hans fékk fljótt mikla dreifingu og þeir sem þar var vísað til urðu felmtri slegnir. Erdógan krafðist opinberrar afsökunarbeiðni. Tveimur dögum eftir upptroðsluna gaf talsmaður Bidens út eftirfarandi yfirlýsingu:
- „Varaforsetinn biðst afsökunar á öllum fullyrðingum um að Tyrkland eða aðrir bandamenn og samstarfsaðilar á svæðinu hafi vísvitandi stuðlað að eða stutt framgang Íslamska ríkisins eða annarra ofbeldis- og öfgaafla í Sýrlandi.“
Þrátt fyrir afsakanirnar gefa orð Bidens hlutaskýringu á því af hverju stríðið í Sýrlandi hefur orðið svo grimmilegt og dregist svo á langinn. Varaforsetinn staðfesti það sem yfirmaður eftirlitsmanna SÞ, Robert Mood, benti á í júní 2012 um að „það koma sendingar bæði af peningum og vopnum“ og við höfum séð „erlenda aðila stuðla að ofbeldisvítahring á allt annað en uppbyggilegan hátt“. Það sem Biden sleppir að fjalla um er eigin þáttur í að kynda undir „ofbeldisvítahringnum“ [...]
Að Bandaríkin væru beint innblönduð í að kynda undir stríðinu í Sýrlandi var afhjúpað af New York Times 21 júní 2012:
- „Dálítill hópur CIA-foringja eru leynilega starfandi í suðurhluta Tyrklands. CIA-foringjarnir hjálpa bandamönnum Bandríkjanna að ákveða hvaða uppreisnarhópar hinum megin landamæranna skuli fá vopn til að berjast við Sýrlandsstjórn að sögn bandarískra talsmanna og arabískra upplýsingafulltrúa.
- Vopn, m.a. sjálfvirkar byssur, sprengjukastarar, skotfæri og vopn gegn brynvörðum ökutækjum eru flutt yfir tyrknesku landamærin eftir leynilegu neti milliaðila þ.á.m. Múslimska bræðralagsins. Vopnin eru kostuð af Tyrklandi, Sádi-Arabíu og Katar.“
Meira um framgöngu Obama/Bidens í Miðausutrlöndum – og einnig fyrirrennaranna Bush/Cheney og eftirmannanna Trump og Pence – má lesa í bókinni Syriens tystade röster.
No comments:
Post a Comment